Alltaf gaman að þekkja fólk sem stendur upp úr. Svo var í morgun þegar ég fletti Mogganum. Þetta fína viðtal við Bibbu ofurkonu og væntanlega járnkerlingu. Hún er eitt dæmi af mörgum þar sem fólk stendur upp úr sóffanum, heldur á vit hins óþekkta og kemst á leiðarenda. Flott og nú verður gaman að fylgjast með næstu sex mánuði.
Maður er alltaf að heyra skemmtilegar og eftirminnilegar frásagnir. Þegar við Orwell hlupum saman á sunnudaginn spjölluðum við margt. Hann verður 63 ára á næsta ári, léttur í spori eins og laufblað í vindi, og stefnir að því að bæta sinn besta maraþontíma sem er góður (rétt rúmar 3.20). Hann sagði mér meðal annars að hann hefði hætt að reykja og drekka rétt fyrir fimmtugt. Upp úr því fór hann að hreyfa sig reglubundið með frábærum árangri. Hann var ekkert að skafa utan af því að líf hans og tilvera væri töluvert öðruvísi ef hann hefði ekki tekið þessa ákvörðun á sínum tíma. Svo er vafalaust um marga fleiri. Svona frásagnir ættu að vera fólki hvatning til að takast á við sjálfan sig og draga að fram í dagsljósið sem býr undir niðri hjá svo mörgum en fær ekki að njóta sín. Ég held að það sé laukrétt sem ég las í sænsku dagblaði um daginn að ástand skrokksins á árunum milli 50 og 60 ára skiptir höfuðatriði um hvernig seinni hluti æfinnar verður.
Hitti gamlan kunningja minn í gærkvöldi. Hann var í sveit heima á Sandinum þegar hann var strákur svo hann er eins og náskyldur. Hann hætti að drekka vín fyrir ári síðan og gerði það á svolítið sérstakan hátt. Hann er matreiðslumeistari og hefur unnið alla sína æfi við það. Hann kann því að standa fyrir góðum veislum. Þegar hann var fimmtugur bauð hann fjölskyldunni og nánum vinu heim og gerði þeim góða veislu eftir því sem hann best kunni. Með matnum var vín af mörgum sortum og góðum. Þegar síðan var vel áliðið kvölds þá kvaddi hann sér hljóðs og sagði gestum frá ákvörðun sinni. Það sem meira var, hann sagðist ætla að skipta öllu því víni sem hann ætti (sem var bara dálítið mikið í magni og gæðum) meðal gestanna og bað þá að taka það heim með sér þegar þeir færu úr veislunni. Fyrst ætlaði fólkið ekki að trúa honum en þegar hann fór að bera vínin bæði gömul og göfug inn í stofuna og skipta því á milli nærstaddra þá varð fólk að trúa því sem sagt var. Þetta gekk allt eftir, gestirnir tóku með sér allt vín úr húsinu og hann hefur ekki smakkað dropa af víni síðan. Ég veit ekki hvort hann átti í nokkrum vandræðum með víndrykkju en honum fannst bara nóg komið og rak endahnútinn á þessa períódu með eftirminnilegum hætti..
miðvikudagur, desember 13, 2006
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þakka þér fyrir, Gunnlaugur minn. Það er mér mikil hvatning að vita að ofurfólk eins og þú er að fylgjast með mér.
Eins gott að maður standi undir væntingum :)
Bibba
Skrifa ummæli