þriðjudagur, október 27, 2009

Mál Lithaénsku stúlkunnar sem ærðist í flugvelinni á leið til landsins frá Warsjá nú nýlega hefur heldur betur undið upp á sig. Þarna virðist heill glæpaflokkur verið á ferðinni og hann ekki af betri sortinni. Mannsal, tryggingasvik, handrukkanir og eiturlyf. Þetta er veruleikinn á Íslandi í dag. Maður hefur ekkert heyrt amlað á móti því að það hafi verið upplýst að hluti flokksins hafi verið Litháar. Skyldi það vera farið að renna upp fyrir æ fleirum að alvöru bófaflokkar eru komnir til landsins og hafa verið að óperera hér af fullum krafti. Það var svo sem nóg af slíku fyrir en á undanförnum misserum hefur nýr kraftur verið settur í þessa grein samfélagsins. Þjófagengi hafa komið til landsins beinlínis í þeim erindagjörðum til að stela. Maður veltir fyrir sér hvað veldur. Eru íslendingar eins og hver annar hænsnahópur sem er illa undir slíkt búinn eða hvað? Á árunum eftir fall kommúnismans sá maður í norrænum blöðum að svona hópar flæddu yfir norðurlöndin. Við erum kannski bara svolítið á eftir.
Það kemur náttúrulega á daginn að mannsal hérlendis er langt í frá bundið við kvenfólk og vændi eins og umræðan hefur nær eingöngu snúist um hérlendis á undanförnum árum. Umræðunni um þau mál hefur verið stýrt út um hið þrönga kýrauga feministafélagsins. Það er afskaplega hæpið sjónarhorn á samfélagið. Karlar eru í þess háttar fjötrum í byggingariðnaði og veitingabransanum svo dæmi séu nefnd. Fyrir nokkrum árum fórst hópur Kínverja við skelfisktínslu í Bretlandi sem var í slíku þrælahaldi. Hvaðan kemur svo þetta fólk sem hafnar í þessari stöðu? Ekki eru það Skandinavar eða neðan úr Vestur Evrópu. Þetta vesalings fólk á það yfirleitt sammerkt að koma frá fyrrum eða núverandi kommúnistaríkjum. Þjóðfélögin þar eru brotin og fólki er víða allar bjargir bannaðar. Eftir hrun kommúnismans var atvinnulífið í Austur Evrópu í rúst, atvinnuleysið fór upp úr öllu valdi, kaupmáttur launa var enginn og þannig má áfram telja. Fólk sem hafnar í slíkri stöðu reynir að bjarga sér með öllum tiltækum ráðum. Það er þá oft auðveld fórnarlömd glæpamanna.

Ég man efir því þegr ég vann á Kamchatka að við vorum einu sinni á gangi á markaðnum og spjölluðum saman á íslensku. Einhver kona heyrði að þarna voru útlendingar á ferð, stökk á okkur og spurði hvort við gætum ekki bjargað dóttur hennar út úr landinu. Til að fá að yfirgefa landið þá þurfti viðkomandi að fá boðsbréf frá einhverjum utanaðkomandi. Við vorum náttúrulega eins og hverjir aðrir labbar sem gátum ekkert gert en við ræddum oft um það síðar hvað þetta svæði væri kjörið veiðisvæði fyrir glæpamenn þegar staðan væri svona að fólk mætti ekki heyra erlent mál nema bregðast svona við.

Gísli aðalritari skoðaði aðeins á dögunum skrá ÍSÍ um íþróttaiðkendur eftir íþróttagreinum. Fótbolti og golf tróna þar efst með rúma 18.000 iðkendur hver grein. Þar er greinilega allt til talið. Sagt er að rúmlega 3.000 manns æfi hlaup. Til viðmiðunar þá kom hálft tólfta þúsund manns á Reykjavímur maraþon sl. sumar. Hátt á þriðja þúsund manns skráir æfingar sínar reglulega inn á www.hlaup.som. Þessar tölur hjá ÍSÍ eru náttúrulega alveg út í hött en þær hafa áhrif varðandi vægi einstakra íþróttagreina.

Morgunblaðið leggur greinilega mikið effort í að hafa samband við alla íslenska knattspyrnumenn sem spila hjá erlendum liðum á hverri helgi til að kanna hve þeir hafi spilað mikið og hvernig þeim hafi gengið. Sama gildir um handboltamennina. Þetta er svo mikill heimalingsháttur að það er dæmafátt. Að það sé tiltekið viku eftir viku að hinn eða þessi spili ekki með liði sínu. Hvaða frétt er það? Það er nákvæmlega engin frétt og það stendur öllum hjartanlega á sama nema kannski þrengsta vinahóp og fjölskyldu viðkomandi. Menn eru þarna á eigin vegum og annað hvort spjara þeir sig eða ekki. Það er fínt að fylgjast með þeim sem eru virkilega að gera það gott en að sópa út í öll horn, það er of mikið fyrir minn smekk. Ég taldi fjölda íslenskra fótboltamanna höfðu verið skoðaðir af Mbl um síðustu helgi. Það voru rúmlega tuttugu sem höfðu spilað eitthvað en nær fimmtán sem höfðu vermt tréverkið allan leikinn. Á sama tíma og blaðamenn Mbl eru að gaufa í þessu á hverri helgi þá eyða þeir sömu blaðamenn tölvupóstum með úrslitum hérlendra maraþonhlaupa án þess að lesa þá einu sinni.

Þetta er síðan heldur farið að nálgast hjá Hermanni Hreiðarssyni. Hann er farinn að skokka herma síðustu fréttir en því var skilmerkilega komið á framfæri í sjónvarpinu í kvöld að hann hefði ekki spilað neitt. Það bíða allir spenntir eftir næstu ekki fréttum af þessum ágæta pilti.

Að krókna úr kulda þýðir að frjósa í hel. Deyja úr kulda í þess orðs fyllstu merkingu. Hljómsveit nokkur króknaði nýlega úr kulda við myndatökur hérlendis samkvæmt fjölmiðlum. Það er satt að segja ósköp hvimleitt að heyra hvernig lélegir fjölmiðlamenn klæmast á tungumálinu.

8 ummæli:

Starri Heiðmarsson sagði...

Sæll Gunnlaugur!
Eru ekki tölur ÍSÍ byggðar á félagatölum íþrótta- og ungmennafélaga? Hef grun um það og er sjálfur þeirrar skoðunar að hlauparar eigi að telja sig frjálsíþróttamenn og gjarna að vera félagar í slíku félagi. Veit að þú sjálfur ert í tiltölulega nýlegu ungmennafélagi ekki satt? Þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoninu eru hins vegar aðeins að litlum hluta skráðir í eitthvert slíkt félag. Auðvitað gæti félag maraþonhlaupara, sem félagi í ÍSÍ, skráð alla sína félaga sem iðkendur og þyrfti þá "bara" að greiða félagaskattinn til ÍSÍ.
ÍSÍ til hróss má svo líka segja að þar á bæ hafa verið gerðar tilraunir að halda utan um almenningsíþróttir og efla þær. Það er á hinn bóginn líklega eðli slíkra almenningsíþrótta að vera nokkuð anarkístar í eðli sínu og þátttakendur með meiri áhuga á þáttökunni en skipulagningunni!

Síðan má skrifa marga pistla um fréttamat íþróttafréttamanna;-) Held reyndar að þar sé um alþjóðlegt vandamál að ræða, þrátt fyrir aðgang að þremur íþróttarásum hér í sæluríkinu í Westri þá er fjölbreytnin ekki mikil (vanþakka þó ekki enska boltann). Og við íslendingar sem stundum hneykslumst á áhuga okkar íþróttafréttamanna á afrekum (eða afrekaleysi)okkar manna þurfum tæpast að skammast okkar í samanburðinum. Þegar HM í frjálsum var hér í ágúst þá var (á þessum tveimur tímum sem sýndir voru á dag) nánast ekkert sýnt nema bandaríkjamennirnir.
Góðar stundir

Nafnlaus sagði...

Sæll Starri.
Tölurnar hjá ÍSÍ eru vafalaust byggðar á félagatölum. Það er vitaskuld spurning hvernig á að fara með almenningsíþróttir sem eru iðkaðar á öðrum forsendum en hinar hefðbundnu. Er það eitthvað minni íþrótt að litlir krakkar taka þátt í skemmtiskokki Reykjavíkurmaraþons eða þegar þeir taka þátt í kappleikjum þar sem meginmarkmiðið er að vera með? Ég sé ekki stóra muninn á þessu. Formið er hins vegar ólíkt. Annar er skráður í íþróttafélag en hinn ekki.
FRÍ er farið að gefa götuhlaupum og ofuríþróttum meiri gaum en áður. FRÍ er orðið aðili að IAU (International Association of Ultra Runners). Við í UMFR36 fengum aðild að ÍBR eftir fimm ára nudd. Þetta er svona að potast. Fjölmiðlar eru vitaskuld svona og svona. Mér finnst hins vegar að maður eigi hafa viðmiðið upp á við en ekki að vera sáttur ef maður finnur einhvern sem er enn lélegri. Lítil eða engin umfjöllun flestra fjölmiðla um stór götuhlaup hérlendis eins og Reykjavíkurmaraþonið og Laugavegshlaupið er hreinlega til skammar. Það er bara ekki hægt að kalla það annað.

Máni Atlason sagði...

Tek undir hvert orð um léleg vinnubrögð þegar kemur að fréttamati íþróttafréttamanna.

Ef maður vill komast inn í tölfræðina sem áhugahlaupari, hvað á maður að gera? Er eitthvað sem ég get gert til að tryggja að ég teljist með í tölum ÍSÍ sem áhugahlaupari?

Nafnlaus sagði...

Sæll Máni.
Ég hef bara ekki hugmynd um það. Það væri ómaksins vert að spyrja ÍSÍ að því!!
Mbk
Gunnl.

Nafnlaus sagði...

Það er ekki rétt að enginn hafi gert athugasemdir við ofuráherslu á þjóðerni glæpamannanna.

Til dæmis benti Stefán Eiríksson ríkislögreglustjóri blaðamönnum á að þjóðerni mannanna væri aukaatriði þegar hann hélt fyrsta blaðamannafundinn um þetta mál. Hann skaut því að í leiðinni að starfemi glæpahópa þrifist hérlendis vegna þess að hér er eftirspurn eftir "þjónustunni" sem þeir veita. (Hérlend löggjöf tekur ekki á öllum hlekkjum í virðiskeðjunni í mansalsmálum. Sums staðar á Norðurlöndunum er það gert. En það er önnur umræða.)

Það eru nokkur dæmi um pínlegar uppákomur sem fylgt hafa þessari nýfundnu ást fjölmiðla á þjóðernisbirtingum. Fljótlega eftir að þetta mansalsmál kom upp byrjaði fréttatími á RUV á því að Óðinn Jónsson sagði uppúr sér að þessi fréttatími myndi byrja á fréttum af Litháum í varðhaldi þegar fyrsta fréttin var um að innlendir glæpamenn sem tengdust málinu hefðu verið hnepptir í varðhald. Annað dæmi er um manndráp í sumarbústað í Grímsnesinu þar sem hlutaðeigendur voru ýmist pólskir eða litháískir eftir því hvaða fjölmiðla maður las og hvenær.

Ég get gúterað að fjölmiðlar þurfi að nota einfaldanir/merkimiða þegar þeir eru að fjalla um brotamenn, en ég get ekki gúterað að merkimiðarnir séu alltaf tengdir þjóðerni þegar um útlendinga er að ræða. Úr fréttafyrirsögnum mætti næstum lesa að þessir hórmangarar frá Litháen séu í varðhaldi fyrir að vera Litháar en ekki fyrir mansal (og allt hitt). Það er meiri áhersla á þjóðerni brotamannanna en afbrotin.

Ég er að verða eins og hundarnir hans Pavlovs. Gunnlaugur skrifar um innflytjendamál => ég kommenta. En ég hef gagn og gaman af að skrifast á um þessi mál við mann sem svarar kurteislega, er með rökstuddar skoðannir og annan útgangspunkt. Það hjálpar mér að forma skynsamlega sýn.

Nafnlaus sagði...

Ég sá nýlega í norsku blaði að þarlend yfirvöld eru búin að missa þolimæðina gagnvart glæpagengjum frá Austur Evrópu sem hafa hópast til landsins á undanförnum árum. Þetta er nefnilega víðar vandamál en hérlendis. Í upphafi voru það glæpamenn frá Póllandi og Litháen sem voru fyrirferðarmestir en nú eru það Rúmenar. Norðmenn eru ekki frekar en aðrir nágrannar okkar neitt klúknir við að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og tilgreina þjóðerni umfangsmikilla glæpamannagengja eins og eðlilegt er. Norsk yfirvöld ætla að beita öllum tiltækum ráðum til að draga úr þessum ófögnuði. Vafalaust hafa þau nóg að fást við það sem heimaalið er enda þótt vandamálin séu ekki flutt inn. Þeir ætla t.d. að beita brottvísunum frá landinu af meiri hörku en hingað til. Með í fréttinni fylgdi að allir almennilegir Rúmenar sem búa í Noregi (sem vitaskuld er stærsti hlutinn) séu miður sín yfir þessari þróun og vilja leggja sitt af mörkum til að yfirvöld nái árangri í baráttu þeirra við glæpagengin.
G

Nafnlaus sagði...

Þetta dæmi undirstrikar kannske enn frekar það sem ég er að tala um. Það vita allir að glæpagengi virða ekki landamæri við iðju sína. Ein neikvæð afleiðing þjóðernisbirtinga er að innflytjendur eru í ákveðnum skilningi gerðir ábyrgir fyrir samlöndum sem brjóta af sér. Það liggur vonandi í augum uppi hversu óeðlilegt staða það er fyrir löghlýðið fólk að finna sig knúið til að gefa út sérstakar yfirlýsingar um að þeir séu andvígir glæpum og séu tilbúnir til að gera sitt til að berjast gegn þeim.

Icesave staðan er alls ekki sambærileg, en hjálpar okkur Íslendingum að setja okkur í þessi spor.

Nafnlaus sagði...

Útgangspúnktur minn er hvort kerfið hjá okkur sé á einhvern hátt þannig að það geri erlendum glæpagengjum auðvelt með að koma til landsins og óperera hér. Því er mikilvægt að vita hvað er að gerast í þessum málum og meðal annars hvort erlendum glæpagengjum hafi farið fjölgandi. Ef þróunin er á þann veg að hún sé óviðunandi á að bregðast við. Þar á meðal finnst mér aðild okkar að Schengen vera verulega umhugsunarverða því hún gerir allt landamæraeftirlit ómarkvissara. Það á ekki að skapa sér erfiðleika að óþörfu. Það er hins vegar bara eins og það er að ef minnst er á svona hluti þá fara alltaf ýmsir að æpa "útlendingahatur".