Niðurstöður kosningar um langhlaupara ársins á vegum www.hlaup.is voru birtar í samsæti hjá Torfa Leifssyni í gær. UM 900 manns greiddu atkvæði í netkosningunni eftir því sem Torfi upplýsti. Það er fín þátttaka sem gerir niðurstöðurnar miklu sterkari en ef úrslitin hefðu verið ákveðin að bestu manna yfirsýn. Enda þótt kosningin hafi verið opin þá hafa hlauparar vafalaust verið í miklum meirihluta þeirra sem greiddu atkvæði. Þeir tíu sem kosið var á milli eru allt eflingsfólk sem sýnir hvað gróskan er mikil í þessari grein íþrótta. Nú veit ég ekki hvort maður má gerast svo djarfur að kalla hlaup af þessari tegund íþrótt, þau gætu verið of löng til að það sé leyfilegt að mati sjálfskipaðra einkaleyfishafa á þeim vettvangi. Geri það samt. Það var mjög ánægjulegt að vera kosinn fremstur meðal jafningja úr þessum hópi því hver og einn þeirra sem tilnefndir voru í netkosninguna hefði verið verðugur fulltrúi hlauparaafreksmanna, hver á sinn hátt. Verðlaunin voru glæsileg, bókin Sex grunaðir, hlaupaskór, peningaverðlaun og flott hlauparastytta. Það er hver fullsæmdur af því að taka á móti þessu sem viðurkenningu fyrir hlaup.
Hólmfríður Vala var valin fremst kvenna eftir að hafa lokið Laugaveginum á frábærum tíma svo eftirminnilega í sumar.
Maður getur ekki annað en verið sáttur við að skrokkurinn haldi vel út til að takast á við þolraunir af þessari tegund ár eftir ár og síðan er það ekki síðra að maður skuli hafa takmarkalausa ánægju af því að leggja það á sig sem þarf til að ná settum markmiðum.
Torfi hefur þarna enn einu sinni sýnt af sér gott frumkvæði í þessum geira. Fram kom á fundinum að hann hefur haldið www.hlaup.is út í þrettán ár. Það er ekki sjálfgefið að einstaklingur leggi þá fyrirhöfn á sig, meir og minna í sjálfboðavinnu. Með vefnum hefur hann í fyrsta lagi haldið til haga gríðarlegum heimildum um úrslit hlaupa sem ella væru meir eða minna glötuð. Í annan stað hefur vefurinn verið hlaupurum mikill stuðningur til fróðleiks og allra handa samskipta. Hann hefur síðan á seinni árum tekið mikið magn mynda af hlaupurum við ýmis tækifæri sem er enn ein heimildasöfnunin.
Ég er stundum spurður að því hvernig ég hafi tíma til að stunda þær æfingar sem til þarf að halda sér á þokkalegu róli. Það er ekki flókið. Flest styttri hlaup hleyp ég á morgnana fyrir kl. 7:00. Þegar álagið er mest tek ég stutt hlaup í hádeginu og fer þá einnig út á kvöldin. Um helgar tek ég löng hlaup og er þá yfirleitt kominn á fætur fyrir kl. 6:00 og kominn út fyrir 6:30. Ég er þá kominn heim á skikkanlegum tíma eða um 10:00 - 10:30. Þá er dagurinn að fara að snúast hjá öðrum á heimilinu svo þetta harmónerar allt saman. Ég verð að stilla tímann af eftir eigin þörfum og því hleyp ég frekar lítið með öðrum. Reyni þó að hitta Vini Gullu stundum og svo hittast brúarbræður yfirleitt í Fossvogsbotninum á laugardagsmorgnum.
Það er ekki hægt að bera saman árangur í fjallahlaupum / utanvegahlaupum milli einstakra hlaupa. Til þess eru þau allt of ólík enda þótt vegalengdin sé jöfn. Hæðarmunur, landslag og undirlag er allt einstakt í hverju hlaupi. Tímahlaup (6 tíma, 12 tíma, 24 tíma og 48 tíma eru hins vegar sambærileg þar sem þau fara fram á brautum sem verða að standast ákveðna staðla. Því er hægt að bera árangur í þeim saman milli einstaklinga og ára. Mér finnst að okkar öflugu Laugavegshlauparar ættu að hefja strandhögg erlendis í utanvegahlaup til að fá samanburð á getu sína í samkeppni við erlenda hlaupara. Bretland er nærtækast í því sambandi. Þar er mjög mikið líf í utanvegahlaupum og það er tiltölulega einfalt að fara þangað. Einnig er kúrsinn á pundinu einna hagstæðastur sem stendur. Ég var í gær að hvetja Þorberg Jónsson til að fara að skoða þessi mál af alvöru. Ég held að hann sé miklu öflugri utanvegahlaupari en brautarhlaupari. Allavega væri hann frábær brautarhlaupari ef hann væri jafngóður þar og hann var á Laugaveginum í sumar. Ég held að það átti sig fáir á því hvaða afrek hann vann í sumar nema þeir sem hafa hlaupið Laugaveginn.
sunnudagur, janúar 17, 2010
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Til hamingju með verðlaunin, þú ert vel að þeim kominn.
Torfi hefur unnið frábært starf og það ber að þakka. Þegar ég var að stíga mín fyrstu skref í hlaupaskónum var það ómæld hvatning að hafa aðgang að alskyns vefsíðum um hlaup. Ekki síður bloggsíðum en hlaup.is. Ég vil meina að þú stuðlir að eflingu hlaupasamfélagins á Íslandi á tvennan hátt. Með því að sprengja út grensurnar og með því að halda út þessari bloggsíðu. Takk fyrir það!
Grímur
Hjartanlega til hamingju með titilinn !
Gleymdi að skilja eftir nafnið mitt við þetta
:)
Bibba
Takk fyrir góðar kveðjur
Mbk
Gunnlaugur
Skrifa ummæli