Það var dálítið einkennilegur pistill á Eyjunni nýlega. Þar skrifaði einhver kona um langhlaup og fann þeim allt til foráttu. Hún sagðist ekki vera fráhverf hlaupum og hlaupa allt að 10 km á viku. Ekki ætla ég mér þá dul að fara skipta mér af því hvað hún hleypur mikið en þá verður maður að ætlast til þess saman, hvað er hún að skipta sér af því hvað aðrir hlaupa. Hvað ætli væri sagt ef maður færi að skrifa greinar í opinbera fjölmiðla og fjargviðrast yfir þeim sem hlaupa einungis 10 km á viku. Það er alltaf spurning hvað er hollt eða ekki. Það er hollt að þjálfa anda og efni þannig að hann geti meir í dag en í gær. Það er hins vegar ekki hollt að gera meir en maður getur. Ég hef svo sem ekki séð að það að hlaupa maraþon sé eitthvað sérstaklega hollt pr ce en það er afar hollt að byggja skrokkinn upp þannig að maður sé þokkalega fær um að hlaupa í fleiri klukkutíma. Auðvitað verða menn að ætla sér af og láta ekki kappið hlaupa með sig í gönur. Íþróttir taka á. Meiðsli eru mun algengari í öðrum íþróttum en hlaupum s.s. í fótbolta og handbolta. Það þarf ekki annað en að lesa íþróttasíður blaðanna til að sjá það. Margir segja að ég geti hlaupið svo langt sem raun ber vitni á þeim aldri sem ég er vegna þess að ég hafi ekki eyðilagt á mér lappirnar í boltaíþróttum á yngri árum. Það er ekki út í hött að góðir sundmenn fara stundum í langhlaup þegar þeir hætta keppni í sundinu en mjög sjaldgæft að hitta gamla fótboltamenn í langhlaupum. Við félagarnir erum sammála um það að það séu ótrúleg lífsgæði og í raun og veru hrein forréttindi að geta hlaupið úti klukkutímum saman ef maður hefur áhuga á því og lagt maraþon að baki þegar mann langar til. Maraþonvegalengdin er engin endamörk hins mannlega heldur á þessi vegalengd ákveðna sögulega skírskotun. Þess vegna er borin mikil virðing fyrir henni.
Því miður hefur það komið fyrir að fólk hafi látist í maraþonhlaupi. Það kemur einnig því miður fyrir á fótboltavellinum. Svona lagað getur gerst ef um er að ræða dulda veikleika hjá viðkomandi.
Ég held að þessi ágæta kona hefði haft gott af því að vera niður í Elliðaárdal í gær þegar hlauparana var að drífa í mark eftir að hafa hlaupið hálft og heilt maraþon í frábæru veðri og góðum félagsskap. Það var ekki að ósekju að manni var heilsað með orðunum: "Gleðilega hátíð" þegar ég kom á staðinn.
Það var sen vönduð frétt út til allra fjölmiðla í gær um úrslit hlaupsins. Mjög góður árangur náðist í hlaupinu. Engu að síður var það staðfest að fjölmiðlar hafa mun meiri áhuga á því ef tveir menn segjast koma saman og vera að mótmæla einhverjum skrattanum heldur en þegar á annað hundrað manns hleypur hálft og heilt maraþon. Þó skal það tekið fram að DV birti frétt um hlaupið. Þeir hafa sóma af því. Þeim mun meiri er þá skömm RÚV sem dregur áskriftargjaldið með valdi upp úr vösunum á manni.
Það var keppt í 100 km hlaupi í Noregi í gær. Helgi Hafsås sigraði eins og búist var við á 7 klst og 11 mín. Það er alveg magnaður tími. Þegar hann lauk hlaupinu voru einungis fjórir aðrir komnir yfir 80 km. Mjög magnaður norskur hjólreiðamaður sem aldrei hafði hlaupið lengra en 5 km tók þátt í hlaupinu. Hann hætti að vísu eftir eitt maraþon en hann lauk því á 2 klst og 49 mín. Það sýnir manni að hjólreiðar eru mjög góð aðferð til að byggja fæturna upp fyrir hlaup. Daníel Smári sýndi þetta einnig t.d. í fyrra fyrir Laugaveginn þar sem hann sigraði. Hann hafði sáralítið hlaupið en hjólað þeim mun meir.
sunnudagur, október 25, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli