Scott Jurek sigraði í Spartathlon sem haldið var á föstudag og laugardag nú fyrir helgina. Hann hljóp vegalengdina milli Spörtu og Aþenu á 22.52 klst. Leggurinn er 240 km og er yfir fjall að fara á leiðinni. Þessi tími er fimmti hraðasti tími í sögu hlaupsins og Scott er annar hraðasti hlauparinn í sögu þess en grískur hlaupari Yannis Kouros hljóp fjórum sinnum á ótrúlegum tíma á árunum milli 1983 og 1990. Besti tími hans var 20.25 klst. Scott hafði með sér hvorki meir eða minna en þrjá meðhlaupara til að halda uppi hraðanum í hlaupinu. Er það í fyrsta sinn sem það er gert og sýnist sitt hverjum um það. Hann er fyrsti bandaríkjamaðurinn sem sigrar í þessu mikla hlaupi sem er mesta hlaup Evrópu. Það er haldinn sérstakur listi á heimsvísu yfir þá sem bæði hafa hlaupið Western States og Spartathlon. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það eru margir sem hafa hlaupið bæði hlaupin en þeir eru innan við 20.
Nokkrir góðir hlauparar frá Norðurlöndunum voru með. Eiolf Eivindssen hljóp á góðum tíma eða rúmum 33 klst. Kim Rasmussen, sem varð 10 í fyrra þurfti að hætta og sama mátti segja um Kjell Ove Skoglund. Eiolf þurfti að hætta í fyrra en nú gekk allt upp hjá honum. Það er greinilega ekkert gefið í þessum málum. Um helmingur hlauparanna sem lögðu af stað komst alla leið undir tímamörkum sem eru 36 klst. Frekar heitt var fyrri daginn eða um 30 oC.
Herinn fór nú rétt fyrir helgina. Adjö. Merklegt hvað manni fannst það skipta litlu máli nú eins og hersetan var mikið mál hér á árum áður. Reyndar má segja að það er ánægjulegt að það sé svo friðvænlegt í okkar heimshluta að það þurfi ekki lengur hervarnir á landinu. Staksteinar í Mogganum sendu herstöðvaandstæðingum kveðju á laugardaginn í tilefni dagsins. Auðvitað er alltaf umdeilanlegt hvað er og hvað er ekki. Ég held hins vegar að mönnum væri hollt að lesa þriðja erindið í bálknum sem oft var kyrjaður á árum áður undir laginu Waltzing Mathilda (og var enn sunginn á sunnudaginn) og velta fyrir sér hvað menn voru að meina með svona samsetningi. Var þetta bara rímleikur eða trúðu menn þessu í alvörunni? Ég man hins vegar vel eftir því hér á árum áður að hafa t.d. staðið í þrætum við fólk sem hafði séð ljósið í Albaníu sem fyrirheitna landið með Hoxa sem hinn mikla leiðtoga lífs síns. Þegar maður vildi ekki samþykkja ótuggið að þarna væri komið framtíðarlandið var maður náttúrulega bara kallaður helvítis asni og eitthvað þaðan af verra. Svona var þetta hér í denn.
Í æfisögu Árna prófasts Þórarinssonar sem Þórbergur skráði svo vel kemur Árni meðal annars inn á hvernig Snæfellingar töluðu um þá sem þeim var illa við. Þeir sögðu að ef þú vildir tala illa um einhvern þá ætti alltaf að láta eitthvað gott fylgja með bakmælginni því þá yrði þér betur trúað. Mér kom þetta í hug þegar ég hlustaði á við talið við Ómar a sunnudagskvöldið þegar hann sagðist hafa þurft að láta eina og eina góða frétt fljóta með til að honum yrði betur trúað þegar hann fjallaði um framkvæmdirnar við Kárahnjúka.
Ég hef verið að hlusta á Þorleif Friðriksson sagnfræðing flytja erindi um Pólland undanfarna laugardaga. Þorleifur var fararstjóri í ferð sem ég fór til Krakow í fyrra og fékk maður þá smá innsýn í þann gríðarlega fróðleik sem hann býr yfir varðandi land og þjóð. Þvílíkar hörmungar sem þessi þjóð hefur gengið í gegnum á liðnum öldum. Ég er ekki maður til að endursegja það sem Þorleifur hefur verið að fara í gegnum en mæli með erindum hans. Rás 1 um miðjan dag á laugardögum.
Gestur Einar er kominn í morgunútvarpið á Rás 2. Gott, þá getur maður farið að hlusta á það aftur en það hef ég ekki getað síðan Magnús Einarsson hætti.
þriðjudagur, október 03, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæll Gunnlaugur!
Alltaf jafn gaman að lesa þessa pistla þína, ég fór samt að velta því fyrir mér, varstu ekki harður herstöðvarandstæðingur á þinum yngri árum?
Kveðja Halli
Skrifa ummæli