fimmtudagur, október 16, 2008

Mér fannst hraustlegt hjá ritstjóra DV að biðjast opinberlega afsökunar í síðustu viku. Hann baðst afsökunar á því að hafa brugðist í því að veita stjórnvöldum nauðsynlegt og eðlilegt aðhald. Aðhald í því að fylgjast með því hvort stjórnvöld væru á vaktinni að halda vöku sinni varðandi þá gríðarlegu þróun bankanna sem allir sáu sem vildu sjá og allir se vildu vita vissu að var stórhættuleg. Ritstjórinn sagðist einfaldlega hafa dansað eftir pípu auðmanna eins og aðrir fjölmiðlar, kóað með og ekki þorað að skera sig úr leik. Það er að vísu auðvelt að segja þetta þegar skaðinner skeður en engu að síður er gott að heyra að menn viðurkenni þessa staðreynd og reyni að bæta úr því. Það kemur nefnilega dagur eftir þennan dag í fjölmiðlaheiminum. Þeir sem tala nú sem mest um að stjórnvöld hefðu átt að setja stífari reglur ættu að rifja upp umræðuna í kringum fjölmiðlafrumvarpið. Nú ætla ég ekki að fullyrða neitt um að það hafi verið gallalaust, en markmiðið var að koma í veg fyrir það að auðhringar gætu ráðið fjölmiðlaumræðu hérlendis í krafti eignarhalds. Það fór af stað svo ofsafengin umræða að ég man ekki eftir öðru eins. Það má helst hafa galdrafárið í kringum Hafskipsmálið sem samjöfnuð. Stórnmálamenn töluðu sig hása í andófinu og að síðustu steig forsetinn fram og hafnaði málinu. Þarna beittu hagsmunaaðilar öllum mætti sínum og krafti að koma í veg fyrir að þeim væri veitt eðlilegt aðhald og reynt að hindra að þeir hefðu ótakmarkað vald yfir fjölmiðlum. Ég var alltaf sammála fjölmiðlafrumvarpinu. Ég byggði þá afstöðu mína á því sem ég kynntist í kringum það þegar ég var að baxa í málefnum blaðbera. Ég undraðist oft hve blaðamenn litu með blinda auganu á umræðuna um málefni blaðbera en þvældu og þrugluðu um allskonar bull að mér fannst. Að lokum var mér sagt hreint út að blaðamenn þyrðu ekki að fjalla gangrýnið um svona mál til að lenda ekki á svörtum lista. Markaðurinn hér er svo lítill að blaðamaður sem skrifar gagnrýnið um málefni sterkra hagsmunaaðila sem hafa ítök í fjölmiðlum veit eki hvenær hann getur þurft að leita eftir vinnu þar. Þá er öruggara að hafa ekki styggt risann.

Engin ummæli: