Áfram var haldið að fjalla um féð í Tálknanum í fréttum í dag. Fram kom að formaður fjallskilanefndar Tálknafjarðar er tilbúinn að fara með heypoka út í Tálkna í vetur til að fóðra féð. Það verður ekki auðveld ganga. Það vita allir sem vilja vita. Þótt það sé nóg gras í Tálknanum nú í októberlok þá er staðan dálítið önnur þegar vetur er genginn í garð. Þá er snjór í fjallinu, svellbólstrar loka féð inni og hagi lélegur eða enginn. Umræðan er oft dálítið einfölduð. Það er verið að bera saman sauðfé og hreindýr. Af hverju má sauðfé ekki vera villt fyrst hreindýr eru það? Ullin gerir t.d. grundvallarmun á þessum tveimur dýrategundum. Kindur drepast beint eða óbeint undan því að bera fleiri ára ullarbrynju. Það er ljóst að þeir sem hæst tala um að það eigi að hafa útigöngufé þarna í fjallinu þekkja ekkert til aðstæðna þarna. Ég sé ekkert fagurt eða flott við að láta fé vera í hirðuleysi á stöðum þar sem það drepst meira og minna úr hor, hrapar í klettum eða ferst úr ullarhafti. Í ríkisútvarpinu var vitnað í að einhverjir hefðu verið að blogga um þetta mál. Eru bloggarar nú orðinn einhver valda- eða áhrifafaktor í samfélaginu?
Stundum verður maður bara orðlaus. Í Kastljósinu í kvöld var rætt við konur sem eru að byggja upp verkefni í Suður Afríku í þeim tilgangi að hjálpa unglingsstúlkum sem hafa orðið fyrir nauðgunum og eru útskúfaðar í samfélaginu fyrir vikið. Fram kom að foreldrar sumra reyna að drepa þær, líklega til að bjarga heiðri ættarinnar. Þær eiga sér ekki viðreisnar von eftir þetta og lenda margar í að þurfa að framfleyta sér með götuvændi. Verkefnið gengur út á að veita þeim skjól, mennta þær og byggja þær upp svo þær eigi sér viðreisnar von í samfélaginu. Eftir að einhver fréttakona hafði spurst fyrir um verkefnið fram og aftur og átti því að vera orðið nokkuð ljóst um hvað að snerist þá kom þunga spurningin: "Af hverju eruð þið að hjálpa þessum konum, af hverju hjálpið þið ekki bara konum á Íslandi?"
Fréttamaður sem spyr svona spurningar í kjölfar þeirrar umfjöllunar sem búið var að fara yfir getur ekki hafa skilið orð af því sem um var rætt, hefur enga tilfinningu fyrir því sem búið var að sýna henni eða hún er svo heltekin af hinni svokölluðu kvenfrelsisbaráttu á Íslandi að henni finnst allt annað vera hjóm eitt í samanburði við það. Maður lætur sig bara hverfa þegar umræðan er komin á þetta plan.
fimmtudagur, október 29, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli