Það er margt sagt í moldviðrinu sem gengið hefur yfir landið á undanförnum dögum. Þrennt finnst mér standa uppúr á ýmsan hátt. Það fyrsta er viðtal Sigmars við Seðalbankastjóra í Kastljósinu. Það viðtal var þvílíkt disaster á ögurstundu að fá dæmi eru um slíkt. Þar kemur seðlabankastjóri landsins og tilkynnir að það sé stefna Seðlabankans að haga sér eins og ómerkilegur kennitöluflakkari að skilja skuldirnar eftir á gömlu kennitölunni og byrja upp á nýtt undir nýju númeri en með gamla nafninu. Hann gerði sem sagt ekki ráð fyrir að skipta um nafn á landi og þjóð. Þetta er þvílík yfirlýsing að mér þætti gaman að sjá aðra álíka við viðlíka aðstæður. Vitaskuld setti þetta allt á annan endann sem meðal annars hefur gert það að verkum að orðspor Íslands og íslendinga er búið í augum erlendra. Orðspor og æra er líklega það dýrmætasta sem nokkur maður eða þjóð á. Ef maður glatar því þá er ekki mikið eftir.
Í öðru lagi horfði ég á viðtal Egils Helgasonar við Jón Ásgeir. Egill hefur verið gagnrýndur mikið fyrir þetta viðtal, fólk hefur sagt að hann hafi sleppt sér og verið dónalegur. Ég tek ofan fyrir Agli fyrir þetta viðtal. Egill veit vafalaust miklu meir um það sem er að gerast og hefur gerst baksviðs en hann getur látið uppi. Mér finnst í hæsta máta eðlilegt við slíkar aðstæður að hann gefi tilfinningunum nokkuð lausan tauminn í svona viðtali þegar hann er að ræða við mann sem hefur mulið allt undir sig sem hefur orðið á vegi hans hérlendis á undanförnum 20 árum og kemur svo fram eins og kórdrengur sem ber enga ábyrgð á einu eða neinu. Menn standa nefnilega frammi fyrir því að venjulegt fólk tapar æfisparnaðinum m.a. vegna ákvarðana stjórnenda og eigenda bankakerfisins, atvinnuleysi eykst gríðarlega og landsmenn þurfa að öllum líkindum að greiða gríðarlegar stríðsskaðabætur um ókomin ár vegna athafna útrásarvíkinganna. Það þýðir einfaldlega lakari lífskjör hérlendis um langa framtíð. Almenningur borgar brúsann eins og venjulega. Núlifandi íslendingar og ófædd börn voru veðsett af útrásarvíkingunum. Víxillinn er fallinn. Var ekki einhver að tala um Hafskipsskatt fyrir rúmum 20 árum?
Í þriðja lagi fannst mér viðtalið Egils við Jón Baldvin nú rétt áðan í Silfrinu vera flott. Ég hef ekki alltaf verið aðdáandi Jóns Baldvins og fundist hann á stundum láta vaða á súðum um of. Nú var ég sammála hverju orði. Greining Jóns á stöðunni var frábær og lýsti henni eins og hún er. Karlinn talar mannamál og er skýr og skilmerkilegur. Greinir aðalatriðin frá aukaatriðunum. Ég er algerlega sammála honum um að það er eina leiðin í stöðunni að leita til IMF eða Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins. Það er mjög líklegt að hann setji ákveðin skilyrði fyrir lánveitingunni en valkostirnir eru engir. Að taka skammtímalán hjá Rússum er eins gjörsamlega út í hött í stöðunni. Það þýðir í raun og veru fjárhagslegt ósjálfstæði því það skiptir máli hverjum er skuldað. Í núverandi stöðu er enginn kostur góður. Þegar menn eru komnir upp að vegg þá ráða menn ekki alltaf för. Síðan er ég algerlega sammála honum um að umsókn um inngöngu í ESB er næsta mál á dagskrá. Eins og kom fram máli Jóns og fleiri í Silfrinu þá er meginástæðan fyrir þeirri stöðu sem þjóðin er komin í nú komin til vegna innlendra ákvarðana. Það þýðir ekki að kenna einhverjum öðrum um. Þeir sem sátu við stjórnvölinn í stjórnkerfinu, eftirlitsstofnunum og við stjórnvölinn eru ekki neinir sérstakir proffar heldur miklu frekar úr amatördeildinni.
Eitt smá dæmi. Á sama tíma sem Seðlabankinn setur verðbólgu markmið árið 2001 sem nam 2,5% þá lækkar hann bindiskyldu bankanna um 50% (úr 4% í 2%). Það hafði í för með sér að bönkunum voru gefnar frjálsar hendur með að pumpa ódýru lánsfé óheft inn í landið. Seðlabankinn hækkar stýrivexti til að hamla á móti verðbólgu. Það eykur vaxtamun milli íslenskrar krónu og ýmissa lágvaxtamynta. Það hefur í för með sér að það eru tekin lán í lágvaxtamyntum til að festa fé í svokölluðum Jöklabréfum sem voru ríkistryggð á háum vöxtum. Það styrkti krónuna sem þýddi gríðarlega aukningu á innflutningi, jók verslun og viðskipti innanlands með tilheyrandi viðskiptahalla. Aukið peningamagn í umferð eykur verðbólgu, það er grundvallarkenning í öllum hagfræðibókum. Til að hamla á móti verðbólgunni voru stýrivextir hækkaðir enn frekar. Þetta er eins og að botnstanda bensíngjöfina á bílnum sínum með annarri löppinni og standa á bremsunni af öllu afli með hinni. Það endar einungis á einn hátt, bíllinn eyðileggst.
Fór 16 km með Vinum Gullu í morgun. Fínt hlaup í góðu veðri.
sunnudagur, október 19, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli