fimmtudagur, október 18, 2007

Ég hef verið frekar latur að hlaupa undanfarið, það kemur oft svona backflash eftir mikil átök. Ég er hins vegar rólegur yfir þessu, maður þarf að liðka sig upp til að geta rúllað haustmaraþonið sæmilega en siðan hefst alvaran. Það verða ekki mörg stór hlaup næsta árið, kannski eitt fram á næsta haust. Það er um að gera að byggja upp nógu sterkt hungur.

Kíkti á Airwaves á Grandrock í gærkvöldi. <3 Svanhvít var að spila þar og stóð sig vel. Fullt af fólki og mikil stemming. Sviðið var kannski í minnsta lagi fyrir svo fjölmenna og plássfreka sveit eins og Svanhvítin er en sama er þetta gekk allt vel upp. Ég tók dálítið af myndum af krökkunum þar. Hef tekið myndir af og til af þeim frá því á Músíktilraunum sl. vetur. Gaman að heyra hvað þeim hefur farið mikið fram og eru orðin þétt. Lögin eru ágætt grípandi gleðipopp og þem hefur tekist það sem er ekki alltaf einfalt en það er að skapa sér sérstöðu.

Það var umræða um laun Páls Magnússonar útvarpsstjóra á Stöð 2 í gærkvöldi. Rök Páls fyrir launum sínum voru þau að þau væru álíka eins og hjá forstjóra meðalstórs fyrirtækis. Það má vel vera að svo sé og það er allt í lagi. En fyrst að það á að miða laun úrvarpsstjórans við fyrirtæki á almennum markaði þá vil ég líka hafa val um hvort ég vilji skipta við útvarpið eða ekki eins og maður gerir gagnvart fyrrtækjum á almennum markaði. Ég get ómögulega sætt mig við það að forstjóri stofnunar sem tekur peninga fyrir rekstrinum úr vösunum á manni með valdi skuli miða laun sín við laun þeirra manna sem eiga allt sitt undir þvi að standa sig í vinnunni. Ef enginn vill skipta við fyrirtæki á frjálsum markaði fer það á hausinn. Ef enginn horfir á dagskrá ríkissjónvarpsins þá breytist í sjálfu sér ekki neitt.

Sá frétt um að Rauði krossinn hafði rannsakað stöðu innflytjenda úti á landi. Þar kom í ljós að þeir telja sig vera félagslega einangraða og eiga erfitt með að falla inn í fj0ölskyldusamfélögin. Tungmálið er þeim erfitt o.s.frv. Það er rétt að skoða nokkur atriði í þessu sambandi. Nú er það svo að útlendingar eru ekki eina fólkið sem er félagslega einangrað bæði úti á landi og hér á suðvesturhorninu. Ég þekki það meir að segja frá Raufarhöfn að í plássinu sem taldi 400 íbúa á þeim árum bjó fólks em var félagslega einangrað. Er það fólk félagslega einangrað sem getur ekki flutt vegna þess að það getur ekki selt húsin sín og fært sig þangað sem það vill fara. Oft er sagt að maður sé hvergi meira einmana en í stórborg. Er það rétt? Spyr sá sem ekki veit. Það er síðan ekki hægt að taka af manni ábyrgðina á að reyna að bjarga sér þegar maður flytur til framandi landa. Tungumálið er miserfiður þröskuldur en sama er það tekst í flestum tilvikum að klofa yfir hann ef vilji er fyrir hendi. Ég þekki það frá því ég bjó í Rússlandi í tæpt ár á sínum tíma að það voru ýmsir í hópnum orðnir mjög vel talandi á rússnesku eftir hálfs árs búsetu. Öðrum gekk það lakar því þeir lögðu minna að sér. Það voru hins vegar engir félagsfræðingar mættir að spyrja okkur hvort við værum félagslega einangraðir eða hvernig gengi að læra málið. Við bara björguðum okkur. Það er hins vegar alltaf auðvelda leiðin að flýja það verkefni að aðlaga sig nýju samfélagi með því að loka sig inni í sínu málsamfélagi. Það á bæði við um íslendinga sem og aðra þegar flutt er erlendis. Því myndi ég leiða talið að því hvað viðkomandi einstaklingar geti betur gert sjálfir í þessum málum áður en farið verður í að dæla peningum í verkefni þessu tenngt og síendurteknar rannsóknir á þessum málum. Það er nefnilega til svolítið sem heitir að búa sér til verkefni.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Geturu ekki skellt nokkrum myndum inn á netið frá Grandrokk fyrir mig.

kv. Sveinn

Nafnlaus sagði...

Búinn að setja nokkrar inn á myndasíðuna.
Pa.