Áður en ég fór til Grikklands keypti ég mér bókina um Hafskipsmálið, þá fyrri. Samantekt sagnfræðingsins Stefáns Gunnars Sveinssonar "Afdrif Hafskips, Í boði hins opinbera". Ég las hana tvisvar, bæði á útleiðinni og á heimleiðinni. Ég man allvel eftir Hafskipsmálinu úr fréttum en þarna er á ferðinni góð sagnfræðileg samantekt þar sem meginefni málsins eru dregin saman án þess að sé farið í djúpa sagnfræðilega greiningu. Bókin er mjög fróðleg og gefur ágæta innsýn í íslenskt þjóðfélag fyrir um 25 árum síðan. Það verður að segja það eins og er að ekki er dómur sögunnar fallegur. Það á bæði við um þá þingmenn sem höfðu hæst, vinnubrögð lögreglu og saksóknara og síðan vinnubrögð ætlaðra fagmanna eins og endurskoðenda sem að málinu kom. Þáttur fjölmiðla er síðan kapítuli út af fyrir sig. Aðrir leikendur í þessu spili vekja furðu s.s. þáverandi seðlabankastjóri á ákveðnu stigi málins. Það sem upp úr stendur af mörgu er meðal annars umræður á alþingi. þar fóru þrír þingmenn mikinn og merkilegt nokk þá hafa allir þeir verið kallaðir til aukinnar ábyrgðarstarfa fyrir þjóð sína síðan þá. Sérstaklega voru ræður varaþingmanns nokkurs stóryrtar. Í löngu máli var m.a. fjallað um væntanlegan Hafskipsskatt sem myndi falla á þjóðina og kæmi til vegna gengdarlauss býlífis og bruðls forsvarsmanna Hafskips. Afleiðing þess yrði m.a að Útvegsbankinn þáverandi yrði gjaldþrota með tilheyrandi afleiðingum. Forsvarsmenn Hafskips voru einnig sakaðir í þingræðum um pningaþvætti, undanskot fjármuna og ég veit ekki hvað. Þessar ræður voru fluttar í skjóli þinghelgi svo vörnum var ekki við komið. Þær áttu stóran þátt í að tjúna alla umræðu um Hafskipsmálið upp þannig að það varð að óstöðvandi Tsunami sem sökkti félaginu endanlega. það er samdóma álit manna eftir á að það hefði ekkert fyrirtæki staðist þá fjölmiðlaumfjöllun sem það fékk á þessum tíma.
Niðurstaða alls þessa stórviðris að örfáir Hafskipsmenn vengu afar væga skilorðsdóma fyrir misfellur í bókhaldi.
Nú er þetta sagan en það er oft sagt að sagan endurtaki sig. Þessa dagana stendur íslenska þjóðin í miðju efnahagslegs stórviðris. Íslenskir útrásarvíkingar flugu svo hátt að þeir fóru of nærri sólinni og vængir þeirra bráðnuðu. Afleiðingin var brotlending bankakerfisins sem var í fararbroddi fyrir efnahagsundrið íslenska. Almenningur þarf að standa undir afleiðingum þessa með mikilli kaupmáttarrýrnun og efnahagslegum skelli. Einstaklingar og fyrirtæki verða gjaldþrota. Útrásarskatturinn er staðreynd. Hvað kemur atburðarás síðustu daga Hafskipsmálinu við að þessu leyti. Jú, það er nefnilega svo merkilegt að einstaklingar sem völdu Hafskipsmönnum hin verstu hrakyrði í denn tíð hafa dansað útrásarhrunadansinn sem ákafast á undanförnum árum. Ég man eftir ræðu þar sem útrásarvíkingarnir voru mærðir í tölusettum liðum og var sá listi nokkuð langur. Þegar hrósið og mærðin var komin í yfir 10 liði (í tíunda lagi, í ellefta lagi, í tólfta lagi) þá þoldi ég ekki lengur við heldur gekk út og ældi. Nú er svo við að það eru ekki haldnar stóryrtar ræður um bruðl, óráðsíu og útrásarskatt(ætli tapið vegna FL group og Stoða sé ekki farið að nálgast 200 milljarðar króna sagði Vilhjálmur Bjarnason í dag) heldur er talað um að menn eigi ekki að liggja í baksýnisspeglinum en horfa þess í stað fram á veginn. Það er talað fyrir einhverjum "Dýrin í Hálsaskógi" móral, allir eiga að hjálpast að við að vinna sig út úr erfiðleikunum en ekki eyða orkunni í að leita að sökudólgum. Öðru vísi mér áður brá.
Ráðlegg öllum sem kunna að lesa að fá sér Hafskipsbókina og lesa hana oft. Hún ætti að vera skyldulesning í háskólum við nám í fjölmiðlafræði, stjórnmálafræði, lögfræði, viðskiptafræði (endurskoðendalínu) og siðfræði.
miðvikudagur, október 08, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Sæll frændi kær,
Nú er íslenska þjóðin heimaskítsmát og á undan máti er skák, þá skákstöðu virtu vitar þessarar þjóðar ekki og því urðum við HEIMASKÍTSMÁT. Nú er ullað á okkur frá útlöndum og gefið langt nef - við sitjum nú í sandkassanum og skiljum ekkert í því að enginn vilji leika við okkur. Það sem er verra og dónalegra er að allir vitar segja "Ég var búinn að segja þetta og vara við í mörg ár". Skrítið......?
Bestu kveðjur frá Sólveigu.
Skrifa ummæli