laugardagur, október 17, 2009

Dómsmálaráðherra vísaði fjórum mönnum úr landi á dögunum eftir að hafa farið lengi og vandælega yfir málefnalegar ástæður þeirra. Út úr því kom niðurstaða. Í málum eins og þessum er unnið eftir ákveðnum reglum til að missa þetta allt ekki úr böndunum. Við niðurstöðuna varð örlítill hópur vitlaus eins og búast mátti við og mótmælti brottvísuninni. Rökin voru þau að þessir menn hefðu dvalist hér svo lengi að þeir hefðu myndað tengsl við land og lýð. Ef dómsmálaráðherra hefði unnið mjög hratt og fellt sömu niðurstöðu fyrir mörgum mánuðum þá hefði sami hópur orðið jafn vitlaus. Rökin hefðu þá verið þau að dómsmálaráðherra hefði unnið mjög hratt og hroðvirknislega í máli þeirra. Rökin eru tínd upp af götunni eins og best hentar. Þegar þessi hópur mótmælir brottvísum manna sem uppfylla ekki þau skilyrði sem unnið er eftir á alþjóðavettvangi og vísar til að það eigi að fella úrskurði í svona málum með hjartanu og út frá tilfinningum þá er eins gott að þau segi til um hve marga einstaklinga eigi að vista hérlendis út frá slíkri afstöðu. Eru það 4, 40, 400, 4.000, 40.000, 400.000 eða 4.000.000. Hvar liggja mörkin? Menn hljóta að hafa svör við slíkum spurningum. Eða skyldi svarið vera að það megi allir koma sem vilja koma? Það kæmi mér ekki á óvart.

Um 30-40 manns höfðu ekki þarfara að gera í dag en að standa niður á Austurvelli og vera með hávaða. Þetta fannst RÚV svo merkilegt að fréttastjórinn sendi fréttamann niðureftir svo það væri hægt að vera með beina útsendingu frá hávaðanum í hádegisfréttum? Þá var ekki verið að spara. Ekki sást einn einasti fréttamaður frá fréttastofu RÚV í miðbænum í sumar þegar Reykjavíkurmaraþonið var haldið. Þó voru mættir um 11.500 manns í miðbæinn á öllum aldri sem þreyttu hlaup af ýmsum toga. Það var ekki einu sinni getið um það í textavarpinu. Að maður tali nú ekki um Laugaveginn sem er annað fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndum. Þó get ég fullyrt það að skokk og hlaup hafa meiri áhrif til betri lífsgæða heldur en flest annað sem fólk getur tekið sér fyrir hendur í frítíma sínum.

Sveinn er kominn til Oxford. Þar verður hann næsta árið í mastersnámi í hagfræði og hagnýtri stærðfræði. Fyrstu tvær vikurnar voru nýttar til að kynnast umhverfinu, skólanum og öðru því sem máli skiptir. Hann er búinn að fá sér sarta skikkju og smjöröskju með dúsk á höfuðið eins og skylt er. Skólastjórinn tekur nýmema til sín í hollum til að spjalla við þá og kynnast þeim aðeins. Þegar hann kvaddi hópinn sem Sveinn var í þá sagði hann við Svein um leið og hann kvaddi; "Hafðu ekki áhyggjur, við lítum íslendinga alls ekki sömu augum og Gordon Brown."

<3 Svanhvít hélt kveðjutónleika í kvöld niður í Hafnarhúsinu á Airwaves tónleikunum. Þau eru búið að spila í ein þrjú ár eftir að þau urðu í 2. sæti á Músiktilraunum hér um árið. Plata kom út í sumar sem fékk allmikla spilun Á Rás 2 miðað við það sem hljómsveitir fá sem eru í þessum gír. Nú fara leiðir að skilja. Þetta er vafalaust búið að vera mjög gaman. Ég hef tekið töluvert að myndum af krökkunum á þessu tímabili frá fyrsta kvöldi. Það er tímabært að setja þær bestu saman í eina góða Blurb bók til að krakkarnir geti haldið utan um minningarnar.

Hlaupin ganga vel. Allt er í fínu lagi. Ég geri ráð fyrir að halda mér í þokkalegu róli með því að fara að jafnaði um 100 km á viku fram til áramóta.

Engin ummæli: