fimmtudagur, október 22, 2009

Ég fór upp í Breiðholtslaug í gærmorgun að spjalla við pottverja. Þeir setjast gjarna niður í anddyrinu upp úr kl. 7.30 og taka sólarhæðina eftir að hafa synt eða seti í pottinum. Það var gaman að spjalla við fólkið og ýmsilegt bar á góma. Ein hjón komu keyrandi sunnan úr Grindavík til að sjá gripinn. Bóndinn er 73 ára gamall og mjög kvikur, hleypur reglulega úti og tekur þátt í kapphlaupum. Þetta er flott. Hann sagðist hafa fyrir nokkru byrjað að nota morgunmatarmatseðilinn minn og líkaði hann vel. Ég fór aðeins yfir ýmis mál en dvaldi mest við Akureyrarhlaupið frá því í sumar. Það er svona dálítið sér á parti og mun ekki gleymast. Að lokum sagði ég fólkinu að það mætti ekki láta dagatalið stjórna því hvað það tæki sér fyrir hendur heldur að hlusta á sjálfan sig og hvað það langaði til að gera. Aldur er t.d. svo afstæður. Fólk getur yfirleitt miklu meira en það heldur. Það þarf ekki annað en að líta á Evrópumót fatlaðra sem haldið er í Laugardalslauginni þessa dagana. Hvernig gæti manni dottið í hug að maður sem hefur bara hálfan handlegg geti synt skriðsund af fullum krafti eins og dæmin sanna.

Til er handbók fyrir glæpamannaklíkur sem samin hefur verið í því skyni að gera það auðveldara fyrir þesslags hópa að komast upp með iðju sína. Sú bók sem ég hef heyrt af var í upphafi samin í Bandaríkjunum en hefur náttúrulega verið þýdd um víða veröld. Í henni eru meðal annars leiðbeiningar um hvernig eigi að draga vigtennurnar úr lögreglu og dómurum. Það er einfaldlega gert á þann hátt að ógna fjölskyldu viðkomandi. Ekið er á eftir börnum úr leið úr skóla, tölvupóstar eru sendir þar sem gefið er í skyn að bófarnir viti allt um ferðir krakkanna og svo framvegis. Markmiðið er að lögregla eða dómari hugsi frekar um öryggi fjölskyldunnar en að koma krimmunum undir lás og slá. Af þessum meiði er sá skrílsháttur sprottinn sem ákveðinn hópur hefur ítrekað sýnt af sér með því að safnast öskrandi fyrir utan heimili dómsmálaráðherra. Það getur hver sjálfan sig séð að eiga ung börn sem verða skelfingu lostin vegna þess að ókunnugt fólk standi öskrandi á stéttinni vegna vinnu foreldsins. Blaðamaður Fréttablaðsins mælir þessari aðferðafræði t.d sérstaklega bót í blaðinu í gær en verður að fara aftur til 1938 til að finna samsvörun í skrílslátum
við heimili stjórnmálamanna. Mér fannst dómsmálaráðherra skýra málið vel út í Kastljósi í kvöld. Hún kom inn á að stjórnvöld verða að fara eftir jafnræðisreglu. Þau mega ekki láta eina reglu gilda fyrir einn og aðra fyrir annan. Það er hins vegar það sem þeir vilja sem hafa hæst í mótmælunum. Af því einhver á vini hérlendis á að veita honum hæli. Það má þá líklega henda þeim vinalausa úr landi af því það sér enginn eftir honum. Eins og vanalega eru svona mál komin inn á gafl hjá fjölmiðlum. Það er gott fyrir fjölmiðla að fá svona mál í haustmyrkrinu.

Lögreglan segist vita um fleiri kannabisfabrikkur en þeir komast yfir að uppræta. Ég ætla bara að vona að sektaraðgerðir við Víkina vegna foreldra sem leggja bílum upp á gras tefji lögregluna ekki of mikið frá því að koma lögum yfir kannabisbændur.

Það var athyglisvert viðtalið við Kristinn Pétursson frá Bakkafirði í Silfrinu á helginni. Hann vildi auka þorskveiðar stórlega og færði ákveðin rök fyrir því. Einnig vildi hann óháða úttekt á íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Ég ehf ekki mikið vit á þessum málum en hitt veit ég að afrakstur hafsvæðisins í bolfiski hefur ekkert gert annað en að dragast saman á þeim 25 árum sem fiskveiðum hefur verið stjórnað kerfisbundið. Stöðugt er ráðgjöfin á þann hátt að þá verður að draga meir og meir úr veiðinni. Það er náttúrulega ekki í lagi. Eitthvað er öðruvísi en það á að vera. Ég er ekki hrifinn af strandveiðifyrirkomulaginu frá í sumar. Þegar kvótinn er takmarkaður þá verður að hafa samspil framleiðslu og markaðar á þann veg að hámarksnýting náist úr auðlindinni. Þegar leyfð er veruleg sóknaraukning um skamman tíma þá þýðir það að framboðið eykst gríðarlega á markaði. Það þýðir verðfall samkvæmt öllum náttúrulögmálum. Það tekur lengri tíma að ná verði upp heldur en að láta það súnka niður. Ef það er erkki flóknara en svo að auka kvótann en virtist í þessu tilfelli þá verður að deila honum út á annan hátt en eftir versta kerfi sem hægt er að hugsa sér. Að veiða sjávarafla óháð markaðsaðstæðum er afturhvarf marga áratugi aftur í tímann.

Ég las nýlega frásögn Geirs Frykholm, norks ultrahlaupara, frá Spartathlonhlaupinu í haust. Geir lauk hlaupinu í fyrra en nú fór allt í steik. Með Geir hljóp Svíinn Kent Sjölund frá Norrbotten. Það fór á sömu leið hjá honum og Geir en Kent lauk hlaupinu ekki heldur í fyrra. Ég kannaðist vel við einkennin hjá þeim frá því í hitteðfyrra. Það vantaði næringu á drykkjarstöðvum. Maginn fór í uppnám. Þeir félagar voru meir og minna ælandi eftir Korinth eða eftir 80 km. Síðan fór andinn að láta undan vegna orkuskorts. Efasemdir sóttu að og rökin fyrir því að hætta sóttu sífellt stífar á. Þegar þeir sáu svíann Cristian Ritella liggja á dýnu eftir u.þ.b. 140 km þá datt botninn endanlega úr tunnunni. Fyrst hann er hættur þá getum við alveg eins hætt líka. Það er alveg á hreinu að maður á bara að treysta á sjálfan sig í Spartathlon. Grískum er ekki að treysta hvað matinn varðar.

Ég hélt að stærð markaðar réði nokkru um verðið. Mikil eftirspurn = stærri markaður = meiri samkeppni = lægra verð. Þetta lögmál gildir nema þar sem er fákeppni. Þá er lögmálið svona: Stór markaður = mikil eftirspurn = lítil samkeppni = hátt verð. Hvað á maður að halda þegar bensínverðið er alltaf lægra á Egilsstöðum en í Reykjavík þegar ég kem austur?

Það er mikið talað um mansal þessa dagana. Mansal, þetta orð vekur ýmsar spurningar. Orðið "man" er kvenkenning sbr. "Hið ljósa man". Eru það þá bara konur sesm seldar eru í nauðungarvinnu? Samkvæmt mörgum greinum sem skrifaðar um þetta efni eru þá mætti halda það. Það er náttúrulega hrein bábilja eins og svo margt annað sem kemur úr þess háttar herbúðum. Þrælahald og þrælasala nær yfir bæði karla og konur. Því ætti að kalla þennan verknað mannsal (sbr orðið mannkyn) fyrst mönnum klígjar við að nota þrælahald sem er náttúrulega rétta orðið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ragna kom með annan athyglisverðan punkt í Speglinum(?), sem liggur í augum uppi þegar manni hefur verið bent á hann. Hann er sá að Dyflinarsamkomulagið er ekki að virka og þarfnast endurskoðunnar. Það leggur óhóflegar byrðar á þau aðildarríki sem næst liggja Afríku og gömlu Júgóslavíu. Það berast t.d. fréttir frá Ítalíu og Grikklandi um að þarlend yfirvöld hafi gefist upp á að vinna eðlilega úr þeim hælisumsóknum sem þeim berast og flóttamenn njóti ekki mannréttinda. Væntanlega ekki vegna mannvonsku ráðamanna heldur vegna þess að álagið er of mikið.

Ég hef í gegnum tíðina talið Evrópusamstarfið til mikila bóta en er orðinn hugsi yfir því að frétta af sífellt fleiri Evróputilskipunum og samkomulögum sem eru látin standa og unnið eftir þeim þrátt fyrir að þjóðríkin standi ekki undir því að gera það almennilega.

Það stendur upp á okkur að svara spurningunni um hvort við viljum frekar vinna eftir Evrópusamkomulagi sem ekki er að gera sig, eða taka mið af aðstæðum og aðlaga okkar framgöngu að því hvernig veruleikinn er. (Svona eins og þegar lögreglan stillir sig um að sekta fólk sem leggur á grasi og gangstéttum í hallæri, þrátt fyrir að lögin sé skýr um að bílar eigi einungis að vera á götum og bílastæðum.)

Framganga mótmælenda er svo önnur saga og rökræður okkar á milli um þau mál yrðu ekki fjörlegar. Við værum alltof sammála.

Nafnlaus sagði...

Mér finns síðan að aðild okkar að Schengensamkomulaginu sé umræðunnar virði. England hefur valið að standa utan við það vegna þess að það þjónar ekki þeirra hagsmunum sem eyríki. Hvað getum við þá sagt hér norður í Ballarhafi?
G.

Nafnlaus sagði...

Glæpatíðnin er ekki beinlínis lág í Bretlandi og Bretland er, ásamt Spáni, eina ríkið í Evrópu sem býr við viðvarandi hryðjuverkaógn. Ég er ekki alveg sannfærður um að við eigum að leita til Bretlands eftir leiðsögn í þessum efnum...

Bretar eiga það sameiginlegt með annari eyþjóð sem ég þekki til, að kunna og vita allt betur en nágrannar sínir, þó árangurinn bendi oft til annars.

Grímur

Nafnlaus sagði...

Þetta er rétt Grímur. Spánn er dálítið sér á báti út af Baskastöðunni. Auðvitað má segja að það sé ákveðin hundalógík sem ekki sé hægt að svara en spyrja má hvort ástandið væri enn verra ef þeir væru aðilar að Schengen.