Fór á landsleikinn í gær. Varð vitni að því þegar Lettar niðurlægðu lélegt íslenskt landslið. Svona lagað á ekki að gerast á heimavelli. Þegar leikmenn sem fá góða dóma með liðum sínum sýna oftar en ekki lélega leiki með landsliðinu þá er ástæðan mjög einföld, þjálfarinn veldur ekki hlutverki sínu. Ég vona að þessu hörmungartómabili fari senn að ljúka þannig að leikmenn fari að sýna sitt rétta andlit í landsleikjum.
Eitt atriði var þó til bóta á landsleiknum. Mun meira heyrðist í áhorfendum eða hluta þeirra en yfirleitt áður. Töluvert hefur verið gert í því að fá íslenska áhorfendur til að láta meira heyra í sér og reyna að brjóta upp hina pínlegu þögn sem yfirleitt ræður ríkjum á Laugardalsvellinum þegar landsleikir eru á vellinum. Þetta hefur tekist þokkalega en þó vekur manni það svolitlum áhyggjum þegar þjóðernissinnaðir söngvar eru kyrjaðir af miklum móð s.s. "Lettar eru bara vinnulýður" og "Er kalt á Kárahnjúkum?". Slíkt getur leitt eitt og annað af sér. Eftir leikinn réðust íslenskar fyllibyttur úr hópi þeirra sem sungu hvað mest á hóp Letta sem voru glaðir yfir góðum árangri liðs síns. Eins og sannir aumingjar fóru þeir yfirleitt margir gegn fáum. Mér var sagt af manni sem horfði á þetta að meðal annars hefði fullorðinn drukkinn Letti verið sparkaður niður þannig að hann lenti á andlitinu í stéttinni, gleraugu brotnuðu og kannski eitthvað meira.
Fyrir nokkrum misserum var nokkur umfjöllun hér um slagsmálagengi sem fór í hóp um miðbæinn og réðst á varnarlaust fólk. Margir gegn fáum. Umfjöllun um þetta hefur fjarað út sem betur fer og vonandi hafa þeir látið af þessari iðju. Stokkhólmur er í uppnámi þessa dagana vegna þess að svona slagsmálagengi unglinga drap 16 ára strák sem þeir réðust á í hóp. Lögreglan verður því að taka á svona löguðu í sambandi við landsleiki strax í upphafi og kæfa það strax.
Kvöldið var betra. Fór þá aftur á Laugardalssvæðið og hlýddi á meistara Megas ásamt Senuþjófunum. Karlinn var magnaður svo og hljómsveitin. Það var talið í kl. 21.15 og síðan var spilað non stop í tvo klukkutíma. Karlinn er magnaður, kominn á sjötugsaldur. Hann drakk ekki einu sinni vatnssopa allann tímann heldur söng og spilaði á fullu gasi. Hljómsveitin er kapituli út af fyrir sig. Mögnuð sveit og afar þétt. Fínir hljóðfæraleikarar sem spila Megasarprógrammið upp á tíu. Nýjar útsetningar á mörgum lögum. Þetta var fín kvöldstund.
Það hefur mikið gengið á í borginni á undanförnum dögum. Ég ætla ekki að fjalla um borgarstjórnarpólitíkina af eðlilegum ástæðum en vil þó láta þess getið vegna þess að ýmsir eru að tala um að það eigi að boða strax til kosninga í borginni. Samkvæmt landslögum er það ekki hægt. Það er kosið til sveitarstjórna á fjögurra ára fresti og ekki oftar.
Ólyktina af Orkuveitumálinu, REI, samrunanum við Geysir Green Energy og ollu því dæmi leggur langar leiðir. Það er ekki nema að mönnum blöskri þegar fyrir liggur að útvaldir einstaklingar eru að hramsa til sín opinberar eigur á verði sem þeir hafa búið til sjálfir. Það væri hægt að skrifa langt mál um þetta mál og kannski ég geri það síðar. Það á t.d. fjalla um hlutverk stofnana sveitarfélaga og verklag við sölu opinberra eigna.
Keypti bók nýlega sem maður hlakkar árlega til að fá. Það eru fjölmiðlapistlar Ólafs Teits Guðnasonar. Í þessari bók dregur hann saman pistla sem hann skrifar vikulega í Viðskiptablaðið um frammistöðu fjölmiðla og þess fólks sem þar starfar. Pistlar Ólafs eru misvinsælir meðal fjölmiðlafólks enda er Ólafur oft bæði glöggur, óvæginn og mjög greinargóður í umfjöllun sinni. Ég mæli með þessari bók sem ómissandi lesningu fyrir alla sem hafa áhuga á gagnrýninni þjóðmálaumræðu.
Fór 20 km í morgun með Vinum Gullu. Rigning og heldur kalt.
sunnudagur, október 14, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli