laugardagur, desember 16, 2006

Fór út kl. 7.00 í morgun og tók Poweratehringinn. Það var logn, heiðskýrt og hið besta veður sem hugsast getur um miðjan desember. Í Fossvoginum kólnaði og sýndi mælirinn -9 oC. Hitti J'oa og við rúlluðum til móts við Halldór sem kom um 8.30. Víð fórum svo fyrir Kársnesið og inn að sunnanverðu. Það munaði minnstu að ég færi rakleitt heim að sækja myndavél þegar við komum innar, svo fallegt var þarna. Morgunbláminn í baksýn, tunglið yfir bænum og ljósin spegluðust í ísnum. Jói sneri heim við undirgöngin en við Halldór tókum góða brekkuæfingu. Tröppurnar, HK brekkan, Hjallakirkjubrekkan og Engihjallabrekkan voru kláraðar og svo hlupum við upp á Bústaðaveg hinsvegar. Mælirinn sagði rétt um 27 km. Góður dagur.

Í gærkvöldi fór ég uppá Nesjavallaafleggjara að taka myndir af norðurljósunum. Það voru fínar aðstæður, mikið af norðurljósum, logn og brunakuldi. Ég slökkti á bílljósunum, stóð í myrkrinu og hrofði á norðurljósin dansa um himinn. Þá kom bíll aðvífandi og stoppaði til að athuga hvað þessi undarlegi maður væri að aðhafast þarna í myrkrinu nokkuð langt frá öllum mannabyggðum. Líklega er maður eitthvað skrítinn.

Ég hef sett nokkuð af myndum af norðurljósunum inn á myndasíðuna og fengið mikil viðbrögð. Fólk allstaðar að úr heiminum (nema úr Afríku) hefur sett komment inn og glaðst yfir að sjá myndir af þessu náttúrufyrirbæri sem fæst geta ímyndað sér að þau eigi eftir að sjá með eigin augum. Norðurljósin eru sérstaklega kröftug nú um stundir vegna mikilla sólgosa að undanförnu.

Nú er það ljóst að þegar lagt er af stað með það markmið fyrir augum að það skuli vera jöfn staða karla og kvenna í efstu sætum listanna gildir einungis í aðra áttina. Svo er alla vega hjá VG. Samkvæmt reglunum sem lagt var af stað í upphafi áttu tveir karlar að færast upp en tvær konur niður til að uppfylla sett markmið. Karlagreyin vissu sem var að þeim yrði velt upp úr tjöru og fiðri og brenndir á báli ef þeir svo mikið sem létu sér detta í hug að gera ráð fyrir að upphaflegar reglur myndu gilda og þeir færu fram á að færast upp fyrir konurnar. Þeim er nú sungið lof og prís fyrir mikla riddaramennsku en niðurstaðan réttlætt með því að kynjahlutfallið sé svo skakkt hjá öðrum flokkum. Síðan hvenær var skipan lista í öðrum flokkum farin að hafa úrslitaáhrif á hvort farið væri eftir samþykktum vinnureglum eða ekki hjá stjórnmálaflokkum yfirhöfuð. Ég hef aldrei fengið aðra eins yfirhalningu á fundi eins og þegar ég orðaði hér um árið að ég væri á móti kynjakvótum. Mér væri nákvæmlega sama hvort það væru allt konur eða allt karlar sem væru í efstu sætum listans. Bara að það væri besta fólkið. Ég slapp að vísu við tjöru og fiður en mér var heldur betur lesinn lesturinn. Yfirgengileg karlremda var meðal annars sú einkunn sem mér hlotnaðist. Mér fannst þetta allt heldur fyndið og skammaðist mín ekki neitt og skipti alls ekki um skoðun. Á hinn bóginn finnst mér að ef einhverjar vinnureglur eru samþykktar áður en lagt er upp þá á ekki að breyta þeim úti í miðri á, heldur eiga þær að gilda, enda þott einhver verði fúll þegar upp er staðið.

Mér finnst rétt að Hjálmari Á. að gefa kost á sér í 1. sæti hjá Framsókn á Suðurlandi. Það eru nokkrir búnir að gefa kost á sér í það sæti sem hann skipar og því skyldi hann þá ekki stefna á 1. sætið. Viðbrögð Guðna voru vægast sagt ótrúleg. Menn eiga að vera búnir að læra það að umboð alþingismanna rennur út í lok hvers kjörtímabils og það á enginn neitt í þessum efnum. Það var kannski svo hér áður en ekki lengur. Kosningar eru eðlilegar. Hornapissið er alltaf hvimleitt. Ég man þá tíð að ungur mjólkureftirlitsmaður á Suðurlandi lagði í landbúnaðarráðherrann sem skipaði efsta sætið og munaði litlu að hann hefði ráðherrann undir. Þá þótti það bara eðlilegt að valið væri á milli manna. Það er kannski orðið breytt, hver veit.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll félagi Gunnlaugur,
hvar finn ég norðurljósamyndirnar þínar. Er búin að leita eftir nightphotos, aurora og norðurljós!.
kv. Ingó

Nafnlaus sagði...

Sæll aftur,
fann þær - vá, vá, vá - stórkostlegt. Hélt fyrst að linsan væri svona svakalega rykug hjá þér en fattaði loks að þetta voru auðvitað stjörnur og gervitungl. Fattarinn hefur örugglega líka fengið kvef!
kv. IH