Það hefur ýmislegt áhugavert verið í umræðunni að undanförnu. Eitt er staða forsetans. Það er ekki óeðlilegt að farið sé að ræða málin þegar hann er erlendis allt að 1/3 hluta ársins. Er það endilega sjálfsagt og eðlilegt að hann sé eins og einhver prómotor fyrir íslenska auðmenn? Það má vel vera að fyrirtækjum gangi betur að komast inn á ráðamenn erlendra ríkja þegar forsetinn er með í för en á hann að hafa það sem forgangsverkefni að taka af stað þegar kallið kemur. Spyr sá sem ekki veit en það er eðlilegt að menn spyrji sig hver sé tilgangurinn með þessu embætti. Í annan stað er það ekki sjálfsagður hlutur að hann sé að reisa landa eða heimsálfa milli í einkaþotum auðmanna. Merkilegt hve það fór hljótt þegar Abramovich tók hann með í þotunni um árið frá Rússlandi. Man eftir viðtali við manninn þar sem hann átti ekki orð yfir manngæsku Abramovich Chelsea eiganda yfir að hafa byggt leikskóla í sínu heimahéraði, manni sem hefur eitt af stærstu fótboltafélögum í Englandi sem leikfang.
Það er dálítið rætt um meint samráð Bónuss og Krónunnar í dag og að fyrirtækin breyti verðum eftir behag. Ég man eftir því þegar ég las undir meistaragráðu í HÍ fyrir nokkrum árum að þá var rætt um það í einum kúrsinum að apotekakeðjur breyttu verðum rafrænt eftir því hvort væri "rush hour" eða ekki. Þegar fólk kemur og verslar í tímahraki á leið heim úr vinnunni þá er óhætt að hækka verðið dálítið án þess að eftir sé tekið. Þetta er ekki ólöglegt og mörgum þótti þetta snjallt. Það er vafalaust rétt en gott er að hafa þetta í huga þegar menn kaupa inn í tímaþröng seinni part dagsins. Fram kom í útvarpinu að enginn sem ræddi um málið við fréttamenn að vildi koma fram undir nafni. Það er eðlilegt í ljósi þess hve þessar keðjur eru sterkar og eigendur þeirra áhrifamiklir. Þeir geta þannig haft áhrif á starfsmöguleika manna og þá áhættu vill fólk eðlilega ekki taka.
Í Morgunblaðinu á laugardaginn var birtist umfjöllun eftir sagnfræðing nokkurn um bók Juang Chang og Jan Halloway "Maó; Sagan sem aldrei var sögð". Hann var vægast sagt pirraður út í bókina og fann henni flest til foráttu. Meðal þess sem hann tíndi til var hve margir af þeim heimildarmönnum sem vitnað var í voru nafnlausir. Mér finnst það í hæsta máta eðlilegt að einstaklingar í landi með viðlíka stjórnarfari eins og er í Kína þori ekki að koma fram undir nafni. Í Kína ríkja 5% íbúanna (fjöldi æí Kommúnistaflokknum) yfir hinum 95 prósentunum og þessi 5% aldrei verið kosin. Það er í hæsta máta eðlilegt að einstaklingar sem eru gagnrýnir á ríkjandi stjórnarfar í löndum með slíkt stjórnarfar séu varir um sig. Þetta á sagnfræðingurinn að vita. Það virðist vera svo að Maó sé enn á dálitlum stalli í huga ýmissa vinstri manna og því sé umfjöllun eins og birtist í bók þeirra hjóna forkastanleg og allt tínt til sem hægt er að leggja henni til lasts. Sagnfræðingurinn sagði einnig að það væri firra að það hefðu 37 milljónir dáið úr hungri á árunum í fyrir 1960 vegna aðgerða og aðgerðaleysis Maós. Það hefðu ekki verið nema 30 milljónir. Það er náttúrulega allt annar hlutur. Juang Chang skrifaði einnig hina merku bók Viltir svanir. Einn umsagnaraðilinn sagði hana vera "leiðinlegustu bók sem hann hefði lesið". Minna mátti það ekki vera. Nýlega kom út bók um ungdómsár Stalíns. eftir því sem ég hef heyrt var hann samkvæmt bókinni hinn versti drullusokkur strax á unga árum og var framhaldið eftir því. Það er áberandi að enginn innlendur sagnfræðingur hefur tekið upp hanskann fyrir Stalín. Hann er greiniega orðinn "persona non grata" en það er enn staðinn vörður um mýtuna um Maó.
Það komu nýlega tveir svíar til landsins og boðuðu fagnaðarerindið í jafnréttismálum. Karlinn sagðist hafa áður verið karlremba og tuddast á konum sem yfirmaður en nú væri hann orðinn annar og betri maður og vildi leiða aðra karla upp á hinn breiða veg. Þetta er dálítið týpiskt fyrir svía. Þeir eru margir hverjir svo meðvitaðir að þeir telja að þeir séu fæddir til að leiða hina vantrúuðu og vankunnandi af villu síns vegar. Ég verð að segja að mér fannst þetta minna mig á Kristján heiti ég Ólafsson þegar hann játaði syndir sínar í Spaugstofunni hér um árið: "Ég játa, ég játa, I am a porno dog".
Sænskir ættu frekar að leiða hugann að því að á hverju ári eru fleiri hundruð smástelpur (12 - 14 ára) giftar nauðungargiftingu í Svíþjóð. Þetta gerist innan þeirra samfélagshópa sem telja slíka hluti eðlilega og sjálfsagða og útiloka sig frá samfélaginu eins og hægt er til að geta óáreittir stundað slíka iðju og aðra álíka s.s. umskurð á smástelpum, heiðursmorð og þess háttar.
miðvikudagur, október 31, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli