föstudagur, janúar 30, 2009

Bjoörn Afzelius Evelina

Sullast yfir Lindá

Ég fékk á dögunum sendan DVD disk frá Spartathlon hlaupinu sl. haust. Það var gaman að rifja það upp og upplifa stemminguna aftur. Þegar ég sá hlauparana hella vatni yfir höfuðið á sér og bleyta sig á annan hátt þá minntist ég þess að ég þurfti aldrei að gera það allt hlaupið út í gegn. Hitinn hafði engin áhrif á mig í hlaupinu þótt hann væri um 28°C þegar sólar naut. Hitaþjálfunin í Laugum steinlá. Diskurinn nær vel utan um hlaupið en hann rúmur klukkutími á lengd. Myndin endar á því að félagi Eiolf klifrar upp á styttu Leonidasar og pósar þar. Hann lífgar upp á umhverfið með skemmtilegu útliti og góðum tilþrifum.

Ég prófaði að leita á Youtube.com hvort væri ekki að finna þar klippur frá Western States og Spartathlon. Það stóð ekki á svari. Ég fann strax nokkrar stuttmyndir frá þeim báðum. Þær gefa smá tilfinningu fyrir þessum miklu hlaupum. Ég sá á bandarískri frétt að þulurinn sagði að Western States væri Superbowl ultrahlaupara. Það er ekki leiðum að líkjast. Ein myndin var nokkuð sérstök en þar er farið yfir leiðina í Spartathlon hlaupinu á goggle earth. Þannig næst að fá sæmilega tilfinningu fyrir landslaginu á leiðinni. Slóðin er þessi:

http://www.youtube.com/watch?v=z6q3Gpsba9w

fimmtudagur, janúar 29, 2009

Ég fékk bréf í dag frá ÍBR. Bréfið markar nokkur tímamót í íþróttasögu landsins. Ungmennafélaginu R36 hefur verið veitt aðild að ÍBR. Ultrahlaup hafa því verið tekin á sama sess og aðrar íþróttir. Það eru ákveðin tímamót. Þetta er orðinn nokkuð langur prósess. Ég held að það sú allt að fjögur ár frá því sé sendi umsóknina fyrst inn. Þrátt fyrir að ég kópíeraði lög Ungmennafélagsins Fjölnis þá voru ýmis ljón á veginum. Það tók allan þennan tíma að ná á áfangastað. Langhlauparar eru á hinn bóginn þolimóðir og úthaldsgóðir svo þeir gefast ekki svo gjarna upp. Þessi litla hugmynd sem kviknaði einhvern tíman um að stofa sérstakt félag um þetta áhugamál hefur sem sagt leitt til þessa.

Þing ÍBR verður haldið dagana 26. - 28. ferúar nk. Á þingið getur UMFR36 sent einn fulltrúa.

Ég hef í hyggju að halda aðalfund UMFR36 fyrir miðjan febrúar. Þarf að finna út ákveðna tímasetningu.

Björn Afzelius - Till min kära

Kreppa

miðvikudagur, janúar 28, 2009

Björn Afzelius - Sång till Friheten

Arnarstapi í Lónafirði

Kondis.no birti nýlega afrekaskrá síðasta árs yfir helstu tegundir hinna formlegu ultrahlaupa. Það eru einhverjir ítalir sem taka hana saman og birta. Þetta er skrá yfir árangur sem er yfir ákveðnum lágmörkum í 100 km hlaupum upp í 1000 km hlaup. Einnig er skrá yfir sigurvegara í þessum hlaupum. Neil og Elínar Reed er getið sem sigurvegara í Reykjavík 100 km. Neil er einnig um miðjan hóp í hópi 100 km hlaupara en karlar þurfa að hlaupa 100 km undir 9:00 klst til að ná inn á skrána. Konur þurfa að hlaupa undir 10:00 klst til að komast inn á þennan heimslista. Elín nær því án vafa ef hún býr sig vel undir svona hlaup. Það þarf að hlaupa að lágmarki 180 km til að ná inn á þessa afrekaskrá í 24 tíma hlaupi. Ég er þar frekar framarlega með mína 217 km frá Borgundarhólmi. Mér til undrunar þá er ég einnig á 12 tíma listanum en ég hljóp 120 km og 350 m á 12 klst á Borgunarhólmi í fyrra. Það þarf að hlaupa að lágmarki 120 km á 12 klst til að ná inn á þennan lista. Vegalengdin var víst formlega mæld og tilkynnt án þess að ég vissi af því. Nú var ég ekkert að hlaupa 12 tíma hlaup heldur var það bara fyrri helmingurinn af sólarhringshlaupinu. Ef maður hefði einungis hlaupið 12 tíma hlaup þarna í fyrra hefði maður náð a.m.k. tíu km til viðbótar. Ég er því ágætlega ánægður með að vera inni á topplista heimsins í tveimur tegundum ultrahlaupa í fyrra.

