þriðjudagur, október 21, 2008

Jón Haraldur, norski hlauparinn sem vann 24 tíma hlaupið á Borgundarhólmi í vor með rúma 240 km setti glæsilegt norskt met í 24 tíma hlaupi á síðustu helgi. Hann hljóp 248 km á heimsmeistarahlaupi í 24 tíma hlaupi sem haldið var í Suður Kóreu á dögunum. Ég veit ekki annað en þetta mót verði haldið í Evrópu á næsta ári.

Rútínan er farin að rúlla aftur, morgunhlaup og farinn að fara á bretti í Laugum. Allt er í sóma eins og getur verið eftir smá hvíld. Svolítið stirður en það lagast fljótt. Því miður kemst ég ekki í haustmaraþonið á helginni því ef allt gengur upp á verður stjórnarfundur og vinnufundur í framhaldi af því á Akureyri á helginni. Veðurspáin er reyndar ekki alltof góð. Það er bara farið að vetra fyrir norðan.

Ekkert er farið að sjást til veggja í moldviðrinu sem hefur gengið yfir land og þjóð frá því um mánaðamót. Sífellt gjósa upp nýir dimmir bólstrar sem byrgja manni sýn. Nú síðast kemur í ljós að Seðlabankinn á í miklum erfiðleikum með að fá greiddan stóran hluta af þeim skuldabréfum sem hann hefur keypt af ýmsum fjármálastofnunum. Ekki þekki ég kerfið nógu vel en skrítið finnst mér að litlu fjármálafyrirtækin hafi verið notuð sem milliliðir fyrir stóru bankana til að koma skuldabréfum þeirra í verð. Ástæðan sem gefin var upp var að þeir hefðu ekki mátt selja Seðlabankanum skuldabréfin beint. Ef fjárhagsstaða Seðlabankans veikist, þá er það á hreinu að ríkissjóður þarf að skjóta peningum í hann. Það kostar enn meiri lántöku. Lán þarf að borga til baka. Lánum fylgja vaxtagreiðslur. Það er því alveg á hreinu að sívaxandi hluti skatttekna fer í að greiða afborgarnir og vexti að gríðarlegum lántökum ríkissjóðs. Það hefur ekki nema tvennt í för með sér. Annars vegar hækka skattar eða ríkið sker niður útgjöld sín. Aðrir valkostir eru ekki til staðar. Grundvallaratriði er að hægt verði að ganga frá lántöku hjá IMF sem fyrst til að koma gjaldeyriskerfinu í gang sem fyrst. Því fylgja vafalaust einhver skilyrði en hvað á að gera þegar aðrir valkostir í stöðunni eru ekki til staðar. Kastþröng er aldrei góð.

Engin ummæli: