Góðu fréttir gærdagsins voru að Ísland náði ekki kosningu í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Mér hefur alltaf fundist að þessi tilraun íslenskra stjórnvalda um að ná kosningu í ráðið væri dæmi um að menn væru komnir dálítið fram úr sjálfum sér. Ég man vel eftir viðtalinu við gamla Stoltenberg í Nortegi þar sem hann sagði að tilgangsleysið af setu Noregs í Öryggisráðinu hefði verið algert. Megin ástæða þess að Noregur hefði ákveðið að sækjast eftir setu í ráðinu hefði verið svekkelsi utanríkisþjónustunnar yfir að aðildarumsókn Noregs í ESB hefði verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslu. Til þess að norskir diplomatar væru ekki algerlega í annari deild að eigi mati hefði setan í öryggisráðinu friðað þá dálítið en tilgangsleysið engu að síður verið algert. Þetta brölt hefur kostað ríkið gríðarlega fjármuni, miklu meiri en formlega eru gefnir upp. Þegar verið er að leita eftir stuðningi þjóða sem ganga fyrir smurning þá náttúrulega taka þær frá framlögum frá öllum en fylgja líklega þeim sem best borgar því þaðan er mest von um peninga í framtíðinni. Þessi kosningabarátta hefur því verið gósentíð fyrir þessar þjóðir að undanförnu. Það hefði verið mannsbragur að því að íslenska ríkið hefði dregið framboðið til baka strax og hið efnahagslega Tsunami skall á þjóðinni uppúr síðustu mánaðamótum og lýst því yfir að nú hefðu forsendur breyst og stjórnvöld þyrftu að einbeita sér að verkefnum á heimavelli. Það var því miður ekki gert og þess vegna var þjóðin niðurlægð í þessari kosningabaráttu sem var ekkert annað en bull frá upphafi.
Sveitarfélögin héldu fund í gær og réðu ráðum sínum. Ljóst er að allar fjárhagslegar forsendur hafa gjörbreyst á skömmum tíma og endurmeta verður margt í ljósi nýrra forsendna þegar fjárhagsáætlun fyrir næsta ár er unnin. Viðbrigðin eru gríðarleg hjá þeim sveitarfélögum þar sem umsvifin hafa verið mest á undanförnum árum. Á hinn bóginn er staða annarra gjörólík og sérstaklega þar sem þenslan hefur aldrei látið sjá sig. Bergur Ágústsson, sveitarstjóri í Norður Þing, rifjaði meðal annars upp að 35% vinnufærra manna á Raufarhöfn misst vinnuna á einum degi fyrir nokkrum árum. Húseignir urðu algerlega verðlausar í einu vetfangi. Fólk stóð þannig margt á algerum byrjunarreit, atvinnulaust og eignalaust. Yfirvöld sýndu þessu fólki enga tilhliðrunarsemi í einu eða neinu í ljósi þess að atvinnulífið í þorpinu hrundi. Ég þekki persónulega dæmi þess að fólk var tilneytt að flytja burt til að leita sér að vinnu og fór frá verðlausu húsi með tilheyrandi skuldum sem það gat ekki greitt af. Það var gengið að því á þann hátt að það var skilgreint sem óreiðufólk og var ekki talið tækt til að taka lán um nokkurn árafjölda á eftir. Þegar ég flutti þaðan burt fyrir tæpum 10 árum bjuggu um 400 manns í þorpinu. Nú búa þar um 230 manns. Góðu fréttirnar eru þær að Bergur sagði mér að nú væri mikill kraftur og samstaða í íbúum Raufarhafnar og það berðist sem einn maður fyrir tilveru staðarins. Það ætlaði að búa þarna áfram og legði sig fram um að skapa góða tilveru í plássinu, bæði atvinnnulega og félagslega. Þetta er gott að heyra því það er ekki sjálfgefið að fólk nái vopnum sínum í svona stöðu. Annað þótti mér ánægjulegt að heyra hjá Bergi. Hann sagðist aldrei hafa komið til Raufarhafnar þegar hann réði sig sem sveitarstjóra til Norður Þing. Nú er hann búinn að uppgötva töfra Sléttunnar. Það er á fáum stöðum magnaðra að vera á góðu vorkvöldi þegar suðvestanáttin stillir upp þvílíkum leiktjöldum að því trúir enginn sem ekki hefur upplifað það. Bergur er veiðimaður og unir sér gjarna við vötnin á heiðinni með flugustöng að glíma við stórurriðann. Ég skildi vel glampann í augunum á honum þegar hann var að segja mér frá þessu. Falleg vetrarkvöld eru ekki síður mögnuð þegar norðurljósadýrðin er slík að maður festist gjörsamlega við sjónarspilið. Síðan getur náttúran sýnt manni hina hliðina, hryssing og ruddahátt. Það gleymist hinsvegar fljótt þegar skárri hliðin sýnir sig.
laugardagur, október 18, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli