Fór út í gærmorgun upp úr kl. 7.00. Þurfti að vera mættur snemma heim svo það þýddi ekkert annað en að taka daginn snemma. Hitti Halldór, Pétur, Jóa og Stebba við Kringlumýrarbrautarbrúna um 8.30. Þetta er að falla í fastar vetrarskorður aftur. Við fórum fyrir Kársnesið og síðan upp tröppurnar og Fossvogsleiðina heim. Boot Kamp hópur var við tröppurnar í handlyftum þegar við komum þangað og nokkrir stukku í tröppurnar af miklum móð þegar við lögðum af stað upp.
Ég fór á Breiðavíkurmyndina seinni partinn. Hún er vel unnin og stjórnendur þræða vel þann milliveg sem þarf að gera í svona tilvikum, segja það sem segja þarf, en forðast að fjalla um þessa sögu á yfirdrifinn og væminn hátt. Þeir fyrrverandi vistmenn sem talað er við gera það á greinargóðan og hreinskilinn hátt. Það er átakanlegt að fá á þennan hátt yfirlit um hvernig var farið með ung börn og fjölskyldur þeirra á þessum árum af hálfu s.k. barnaverndaryfirvalda. Breiðavík var ekkert annað en glæpamannafabrikka á þessum árum því hvað áttu þessir unglingar að gera eftir að hafa verið píndir og barðir þarna árum saman með tilbrigðum í ýmsar áttir. Þegar út í samfélagið var komið aftur voru þessir strákar ómenntaðir, þekktu ekkert annað en hnefaréttinn og síðan var leitað í dóp og brennivín til að flýja raunveruleikann og fortíðina. Það er ekki hægt annað en að mæla með því að fólk sjái þessa mynd, hún tekst á við óþægilegan kafla í okkar samtímasögu sem þýðir ekki að loka augunum fyrir. Ég man hinsvegar aldrei til að það væri umtalað í sveitinni að aðbúnaður strákanna í Breiðuvík væri á þann hátt sem síðan hefur komið í ljós. Það er svo sem ekki að marka því samgangur var ekki mikill milli fólksins á Sandinum og Víknanna á þessum árum. Maður sá strákana í Breiðuvík helst á 17. júní og eins þegar þeir komu yfir á Sand í gróðursetningarferð einu sinni á ári um nokkurra ára skeið. Það ég man eftir var að þeir sem komu í Breiðuvík á þessum tíma höfðu við orð að það væri gert misvel í mat við strákana annars vegar og annað heimilisfólk hins vegar. Það var ekki plagsiður í sveitinni og því tók fólk eftir þessu. Á hinn bóginn kemur fram í myndinni að þeir höfðu gert tilraunir til að segja nágrönnum frá ástandinu en vafalaust ekki verið trúað.
Ég rak augun í aðeins einn smá hnökra sem skiptir svo sem ekki máli nema fyrir staðkunnuga. Þegar var fjallað um að útsvar starfsfólks á heimilinu hefðu skipt miklu máli fyrir Rauðasandshrepp (sem var alveg rétt) þá var flogið yfir Barðastrandarhrepp og sýndar myndir af bæjum þar. Það er smáónákvæmni því Barðastrandarhreppur hafði engin tengsl við Breiðavíkurheimilið.
Bókin "Það er staður í helvíti fyrir konur sem ekki standa með öðrum konum" hefur verið auglýst nokkuð í fjöðmiðlum að undanförnu. Tónninn í titli bókarinnar gefur til kynna að það sé fyrir hendi stöðug barátta milli kynjanna og konur verði að standa saman gegn kúgurunum (sem eru karlar eða allavega sé ég ekki að aðrir komi þar til greina). Þær sem skerist úr í þeirri baráttu eigi ekkert annað skilið en að fara lóðbeint til helvítis. Eithvað skortir á að þessi boðskapur hafi náð inn í fótboltageirann allavega því upp er kominn allnokkur skandali þegar öfundsjúkar fótboltastelpur tóku sig saman um að ganga fram hjá bestu fótboltakonu landsins við kjör á knattspyrnukonu ársins og kjósa þess í stað aðra sem allir vita sem vilja vita að er ekki besti leikmaður tímabilsins. Sú ágæta kona var ekki einu sinni valin besti leikmaður ársins í eigin félagi. Þessi uppákoma hlýtur því að hækka verulega standardinn á fótboltaliði þess í neðra í kvennaflokki skyldi maður halda ef eitthvað er að marka fyrrgreinda bók.
Mannréttindanefnd Reykjavíkur á meðal annarra mikilvægra verka að standa vörð um jafnrétti kynjanna. Í því sambandi er áhugavert að skoða hvernig sá 10 manna hópur sem skipar stöður aðalmanna og varamanna í nefndinni er settur saman.
sunnudagur, október 21, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli