Það var verið að smala Tálknann í dag og gerð tilraun til að hreinsa hann af fé. Það er ekki auðvelt því hann er erfiður yfirferðar fyrir venjulegt göngufólk, hvað þá þegar verið er að smala ljónstyggu fé. Það er eins og áður að þegar verið er að eiga við féð þarna þá byrja einhverjir að fjasa um að það eigi að láta þennan svokallaða villta fjárstofn í friði. Menn tala eins og þarna sé eitthvað sérstakt fé á ferðinni. Það er líka talað um að það sé allt að því dýravernd að láta féð í friði. Það er náttúrulega fásinna. Þetta eru bara venjulegar útigöngukindur sem hafa lifað af allskonar harðræði í Tálknanum. Flest af því er í mörgum reifum sem bæði gerir því erfitt fyrir bæði sumur og vetur. Sumurin eru erfið þegar hitinn er sem mestur á móti suðrinu. Þá sækir féð í skugga og hreyfir sig ekki vegna óþæginda. Það hefur áhrif á hvað ærnar mjólka fyrir lömbin. Á veturna hleðst snjór og klaki í rúgið sem gerir féð allt að því ófært til að bjarga sér. Ullarhaft er algengur fylgifiskur þess þegar ullin er ekki tekin af kindum. Ullarhaft getur sargað legginn í sundur eða leitt til ígerða með tilheyrandi sýkingum í afturfætur. Það segir sína sögu að þarna eru einungis milli 20 og 30 kindur. Hinar eru dauðar vegna allskonar áfalla. Flest lömbin virðast drepast yfir veturinn. Ef stofninn hefði eðlilega viðkomu væru þarna fleiri hundruð fjár.
Ég man eftir því þegar ég er þarna fyrir vestan fyrir eitthvað um 30 árum þá gekk ég eitt sinn dálítið langt út á hlíðina fyrir utan þorpið. Þá rakst ég á svo glithoraða kind að ég hefði getað tekið hana undir hendina eins og tóman poka. Hún var blind og hennar beið ekkert annað en að drepast. Henni var náttúrulega lógað eins fljótt og hægt var. Fæstum finnst það vera neitt ánægjuefni að vita af skepnugreyjunum þarna að vera að drepast úr hungri eða hrapa á svellum. Því er eðlilegt að reyna að hreinsa Tálknann algerlega af fé á hverju ári. Það er dýraverndarmál.
Ég rakst á ágætt viðtal við tvo norðmenn sem eru góðir maraþonhlauparar. Annar þeirra vann Oslómaraþonið í ár. Þeir eru að fara yfir hvernig fólk á að þjálfa sig upp til að hlaupa gott maraþon. Annar þeirra leggur til eftirfarandi meginþjálfun:
1. 3-4 sinnum 1600 metrar á 10 km hraða. Tvær mínútur á milli spretta. Skokkað létt fyrir og eftir í ca 10-15 mín.
2. Millihratt hlaup með stígandi tempói upp í maraþonhraða. Samtals í 1-1,5 klst. Skokkað létt fyrir og eftir.
3. Löng hlaup í 1,5 - 2,5 klst.
Þessi hleypur tvisvar á dag eftir því sem fært er.
Hinn hleypur 130-160 km á viku.
1. Einn langur túr upp á ca 30 km.
2. Einn túr með intervall hlaupi eða stígandi hraða.
3. Tveir dagan með hálflöngum túrum upp á 20-25 km.
4. Síðan eru hlaupin róleg hlaup til að ná því sem upp á vantar.
miðvikudagur, október 28, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli