miðvikudagur, október 15, 2008
Ég var í Róm yfir helgina ásamt flestum vinnufélögum mínum hjá sambandinu. Það var hálf skrítið að fara af landi brott þegar logar upplausnar léku um samfélagið en ferðin var pöntuð og greidd fyrir margt löngu. Ég hafði aldrei komið til Ítalíu áður. Skemmst er frá því að segja að Róm kom flestum fyrir augu sem stórkostleg borg. Minjarnar eftir Rómverjana eru svo magnaðar að það er varla hægt að lýsa þeim. Byggingarlist þeirra byggir á svo gríðarlegri verkfræðikunnáttu að það er engu líkt miðað við að þær voru reistar fyrir allt að 2700 árum. Óskiljanlegt er hvernig þeir hafa afrekað það sem þeir skilja eftir sig. Vafalaut hefur þetta meðal annars byggt á takmarkalausu þrælahaldi, enda segja rannsóknir á beinum sem fundust í Pompei að fólk hafi verið útslitið um þrítugt. Höggmyndalist þeirra er síðan kapítuli út af fyrir sig. Péturskirkjan, Vatíkansafnið og Sistinska kirkjan er í takt við allt annað sem maður sá. Freskumyndirnar þar á veggum og þaki eiga t.d. fáa sinn líka. Þetta er þannig að það er varla hægt að lýsa þessu með orðum. Maður er hins vegar rétt búinn að finna reykinn af réttunum með svona stuttri ferð. Vonandi kemur maður aftur til Rómar, enda var kastað tveimur krónupeningum aftur fyrir sig í Fontana di Trevi. Vonandi virkar íslenska myntin þar en ég er efins um að hún gangi á nokkrum öðrum stað fyrir utan landsteinana.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæll frændi,
Hef oft velt þessu fyrir mér hvernig í ósköpunum menn byggðu allar þessar stóru og flottu byggingar og skreyttu þær eins og við sjáum í dag.....nb. engir rafdrifnir vinnupallar til á þessum tímum!!! Þvílíkt hyggjuvit sem kapparnir í den bjuggu yfir. Dásamlegt bara og þessa njótum við í dag.
Bestu kveðjur,
Sólveig.
Skrifa ummæli