Þá er þessu ævintýri lokið. Enda þótt ekki gengi allt eftir sem ætlað var þá er maður margs vísari og betur í stakk búinn til að takast á við viðlíka þolraunir í náinni framtíð. Eitt af því sem ég var að velta fyrir mér á föstudagsnóttina þegar tilveran var sem bröttust því í ósköpunum Eiolf, Kjell Ove og svo fjöldamargir margir aðrir hlauparar koma til Grikklands ár eftir ár til að þreyta Spartathlon. Er ekki nóg að gera það bara einu sinni og hafa þar með sannað fyrir sjálfum sér og öðrum að viðkomandi er í stakk búinn til að ljúka mesta og virtasta ultrahlaupi Evrópu. Nú er ég búinn að komast að leyndardóminum bak við það því menn koma ár eftir ár og takast á við fótspor Peidippidesar. Stundum gengur vel og stundum ekki en sama er, menn mæta aftur og aftur. Í öllum þeim hlaupum sem ég hef kynnst hingað til þá er hlaupið, verðlaun veitt þeim sem fyrstir koma í mark, hinir fá vðurkenningar og svo er þetta búið. Hver fer svo til sína heima. Menn verða kannski málkunnugir á brautinni eða í lok hlaups eins og við Eiolf í WS en sama er, þetta er allt mjög stutt. Í Grikklandi er þetta með allt öðrum blæ. Keppendur taka flestir vikutíma í hlaupið. Þeir mæta að minnsta kosti tveimur dögum fyrir hlaup og síðan eru í hlaupalok aðrir tveir dagar þar sem menn blanda geði, spjalla saman, kynnast nýjum hlaupurum o.s.frv. Þarna hittast einstaklingar frá öllum heimshornum sem hafa eina erfiðistu íþrótt sem um getur að áhugamáli, ultrahlaup. Í Grikklandi voru hlauparar frá Bandaríkjunum, Suður Ameríku, flestum löndum Evrópu þ.m.t. öllum Norðurlandanna, Kína, Kóreu, Japan og Nýja Sjálandi það ég man eftir. Í augum þessara einstaklinga er maraþonvegalengdin bara upphitun. Meðal þessa hóps myndast tengsl, kunningsskapur og vinátta. Því mæta þeir þangað frekar en til annarra hlaupa ár eftir ár, taka allt sem þeir geta út úr líkama og sál á meðan þeir eru að berjast við að ná að fótskör Leonídasar konungs og síðan bíður félagslífið og endurfundirnir þar á eftir. Það eru þessi atriði sem gera Spartathlon frábrugðið öðrum ultrahlaupum fyrir utan vegalengdina og allt sem til þarf að ná settu marki. Það samgleðjast allir þeim sem ná settu marki og þeir sem hafa slegið af á leiðinni fá ráð og leiðbeiningar varðandi þá hluti sem betur máttu fara. Sigur eins er sigur allra.
Ég verð að segja það eins og það er að maður fyllist þakklæti og auðmýkt yfir því að hafa heilsu og þrek til að vera kominn með stóru tána inn í þetta samfélag. Það er ekki sjálfgefið og það skal maður meta. Það er langur vegur frá því ég hljóp skemmtiskokkið hér forðum daga með fötin í annari hendinni og Jóa litla í hinni hendinni og var bara stoltur af þvi að komast alla leið. Vegurinn frá þeim tíma hefur ekki alltaf verið beinn eða auðrataður en sama er þegar ákveðnir áfangar nást.
Á þessum dögum í Spartathlon samfélaginu myndast fljótt góð tengsl milli hlauparanna. Ég kynntist mörgum mönnum sem eru hver fyrir sig eftirminnilegur á einn og annan hátt. Þar má nefna þjóðverjana Josef sem er heildsali og ætlar að fara undir 30 klst næst með þvi að byggja sig vetur undir að hlaupa í brekkum og Jurgen sem sólbrann m.a.s. á tungunni. Ég var í herbergi með þeim eftir hlaupið og sýndi þeim m.a. myndasíðuna mína á netinu. Daninn Henrik sem var fjórði maður í herberginu spurði þegar hann sá norðurljósamyndirnar: „Ég veit að þetta er heimskulega spurt en sér maður virkilega svona á himninum á Íslandi?“ Þjóðverjarnir vorkenndu mér ekkert þegar ég kvartaði undan hitanum og sögðu: “Æfðu bara í öllum þessum sánum sem þið hafið og hitið upp með heita vatninu“ Þetta er náttúrulega laukrétt. Orkneyingurinn William sem fann loks rétta mataræðið eftir 11 ára tilraunir er með áhugaverða heimasíðu sem ég þarf að rannsaka betur. Hann á sína heimasánu sem hann notar til að byggja upp þol til að mæta hitanum. Þjóðverjinn Peter sem mun hlaupa sitt sex hundraðasta Maraþon and beyond í haust kemur kannski á Laugaveginn eftir svona tvö ár eða þegar hann hefur pláss í próramminu. Pólski harðjaxlinn Piotr sem hljóp að heiman niður til Grikklands er ógleymanlegur. Lestarstjórinn Sid frá Sheffield sem skoðaði með mér helstu fornminjar grikkja niður í Aþenu á mánudaginn hafði trú á því að hann hefði hlaupið of mörg ultrahlaup á undanförnu einu og hálfu ári þannig að löngunin til að ná á leiðarenda hafi verið orðin of lítil. Jaxlinn Pasi Kurkinahti frá Finnlandi sem hefur lokið Spartathlon þrisvar sagðist hafa verið að stefna því að takast á við Badwater en eftir upplifun helgarinnar þá væri hann búinn að sjá að svona brutal hiti væri ekki það sem hann sæktist eftir ótilneyddur. Sænski höfðinginn Kjell Ove Skoglund og glaðbeitti norðmaðurinn Eiolf Eivindssen eru einnig menn sem betra er að þekkja heldur en ekki. Í undirbúningi er að ultrahlauparar á norðurlöndunum taki upp með sér formlegt samstarf til að vinna að framgangi íþróttarinnar innan íþr´ttasambanda viðkomandi landa. Þeir vilja gjarna hafa íslendinga með. Síðan má ekki gleyma breska ofurmenninu Neil Kapoor sem býr niður í 101 næsta árið vegna starfa hjá Landsbankanum. Hann er magnaður náungi sem verður gaman að fá í hlauparasamfélagið á næstu mánuðum.
Enda þótt afleiðingar brennandi hita og næringarskorts hafi að lokum skákað mér upp í rútuna áður en hlaupinu lauk þá eru ýmsir hlutir sem ég er ánægður með. Fyrst og fremst er ég þó ánægður með hvað ég var ólerkaður í lærunum eftir 150 km þegar ég hætti. Það segir mér að það eru allir möguleikar skrokksins vegna að klára þetta hlaup undir normal kringumstæðum og með þá þekkingu í farteskinu sem ég hef aflað mér í þessari tilraun. Með markvissum undirbúningi og skipulagningu í hlaupinu er hægt að fækka óvissuþáttunum verulega. Vitaskuld er hlaupið mjög erfitt og kallar á fyllstu virðingu eins og dæmin sanna en sama er það á að vera vel yfirstíganlegt. Maður þarf að vera undir það búinn að sársaukinn fari að kvelja skrokkinn og andann áður en hlaupinu lýkur en eins og japanski finninn Yokio Morishita sagði þegar hann sýndi mér flatsærið undir ilinni: „Þetta var vel þess virði“.
Á mánudagskvöldið var lokaveislan haldin niður í Aþenu. Þar var öll yfirstjórn hlaupsins mætt, hlaupararnir og aðstoðar menn þeirra. Það lá við að formaður hlaupanefndarinnar biðist afsökunar á hitanum í setningarræðu kvöldsins en þessa daga var mesti hiti í gjörvallri sögu hlaupsins. Þarna var önnur verðlaunaafhending fyrir fyrstu menn svo og viðurkenningar afhentar þeim sem luku hlaupnu. Menn fengu afhent viðurkenningarskjöl, verðlaunapeninga og myndir. Mikil stemming sveif yfir vötnum og þarna skildi maður til fulls undirtóninn í að fólk kemur til hlaupsins frá öllum heimshornum ár eftir ár. Ég hitti grikkjann Tsiakiris um kvöldið en hann hefur verið stjórnarformaður Spartathlonsráðsins síðustu 15 ár. Hann hafði gaman af að sjá íslending í hópnum en það eru líklega til svo fá eintök af okkur að þau þykja fáséð og þar af leiðandi áhugaverð. Hann hvatti mig til að koma aftur að ári og það er nákvæmlega það sem ég er að hugsa um að gera á þessari stundu þrátt fyrir allt.
miðvikudagur, október 03, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Afar góður pistill hjá þér Gunnlaugur eins og oft áður hér á síðunni þinni. Skemmtilegar pælingar og vangaveltur. Einhvernveginn segir mér svo hugur um að þú munir mæta reynslunni ríkari á næsta ári, eins og þú nefnir og komast alla leið. Það var skynsemdarákvörðun að láta staðar numið eftir 150km, gott að kappið bar ekki vitið ofurliði. Gangi þér allt í haginn.
Bestu kveðjur Þorkell Logi
Góður veit að þú gefst ekki upp klárar þetta á næsta ári kvepjur úr sveitinni Erla frænka
Skrifa ummæli