Ég keypti Breiðavíkurdrenginn eftir Pál Elíson í dag. Mér finnst að það minnsta sem maður getir gert er að kaupa bókina. það sýnir þó alla vega þeim sem segja frá að það hafi einhver vilja til að lesa frásögn þeirra af þessu víti sem dvölin þarna hefur verið. Maður getur ekki á nokkurn hátt skilið þá hugsun sem liggur að baki því að að 10 ára börn og þaðan af yngri skuli tekin heiman frá sér og sett í margra ára fangelsi án dóms og laga. Breiðavík var nokkursskonar Alcatras sem ómögulegt átti að vera að flýja frá. Fyrir utan að vera settir í margra ára fangelsi var börnunum misþyrmt á allan mögulegan og ómögulegan hátt. Ég sé ekki annað en lýsinig þeirra félaga sem skrifa bókina sé að öllu leyti rétt á staðháttum og á því fólki sem ég þekki þannig að ég hef enga ástæðu til að draga hitt í efa. Það getur enginn undrast að það skuli vera einstaklingar sem eru stórlaskaðir á sál eftir að hafa búið við þetta árum saman sem lýst er í þessari frásögn.
Það gengur mikið á í bókaheiminum í dag. Prestarnir rífast hver við annan um nýju biblíuþýðinguna. Vafalaust bannfæra þeir hver annan eftir hitanum sem virðist vera í umræðunni og verður spennandi að sjá hver sekkur fyrst.
Leikmenn eru þó uppteknari af öðrum og alavrlegri atburðum í bókmenntaheiminum. Endurútgáfa bókmenntaverksins Tíu litlir negrastrákar hefur skekið bloggheiminn og þar er víða skorið þykkt í umræðunni. Meðvitaða liðið nær ekki upp í nefið á sér yfir þeirri ósvinnu sem það er að gefa þennan meinta rasíska samsetning. Bókabrennum er hótað ef verkið komi til með að leynast í einhverjum jólapakkanum. Margir vilja láta banna þessa bók ásamt fleiri áþekkum. Ætli sagan af Litla Svarta Sambó endi ekki á brennunni líka og fleiri. Eitthvað er verið að tala um Tinnabækurnar í þessu sambandi. Bækurnar eftir Enid Blyton þykja einnig varhugaverðar í huga þessa fólks sem er svona svakalega meðvitað. Ég man nú ekki til þess að það skildi eftir sig mjög djúp rasísk spor þótt Tíu litlir negrastrákar væru sungnir á jólaskemmtunum í gamla daga.
Fyrir nokkrum árum varð allt vitlaust út af dagbók sem Prentsmiðjan Oddi gaf út með kvenlægum málsháttum. Umræðan endaði með því að allt upplagið var brennt. Ég man eftir því að skömmu eftir brennuna skrifaði ég paródíugrein á www.hrifla.is þar sem ég hrósaði brennunni í hástert og taldi að nú væri lag til að fylgja þessu eftir og hefja allsherjar ritskoðun á textum sem gerðu lítið úr konum. Taldi ég upp nokkra texta í þessu sambandi (s.s. Óla Skans og Ég er kokkur á kútter frá Sandi) og hafði greinina eins öfgafulla og ég gat og reyndi með því að gera grín að þeim ofsa sem var í þessari málsháttaumræðu. Þetta tókst nú ekki betur en svo að ég fór að fá tölvupósta þar sem ég fékk hrós fyrir greinina og var hvattur til frekari dáða á þessu sviði. Einnig fékk ég kveðjur og þakkir fyrir þetta merka framtak. Ég uppgötvaði með þessu hvað þessi umræða og ýmislegt henni tengd er óendanlega fáránleg og hef umgengist hana sem slíka upp frá því. Einu bækurnar sem maður las sem krakki og hægt er að telja rasískar að mínu mati eru indíánabækurnar. Indíánum er yfirleitt lýst í Indíánabókunum sem blóðþyrstum illmennum sem eira engu og drepa allt bæði hægri og vinstri. Það er því ekkert annað að gera en að vera á undan að drepa þá. Seinni tíma fróðleikur hefur leitt í ljós að í Ameríku var framið eitt það svakalegasta þjóðarmorð sem um getur þegar indíánunum var hreinlega því sem næst útrýmt eins og vísundunum. Sigurvegarnir skrifuðu síðan söguna og réttlættu gerðir sínar með fyrrgreindum lýsingum á indíánunum. Meðvitaða liðið hefur aldrei minnst á indíána í þessu samhengi það ég hef séð heldur er það upptekið af Litla svarta Sambó og Tíu litlum negrastrákum.
miðvikudagur, október 24, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli