miðvikudagur, október 29, 2008

Kondis.no birtir í dag yfirlit um þátttöku norðmanna í klassískum ultrahlaupum. Það er í sjálfu sér erfitt að skilgreina hvað er klassískt ultrahlaup. Flestir eru sammála um að eftirtalin hlaup séu klassísk:

Comerades 87 - 89 km Suður Afríka
London - Brighton 86 - 89 km Bretland
Western States 160 km Kalifornía USA
Spartathlon 246 km Grikkland

Comerades er fjölmennasta ultrahlaup í heimi. Það var fyrst hlaupið árið 1921. London - Brighton er elsta ultrahlaup í heimi. Það varð til vegna veðmáls árið 1839. Frá og með árinu 1951 hefur það verið haldið árlega að mestu leyti.
Western States er fyrsta 100 mílna hlaupið sem varð til fyrir tilviljun og var fyrst hlaupið árið 1977.
Spartathlon er hámark ultrahlaupanna í heiminum. Það byggir á 2500 ára grískri sögu og var fyrst hlaupið árið 1983.

Fimm norðmenn hafa hlaupið London - Brighton. Einn Íslendingur hefur hlaupið þetta hlaup, Ágúst Kvaran.
Tíu norðmenn hafa hlaupið Comerades. Þrír íslendingar hafa hlaupið þetta hlaup, Eiður S. Aðalgeirsson tvisvar, Erla Bolladóttir og Ágúst Kvaran.
Fjórir norðmenn hafa hlaupið Western States. Undirritaður hljóp þetta hlaup árið 2005.
Sex norðmenn hafa hlaupið Spartathlon (þar af Eiolf sex sinnum). Undirritaður hljóp þetta hlaup í haust.
Tveir norðmenn hafa hlaupið tvenn þessara hlaupa (Geir Frykholm hefur lokið London - Brighton og Spartathlon og Eiolf Eivindsen hefur lokið Western States og Spartathlon). Við Ágúst höfum einnig hlaupið tvenn þessara hlaupa, Ágúst hefur hlaupið London - Brighton og Comerades og ég hef hlaupið Western States og Spartathlon. Gaman væri að klára þessa seríu, þau tvö erfiðustu eru að baki. Við erum fjórir norðurlandabúar sem höfum hlaupið Western States og Spartathlon. Kim Rasmussen Danmörku, Eiolf Eivindssen Noregi, Kjell Ove Skoglund Svíþjóð og undirritaður. Samkvæmt mínum bestu heimildum eru það innan við tuttugu manns (15 - 16) í heiminum sem hafa hlaupið bæði Western States og Spartathlon.

Sterling er farið á hausinn. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart. Það var svona hringrásarfyrirtæki. Svona er ferillinn:
1. Pálmi kaupir Sterling á 4 milljarða þegar danir töldu það gjaldþrota.
2. Pálmi selur Sterling til FL group á 15 milljarða. Veðhæfni eykst svo og lántökumöguleikar. Pálmi græðir vel á því að kaupa og selja.
3. FL group selur fyrirtækið á 20 milljarða til Northern Holdning sem er í eigu FL group, Pálma og Stoða. Veðhæfni eykst enn og hægt að taka enn meiri lán. FL group græðir vel á viðskiptunum.
4. Stering er selt til Pálma, kaupverð ekki gefið upp. Fyrirtækið komið á upphafsreit og fer á hausinn. Að sögn fyrst og fremst vegna þess hve íslendingar hafa slæmt orð á sér í viðskiptum erlendis.

Það væri gaman að vita hvaða banki lánaði peninga til að halda þessari mjólkurkú gangandi. Hún mjólkaði vel á meðan hún lifði.

Engin ummæli: