Umræðan um einelti í grunnskólum er alltaf jafn átakanleg. Maður spyr sig hvernig svona lagað geti gengið árum saman í sama skólanum gagnvart sama einstaklingnum. Það er ekki hægt að kalla þetta annað en kerfisbundnar misþirmingar eins og þær sögur hljóða sem fólk hefur verið að segja undanfarna daga í fjölmiðlum. Það eru alltof mörg ljót dæmi til staðar svo hægt sé að segja að þetta sé eitthvað sem komi mönnum á óvart. Það sem gerir þetta svo sérstakt gagnvart grunnskólanum er að það er skólaskylda. Börnin sem verða fyrir einelti eiga ekkert val. Þau eru skylduð til að mæta kvölurum sínum hvort sem þau vilja eða ekki. Ef þau skrópa eru þau orðin að vandamáli. Það fullorðna fólk sem á að bera ábyrgð á börnunum bregst algerlega. Ég vildi ekki hafa borðið ábyrgð á skólastarfi og fá síðan svona sögur yfir mig. Það er spurning um ábyrgð í slíkum tilfellum. Ég veit um sænsk dæmi þes efnis að einstaklingar sem hafa orðið fyrir illyrmislegu einelti í grunnskóla hafa saksótt sveitarfélagið vegna þess að það veitti þeim ekki þá vernd sem eðlilegt var að gera ráð fyrir að börn fengju. Sveitarfélögin tapa slíkum máluð iðulega. Ég þekki persónulega mjög vond dæmi um þetta að norðan. Þegar foreldrafélagið gekk í því að fá fagfólk inn í skólann til að taka á svona málum þá kom það flestum á óvart að gerendunum leið ekki síður illa en þeim krökkum sem urðu fyrir djöfulskapnum.
Ég hélt að foreldrar bæru ábyrgð á gerðum barna sinna. Ef krakkarnir mínir hefðu farið yfir í garðinn við næsta hús, kastað grjóti í rúðu og brotið hana hefði ég veskú og spís orðið að borga. Ef krakkarnir mínir hefðu hagað sér eins og vitleysingar einhversstaðar þá hefði ég verið skammaður fyrir að hafa ekki alið þau almennilega upp. En ef krakkarnir eru látnir taka lán í banka upp á milljónir þá er lánið látið niðurfalla þegar upp kemst. Ég á ansi erfitt með að trúa því að krakkar undir fermingaraldri hafi farið í bankann og óskað eftir láni til að kaupa stofnfé fyrir upp á milljónir á milljónir ofan. Ætli foreldrarnir hafi ekki verið með í för og haft orð fyrir þeim? Vitaskuld. Ef bankafulltrúinn hefði farið að amla á móti þá hefðu foreldrarnir vafalaust orðið alveg vitlausir, öskrað og æpt yfir þvi að blessuð börnin væru að missa af gróðatækifæri. En vafalaust hefur bankafulltrrúinn verið á prósentum svo lán á nafni krakkanna hafa vafalaust haft í för með sér launahækkun til hans. Þannig voru allir ánægðir - um tíma -. En þegar fjárhættuspilið gengur ekki upp þá á bara að fella lánið niður rétt si svona. Skamm, skamm, svona má ekki gera. Og almenningur á að borga. Auðvitað á að láta foreldrana vera ábyrga fyrir þessu rugli sem þau stofnuðu til algerlega upp á eigin kontó og með eigin græðgi sem drifkraft. Reynslan er góður skóli en skólagjöldin í honum eru stundum ansi há.
Tálknaféð vefur upp á sig. Mogginn spanderar forystugrein og alþingismaður ætlar að taka málið upp á Alþingi. Það á að friða villt fé. Þetta er svo náttúrulegt og sætt að hafa villt fé í fjöllum. Landnámskindur. Háfættar og liprar. Úrval náttúrunnar. Ég sé ekkert sætt eða flott við það að láta fé drepast úr hor á útigangi rétt við bæjardyrnar, horfa á það fara fram af klettum á svelli eða láta það dragast upp í ullarhafti. Greinilega eru margir á annarri skoðun. Það kemur því miður fyrir að svokallaðir bændur fara illa með kindur og láta skepnur drepast úr vanhirðu. Eiga nágrannar og eftirlitsaðilar bara að horfa upp á það og segja: ja, náttúran hefur sinn gang?
föstudagur, október 30, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli