þriðjudagur, október 28, 2008

Mér finnst töff hjá Færeyingum að stíga fram og lýsa því yfir að þeir séu reiðubúnir að lána okkur dálítinn slant. Bæði er þetta vinarbragð í neyð okkar en einnig að það er rétt hjá þeim að litli bróðir sé ekki dauður úr öllum æðum og geti stutt við þann stærri. Það væri gaman ef einhver myndi rifja það upp hvað við gerðum þegar Færeyingar áttu í sem mestum erfiðleikum. Var það kannski ekki svo mikið? Skulum heldur ekki gleyma því hvenig þeir brugðust við þegar snjófljóðin féllu á Súðavík og Flateyri árið 1995. Þeir eru sannir höfðingjar.

Mér finnst að þeir sem fárast sem mest út af hækkun stýrivaxta skuldi okkur óbreyttum það að koma með annan valkost. Hvað er annað að gera í stöðunni? Ef stýrivextir hefðu ekki verið hækkaðir hefði krónan að öllum líkindum hrunið enn meir og þykir flestum nóg um. Krónan hefur fallið yfir 80% frá áramótum þegar tekið er mið af evru, dollar og jeni Ætli þeim sem skulda í erlendum gjaldmiðlum þyki ekki nóg um. Áhrif af hækkun stýrivaxta eru lengur að koma fram gagnvart þeim sem skulda i íslenskum krónunni. Menn mega ekki gleyma því að við eigum engan góðan valkost í stöðunni, einungis slæma. Þetta heitir að vera í kastþröng.

Það er ótrúlega gott að fara út að hlaupa í birtingu. Logn, heiðskýr himinn og kalt. Bara spurning um að klæða sig vel. Miklu betra en að hlaupa í miklum hita.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eitt vinarbragðið sem ég man eftir var að minnka kvótann hjá færeysku línu- og handfærabátunum sem höfðu verið sunnan við land áratugum saman.

Sumir vildu reka þá alveg úr landhelginni.

Grímur

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að minna mig á hversu gott það er að fara út að hlaupa á morgnanna. Hafði mig loks út í morgunn eftir dágott hlé á morgunhlaupum. Það var reyndar vel kalt en ótrúlega flott veður, frost og stilla.


Börkur