Við komum frá London í nótt eftir góða ferð að mestu leyti. Vonbrogðin voru þó þau að Man. Udt. skyldi tapa á Upton Park en það var aftur á móti mjög skemmtilegt að upplifa stemminguna á vellinum hjá heimamönnum þegar þeir höfðu unnið risann úr norðri í þriðja skipti á skömmum tíma. Ég átti von á því að Man. Utd. emnn kæmu grimmari til leiks til að láta ekki úrslitin frá sóðustu leiktíð endurtaka sig en það var ekki, þeir voru andlausir og óskipulagðir. West Ham menn börðust hins vegar allan leikinn og uppskáru laun erfiðisins. Við komum á völlinn dálitlu fyrir leik og sáum þá síðustu af leikmönnum mæta, m.a. Anton Ferdinad sem skoraði fyrra mark heimamanna. Það var frekar kalt og við fórum inn um dyr þar sem stóð "Supporters Club". Við vorum greinilega ekki klædd eins og stuðningsmenn West Ham (María m.a. með Man. Udt. bakpoka) og vorum spurð: "Hvaðan eruð þið?" "Frá Íslandi" sögðum við enda ekki annað í stöðunni. Okkur var fagnað eins og týnda syninum þegar það lá fyrir. Endilega drífið ykkur inn og fáið ykkur "one beer". Greinilegt að íslendingar eru ekki sérstaklega illa séðir á þessum slóðum. Inni var fullt af stuðningsmönum West Ham að spökulera fyrir leikinn. Við settumst hjá eldri manni og áttum við hann skemmtilegt spjall. Hann var búinn að eiga ársmiða á völlinn í um 30 ár og mætir alltaf þegar ekki er sýnt frá vellinum í sjónvarpinu. Hann býr fyrir utan London og ferðalagið á völlinn tekur um 2.5 klst. hvora leið. Ársmiðinn kostar um 50.000 kall. Þarna sátum við góða stund og höfðum mjög gaman af þessu. Karlinn var hrifinn af Eggert og sagði að hann hefði frískað margt upp hjá klúbbnum.
Sá í blöðunum að Margrét Lára hafi verið kosin íþróttamaður ársins. Ég avr búinn að veðja á hana fyrirfram svo mér kom þetta ekki á óvart. Hún er vel að þessu komin enda þótt svona val verði oft umdeilt. Hef m.a. séð að Guðjón Valur hefði ekki síður átt þennan titil skilið vegna þess að hann varð markhæsti leikmaður á HM sl vetur í Þýskalandi og var hylltur sem slíkur á Köln Arena. Guðjón var þar með fyrsti íslendingur til að ná þessum árangri sem er stórkostlegur út af fyrir sig. Margrét Lára er heilsteyptur leikmaður með mikinn metnað og hefur sýnt að með aga og ástundun er hægt að ná langt. Hún hefur líka sinnt unglingunum með því að heimsækja félögin og tala kjark og metnað í stelpurnar sem eru á viðkvæmum aldri og fá þær til að trúa á sjálfan sig. Einnig fannst mér gott hjá henni að vera ekki með neitt væl um að það sé stórkostlegt að kona skuli hafa verið kosin. Hún trúir á sjálfan sig sem einstakling en ekki sem fulltrúa einhvers undirokaðs minnihlutahóps eins og of margir gera sem fjalla um stöðu kvenna í samfélaginu. Hún lagði sérstaka á herslu á að stelpur hefðu sömu tækifæri í fótoltanum eins og strákar og það væri undir þeim sjálfum komið hve langt þær myndu ná í íþróttinni. Með þessu kjöri var einnig stungið upp í stelpupíkurnar í efstu deild fótboltans sem gátu ekki unnt henni að vera valin knattspyrnukona ársins sl. haust sökum öfundar.
Því miður komst ég ekki í gamlárshlaupið í dag. Sá á Mbl.is að um 370 manns hafi tekið þátt í hlaupinu sem er mjög gott miðað við heldur úfið veður. Maður verður stundum að forgangsraða málum þegar tíminn er knappur. M.a. er eftir að kaupa fírverkeríið.
Þetta hefur verið fínt ár til hlaupa og vonandi verður það næsta ekki lakara. Geri kannski upp árið í byrjun nýs árs. Óska þeim sem líta við gleðilegs árs með þökk fyrir að hafa lagt leið sína á þennan litla vettvang sem er skemmtilegur fyrir hugrenningar af ýmsu tagi.
mánudagur, desember 31, 2007
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Kæri frændi,
Megi gleði, farsæld, heilsa og fullt af öðru góðu fylgja þér og þínum á nýja árinu. Það eru ekki allir sem geta státað af hlaupaári á síðasta ári en ÖLL eigum við hlaupaár á þessu ári ;-). Þakka árið sem leið undir lok á miðnætti s.l.
Bestu kveðjur,
Sólveig frænka.
Gleðilegt ár til þín og þinna frænka sæl.
Mbk
Gulli
Skrifa ummæli