miðvikudagur, október 17, 2007

Það hefur verið gaman að fylgjast með ævintýrum Ásgeirs Jónssonar í Eyjaálfu þegar hann kleif Carstens Pyramid, fyrstur íslendinga. Þetta er liður í 7 Summits hjá honum en þetta fjall hefur á sérstöðu að það er svo erfitt að fá aðgang að þvi til að klífa það. Haraldur Örn er búinn að gera nokkrar tilraunir til að okmast á fjallið og leggja mikið fé undir en án árangurs. Það þarf því margt að ganga upp til að ferðin takist fyrir utan að vera góður klettamaður. Þarna eru mannætur á ferð í skógunum, stærsta náma í heimi Free Port sem þarf að fara í gegnum er öll mjög dúbíus og umferð utanaðkomandi aðila því ekki vel séð. Ásgeir er á leiðinni heim og kemur líklega í kvöld. Hann segir frá æfintýrum sínum á www.aj.is og ferðasagan birtist þar vonandi innan tíðar. Ásgeir er meistari minn í mataræði og hefur haft mikil áhrif á matseðilinn síðasta eina og hálfa árið.

Það er ýmislegt sem menn gera sér til gamans. Ég rakst á frásögn eftir David Crockett sem hljóp fram og til baka eftir Crand Canyon einn síns liðs. Þetta eru 83 mílur og túrinn tók 34 klst. Hann hefur birt frásögn af ferðinni á netinu undir slóðinni www.crockettclan.org/blog/?p=92#comments
Það hlýtur að vera magnað að taka langa æfingu við þessar aðstæður.

Ég horfði á myndina "Köld slóð" nýlega. Efnið og söguþráðurinn var svo sem allt í lagi en það var með ólíkindum hvað samtölin voru oft lélega gerð og stirðbusaleg. Þegar aðalbófinn var að búa sig undir að ganga frá söguhetjunni og það var svona dramatískt uppgjör þeirra á milli þá töluðu þeir eins og þeir læsu af bók á skólaskemmtun í barnaskóla. Það er eiginlega furðulegt hvað góðir leikarar á sviði verða oft stirðir þegar á dúkinn er komið.

Engin ummæli: