laugardagur, október 10, 2009

Ég held að það fari ekki á milli mála að Yoko kellingin Ono sé ein alversta sending sem hingað til lands hefur komið. Allt er þá þrennt er og fullreynt í fjórða sinn. Í hitteðfyrra sprakk meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur með látum þegar kveikt var á ljóssúlunni. Í fyrra hrundi efnahagskerfi þjóðarinnar á kveikingardeginum og í ár gerði þvílíkt aftaka veður að það tókst ekki einu sinni að kveikja á súluskrattanum á tilsettum degi.
Maður spyr sig bara; Hvað gerist á næsta ári?

Það er mikil umræða um AGS og ekki AGS. Skal, skal ekki. Umræða hefur farið fram um að það eigi að vera hægt að taka lán hjá öðrum svo ekki þurfi að fara eftir skilyrðum / leiðbeiningum AGS. Mér finnst dæmið vera dálítið eins og svona: Einstaklingur er búinn að spila rassinn algerlega úr buxunum hvað varðar fjármálin. Hann fer í bankann þegar allt er komið í þrot til að fá lán til að skuldbreyta og koma skikk á málin. Bankinn setur það skilyrði til að hann komi að málum hans að það verði settur nokkrursskonar fjárhaldsmaður yfir fjármálin og hann megi ekki taka neina stóra ákvörðun í peningamálum nema í samráði við ráðgjafann. Ráðgjafinn setur upp ákveðna áætlun um hvernig megi ná fjármálunum á réttan kjöl á nýjan leik. Það rífur í. Margt af því sem sjálfsagt var áður er ekki elngur hægt. Það eru ekki til peningar segir ráðgjafinn. Það þarf að setja niðurgreiðslu lána í forgang. Þetta gengur allt þokkalega fyrst en svo fer að taka í. Manninn langar til að gera eitthvað sem honum þótti sjálfsagt áður en ráðgjafinn neitar. Hann hafi ekki efni á að gera það sem hann langar til. Þá fer allt í baklás. Sá sem kom fjármálunum í þrot vill helst af öllu losna við þennan leiðinlega ráðgjafa og fá lán hjá öðrum banka án skilyrða. Þá verði allt gott og skemmtilegt aftur. Það eina sem þarf að gera til að hlutirnir komist í gott lag er að losna við ráðgjafann, losna í leiðinni við öll leiðinlegu skilyrðin sem hann setur, taka síðan svo stórt lán að hægt sé að borga gömlu kröfuhöfunum og fara að gera allt það aftur sem áður þótti sjálfsagt.

Ég rakst fyrir skömmu á blogg konu sem missti son sinn nýlega. Það er í sjálfu sér ekki í sérstakar frásögur færandi nema að sonurinn hafði verið í miklum erfiðleikum meir og minna á unglings- og fullorðinsárum vegna fíkniefnamála. Þessi frásögn hennar kom manni til að hugsa um margt. Í fyrsta lagi veit enginn hver verður fyrir þessum vágesti sem fíkniefnaneysla er. Fiktið breytist á örskömmum tíma hjá of mörgum í blákaldan vítahring sem engin leið virðist út úr. Í öðru lagi er auðvelt að standa hjá og dæma. Þó menn vilji brjótast úr úr þessu helvíti þá virðist leiðin til baka oft vera ómöguleg hjá of mörgum. Maður þakkar sínum sæla fyrir á meðan krakkarnir manns sjálfs og þeir krakkar sem maður þekkir sleppa við að verða þessum vágesti að bráð. Mér fannst síðan ýmislegt athyglisvert sem koman sagði úr reynsluheimi sínum. Henni lá ekki of gott orð til Vogs. Þar sóttu að hennar mati óharðnaðir unglingar sér reynslu og þekkingu til þeirra sem voru reyndari í faginu. Hennar reynsla var aftur á móti að meðferðin á Krísuvíkurheimilinu hefði verið miklu árangursríkari.

Ef menn hafa ganman að því að skoða fallegar ljósmyndir þá er ómaksins vert að kíkja í ljósmyndagallerí Jóns Páls sem er á Stjörnubíósreitnum á Laugaveginum. Hann hefur þar til sölu fullt af fallegum ljósmyndum í mismunandi stærðum. Það er staðreynd að falleg ljósmynd stendur góðu málverki ekkert að baki nema síður sé. Það er síðan myndefnið (mótívið) sem ræður því hvort myndin er góð eða ekki en ekki hvað myndavélin kostar mikið sem myndin er tekin á. Mæli með því að kíkja þarna við ef fólk á leið hjá.

Gott viðtal við Stein Járnkarl í morgun í Mogganum. Steinn er enginn venjulegur jaxl. hann hefur ekki misst dag úr æfingum síðustu 1000 daga. Það er engin smáræðis agi sem þarf til að ná því. Viðtalið við Stein var á baksíðunni en ekki í íþróttakálfinum. Nú veit ég ekki hvað Moggamönnum finnst virðulegra en mér finnst persónulegr að afréttir af Ironman og öðrum ofurkeppnum eigi heima á íþróttasíðum en ekki með fréttum af veðri og fiskigengd með fullri virðingu fyrir slíkum fréttum. Á íþróttasíðum Moggans er hins vegar allt fullt af fréttum um að Hermann Hreiðarsson hafi fengið útborgað, Hermann Hreiðarsson sé á fullu að synda og það eigi að selja Hermann Hreiðarsson hngað eða þangað eða að það vilji enginn kaupa Hermann Hreiðarsson. Sömuleiðis eru fréttir um að það sé farið illa með óskabarn þjóðarinnar, stóru strákarnir hrindi honum frá boltanum, vilji ekki gefa á hann og hann sé lengi að hlaupa. Súk. Þetta eru alvöru íþróttafréttir.

1 ummæli:

Stefán Gísla sagði...

Las dálítinn bunka af bloggum í kvöld. Flottur pistill hjá þér um AGS! Hitti konu um daginn sem sagði mér sögu af kornungum syni sínum. Hún var búin að banna honum að fá nammi, en eftir nokkra umhugsun kom hann aftur fram og endurtók bónina. Hún svaraði neitandi sem fyrr, en sá litlu sneri upp á sig og sagði: "Mamma, ég var ekki að tala við þig, ég var að tala við pabba"! Við erum enn á svipuðu róli og sá stutti, mörg hver. Já, og líka flottur pistill um fréttamatið. Maður er alltaf jafn orðlaus yfir þessu!!!