Hér er slóðin á skrána. Það er svolítið þungt að hlaða hana upp því hún er yfir 100 síður.

http://www.kondis.no/Ultra/index.php?aid=79852&k=ultra%2Fultra&mid=

Ég fékk tölvupóst frá Neil í dag. Hann bað að heilsa öllum sem hann þekkti. Hann sagðist sakna hreina loftsins, vetrarins og félaganna. Hann er orðinn góður eftir Mexíkó þrautina og ætlar að hlaupa 40 M hlaup með Claire sinni á næstunni. Það verður hennar fyrsta ultrahlaup svo þetta er allt í rétta átt.

Síðan í Svíþjóð forðum daga hefur Björn Afzelius verið einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum. Ég á langflestar skífurnar sem hann hefur gefið út. Björn er frá vesturströnd Svíþjóð og talaði þess vegna smá Skánskuskotna mállýsku. Mér finnst skánskan mjög flott mállýska og þær aðrar sem hafa smá skánskan hreim. Hann sló fyrst í gegn í sveitinni Hoola Bandoola ásamt vini sínum Mikael Wiehe á árunum uppúr 1970. Síðan fóru þeir hver í sína áttina tónlistarlega séð og voru báðir í tónlistarlegri úrvalsdeild í Svíþjóð á árunum sem eftir fóru. Ég sá Björn nokkrum sinnum á sviði og meðal annars hér í Norræna húsinu í kringum 1990. Björn var bæði vísnasöngvari og rokkari. Ég hef það fyrir satt að Bubbi nokkur Morthens hafi orðið fyrir miklum áhrifum af Birni á árunum um og fyrir 1980. Hann bjó yfir þeim fágæta hæfileika að geta samið léttar og grípandi laglínur. Textarnir voru yfirleitt í róttækari kantinum sem var mikið "inn" á þessum árum. Hann dó úr krabbameini árið 1999 rúmlega fimmtugur. Ég læt nokkur lög með Birni Afzelius fylgja hér með á næstunni, mér sjálfum og vonandi einhverjum öðrum til yndisauka.

þriðjudagur, janúar 27, 2009

Eddie Meduza; Mera Brennvin

Lent í Aðalvík á Ströndum

Forseti Íslands afhenti bókmenntaverðlaunin á Bessastöðum í dag. Einar Kárason hlaut verðlaunin í flokki almennra ritverka fyrir Ofsa og æfisagan um Lárus Pálsson leikara í flokki fræðirita. Ég hef hvoruga lesið en efa ekki að þarna er vel valið. Ef Ofsinn er eitthvað í stíl við Óvinafagnað þá er hún góð. Einar er einn besti sagnamaður í rithöfundastétt sem er uppi nú. Það hefði orðið svolítið pínleg situation ef Guðjón Friðriksson hefði skrifað svo mikið afburðarit um forsetann að það hefði verið talið standa öðrum framar þetta árið. Þá hefði forsetinn afhent ritara eigin sögu verðlaunin. Kjánalegra hefði það nú varla getað orðið. Þetta sýnir manni t.d. að einstaklingar í stöðum eins og forsetinn er í eiga ekki að láta rita æfisögubrot um sig á meðan þeir eru enn í starfi. Það er eitthvað svo "Séð og heyrt" legt að það rýri virðingu almennings fyrir embættinu. Nóg er nú samt.

Það er alltaf slæmt að verða fyrir heilsufarslegum áföllum. Veikindi fólks eru ekkert til að gera grín að. Það er svona almennt viðhorf hjá venulegu fólki. Af hverju ætli megi þá gera grín að veikingum sumra en ekki annarra? Tvískinnungsháttur og hræsni pirrar mig.

Það var svolítið dæmigert fyrir ástandið að sjá Kastljós skúbba frétt með viðtali við fyrrum keppinaut þeirra af Stöð 2 þar sem farið var yfir inntak úr þætti sem þeir fengu ekki að birta á Stöð 2. Kompásmenn voru einfaldlega reknir þegar þeir voru að fletta ofanaf enn einu rippoffinu í tengslum við Kaupþing og hvernig peningum var mokað út úr bankanum í formi veðlítilla lána á síðustu dögunum áður en hann hrundi. Tvöhundruð og áttatíu milljarðar. Það er nær þrefalt verð Kárahnjúkavirkjunar. Kompásmenn voru einfaldlega reknir af Stöð 2 þegar þeir voru komnir í mál sem var of heitt. Sem betur fer hefur Baugsliðið ekki tök á öllum fjölmiðlum í landinu (ennþá).

mánudagur, janúar 26, 2009

HP Burman: Jamtlandstaus

Sóleyjarbreiða í Hrafnfirði


Tíðindin gerast hratt þessa dagana. Viðskiptaráðherra sagði af sér í gær. Of seint að flestra mati til að það breyti einhverju um stöðu hans. Í dag sprakk stjórnin. Þar var greinilega á ferðinni uppsett flétta þar sem sett voru fram skilyrði sem ausætt var að erfitt var að ganga að. Mér hefði fundist hreinlegra að láta brjóta á ákveðnum handföstum ágreiningsefnum. Þá er alla vega skýrt hvar skilur á milli. Að fara síðan í eftiráskýringar svo sem ég vildi þetta en þú ekki fyrir tveimur eða þremur mánuðum selur ekki sérstaklega vel. Það sem maður óttast nú er lausatök á landsstjórninni næstu mánuði ef kosið verður þann níunda maí. Það eru gömul sannindi og ný að óvinsælar ákvarðanir eru ekki teknar í aðdraganda kosninga. Þá er yfirleitt verið að dreifa yfirboðum á alla kanta. Verði farið að eyða peningum sem ekki eru til þýðir það einungis tvennt. Verðbólgu eða aukið atvinnuleysi. Það sem allra brýnast er nú að koma raunverulegum snúningi á atvinnulífið. Til að svo megi vera þarf fjármagn. Það þarf að vera hægt að lækka vextina. Til að fjármagn fáist þarf stöðugleika í stjórnsýsluna. Það þarf að gera það sem hægt er til að forða fjöldagjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja. Hvaða aðilar leggja fjármagn í fjárfestingar í landi sem hefur hálfónýtan örgjaldmiðil með óstöðugt stjórnarfar. Ekki myndi ég gera það. Síðan en ekki síst þarf að kalla þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á þessu hruni. Undan því verður ekki vikist.
Frásagnir af því sem hefur verið að koma upp á yfirborðið að undanförnu eru með ólíkindum. Lánveitingarnar úr Kaupþingi er ekkert annað en rippoff. Það eru að öllum líkindum einhverjir leppar fengnir til að taka lán í orði kveðnu þegar örlög bankans voru ekki umflúin. Veð eru engin. Ætli fengnum sé svo ekki deilt milli hlutaðeigandi. Það hefur einhvern tíma verið lagt í að rannsaka smærri mál. Ég tek undir það sem Vilhjálmur Bjarnason sagði í gær að svona gjörninga má alveg flokka sem alvöru sviksemi við samfélagið.

Það er slæmt að þær hefðir hafa ekki myndast hér eins og til dæmis í Svíþjóð að í ráðherradóm eru allt eins kallaðir einstaklingar sem sitja ekki á þingi. Þar í landi er hefð fyrir því að færir fagmenn utan þings eru kallaðir til starfa í ráðherradóm þegar ástæða þykir til. Hver er kominn til með að segja að það fólk eitt sem kosið er á þing sé hæft til að stjórna landinu. Hver getur dæmt um það? Fólk vex hvorki að visku né þroska við það eitt að vera kosinn á þing. Við aðstæður eins og ríkja hérlendis í dag þarf að kalla til bestu fáanlegu einstaklinga á hvern póst. Þjóðin hefur einfaldlega ekki efni á neinni meðalmennsku. Maður man eftir afar lélegum stjórnum sem skildu eftir sig efnahagslega rúst. Stjórnin sem sat árin 1971 - 1974 lagði grunninn að hinni efnahagslegu ringulreið sem ríkti hérlendis næstu 20 árin. Hún prentaði peninga sem voru ekki til og eyddi þeim. Það þýðir einfaldlega að verðbólgan rauk upp. Verðbólgan var á bilinu 25%-100% næstu 10-15 árin. Næst versta stjórnin sat á árinum 1980-1983. Þá fór verðbólgan upp í 100% á ákveðnum tímabilum. Stjórnleysið í efnahagsmálum var algert á þessum árum. Víxlhækkanir launa og verðlags voru óstöðvandi hringekja. Þeir sem knúðu fram launahækkanir meðal annars með verkföllum á þessum árum höfnuðu því að innistæðulausar launahækkanir væru verðbólguhvetjandi. þeir sögðu að launahækkanir væri afleiðing verðbólgu en ekki orsök. Seinni tíma hagrannsóknir hafa sýnt að þrátt fyrir allar þær launahækkanir þessara ára þá rýrnaði kaupmáttur launa jafnt og þétt. Afleiðing þessa stjórnleysis var að víxlhækkun launa og verðlags var rofin með handafli á árinu 1983. Þá var verðbólgan yfir 30%. Margir skuldugir einstaklingar, sérstaklega húsbyggjendur, lentu í gríðarlegum erfiðleikum og urðu gjaldþrota. Sumir flúðu land. Þetta var hins vegar óumflýjanleg aðgerð til að brjótast út úr því ástandi sem var að setja allt á hliðina.

Maður vonar að vítin séu til að varast þau í þessu sambandi. Verðbólga þýðir ekkert annað en bein kaupmáttarskerðing.

Á laugardaginn fór ég út kl. 6.30 og fór Poweradehringinn. Færið var bara þokkalegt og betra en ég hélt. Hitti Jóa við brúna og víð fórum vestur á Eiðistorg og inn í Elliðaárdal. Þaðan héldum við upp Poweradehringinn að sunnanverðu. Jói sneri við nálægt stíflunni en ég hélt inn að Breiðholtsbrúnni og svo til baka. Þá voru 43 km komnir. Á sunnudaginn fór ég út fyrir 8.00 og fór vestur á Eiðistorg og inn í Laugar. Sneri þar við og fór sömu leið til baka. Alls lágu 34 km.

Fyrsta árið mitt í Uppsölum upp úr 1980 kynntist ég sænskum strák sem hét Hans Petter Burman. Hann var alltaf kallaður HP (HoPe). Hann stúderaði við Uppsala universitet og hafði gert það nokkuð lengi. Hann var dálítið sérstakur en hafði tvær sérgáfur. Það léku öll hljóðfæri í höndunum á honum og hann var tungumálaséni. Hann hafði meðal annars tekið ástfóstri við mállýskuna sem töluð er í Jamtlandi (Jemskuna). Jemskan er dálítið sérstök og þykir illskiljanleg fyrir hinn venjulega Svensson. HP hafði gefið út plötu með lögum frá Jamtlandi og eitt þeirra hafði náð dálítilli spilun. Það er lagið Jamtlandstaus. Taus er jamska er sama sem tös sem þýðir stúlka. Það var gaman að kynnast HP. Hann var svona einn af kynlegum kvistum í háskólasamfélaginu í Uppsölum á þeim tíma. Ég þýddi nokkra texta fyrir hann af plötu herstöðvaandstæðinga. Hann var sérstaklega hrifinn af laginu um huldumeyna.
Ég hef stundum verið að grúska á Youtube og leita eftir lögum héðan og þaðan. Þar er allt til. Mér datt í hug á helginni að leita að HP Burman. Viti menn, er Jamtlandstaus ekki komin á Youtube. Ég hef ekki séð HP síðan ég flutti frá Uppsölum og veit ekki hvort hann sé lífs eða liðinn. Það er hins vegar gaman að rifja upp kynnin af honum.

laugardagur, janúar 24, 2009

Cream; Crossroads

Fossvík á Siglunesshlíðum

Mikil umræða fer nú fram í samfélaginu um stjórnkerfið og skipan þess. Meðal annars er rætt um fyrirkomulag kosninga til Alþingis. Það er nýlunda því umræða um fyrikomulag lýðræðisins hefur verið afskaplega máttlítil á undanförnum áratugum. Stjórnmálaflokkarnir hafa staðið saman um að kæfa niður umræðu eða vangaveltur um kosningafyrirkomulagið. Þeir vita hvað þeir hafa og vilja ekki breyta því. Það er skiljanlegt því fyrirkomulagið er hagfellt þeim sem sitja á þingi. Á listana er raðað á tvennan hátt. Annars vegar með svokalaðri uppstillingu en hins vegar með prófkjöri. Prófkjör geta verið lokuð fyrir aðra en flokksmenn en síðan geta þau verið galopin. Fyrir mörgum er það hámark lýðræðisins. Í mínum huga er það versta öfugmæli. Uppstilling er sitjandi fulltrúum hagfellt. Það gerist varla að sitjandi þingmanni sé hafnað í uppstillingu. Ég man alla vega ekki eftir því. Sá sem efstur er á listanum er því öruggur á þing ef listinn fær á annað boð mann kjörinn. Prófkjör hafa verið iðkuð af miklum móð undanfarna áratugi. Þau voru fyrst tekin upp að einhverju marki fyrir kosningarnar 1978 þegar Alþýðuflokkurinn sálugi var að berjast fyrir lífi sínu í enn eitt skiptið. Þá var það talið hámark lýðræðisis að allir gætu komið að því að raða á listann. Herbragðið heppnaðist giska vel. Siðan hafa komið í ljós miklir vankantar á þessu fyrirlkomulagi. Fólk getur kosið í prófkjörum margra flokka og tekur því þátt í að raða á lista víða. Frægast er dæmið um þegar kosningabærir íbúar þorps úti á landi fjölmenntu í öll prófkjör í kjördæminu til að kjósa sína fulltrúa inn á lista flokkanna. Það gekk fyllilega upp. Flokksmenn eyða oft miklum fjárhæðum í keppni við samherja sína um að komast í örugg sæti á listum. Þetta fyrirkomulag skilur oft eftir sig mikil sárindi meðal samherja sem tekur oft langan tíma að gleyma. Þar fyrir utan hefur mismunandi aðgengi að peningum mikil áhrif á hverjar eru líkur á framgangi í prófkjöri. Er það lýðræði? Spyrja má hvað vilja þeir fá í staðinn sem leggja mikla fjármuni til að tryggja stöðu ákveðins einstaklings á lista til Alþingiskosninga. Fram hjá svona spurningum þýðir ekki að ganga. Alla vega ekki í þessu litla sæta en dálítið spillta Íslandi.

Það hefur ekki tekist að fá umræðu að neinu marki um núverandi kosningafyrirkomulag og hvernig valið er á lista til Alþingis. Það er eins og það sé allstaðar annarstaðar gert eins og hér og ekkert sé af öðrum þjóðum að læra. Dæmigerður íslenskur sjálfbirgingsháttur eða heimalingsháttur. Ég ætla að nefna tvö dæmi um annað fyrirkomulag á kosningum til Alþingis. Það rifjast síðan upp í þessu sambandi að ég varð aldrei var við einhverja prófkjörsbaráttu þegar leið að kosningum þegar ég bjó erlendis. Hvorki í Svíþjóð eða Danmörku.

Í Danmörku er fyrirkomulagið á þann hátt að á framboðslista til Alþingis er raðað ákveðnum fjölda fólks af uppstillingarnefndum flokkanna. Þeim er raðað á kjörseðilinn í stafrófsröð. Kjósandinn merkir við (krossar) annaðhvort við listabókstaf flokksins eða einhvern frambjóðenda. Að kvöldi kjördags þegar talningu er lokið þá er gefið út hve marga þingmenn hver flokkur ehfur fengið kosna til þings en það liggur fyrst fyrir eftir tvo til þrjá daga hvaða fulltrúar hafa verið kosnir af hverjum lista. Kjósendur velja því sjálfir á kjördag hvaða fulltrúar sitja á Alþngi fyrir flokkinn. Menn spyrja gjarna hvað gerist ef bara einn frambjóðandi fær kross. Svona lagaðar mótbárur er bara bull því það gerist aldrei. Það má alveg eins spyrja hérlendis hvað ef enginn flokkur fær neitt atkvæði. Það bara gerist ekki.

Finnar ganga enn lengra en markmiðið er það sama. Kjósendur hafa afgerandi áhrif á hvaða fulltrúar sitja á þingi fyrir hvern þann flokk sem býður fram fulltrúa til þingsins. Í Finnlandi eru frambjóðendur settir fram í stafrófsröð eða í tilviljunarröð (random) á kjörseðilinn. Hver frambjóðandi fær sitt númer. Kjósandinn skrifar númer þess frambjóðenda sem hann kýs í ákveðinn reit. Bara eitt númer. Sá er fyrst kjörinn fyrir hvern flokk sem fær flest atkvæði og svo koll af kolli. Kjósendur hafa þannig afgerandi áhrif á hvaða fulltrúar sitja á þingi fyrir flokkana. Þetta er alvöru lýðræði. Það setur pressu á sitjandi þingmenn. Kjósendum er ekki réttur tilbúinn matseðill eins og hér og svo er sagt; Værsaago og spis.

Það er kominn tími til að hér fari fram alvöru umræða um hvaða fyrirkomulag sé farsælast við kosningu á alþingismönnum. Það fyrirkomulag sem við höfum notað fram til þessa er hvorki lýðræðislegt né skilvirkt.

föstudagur, janúar 23, 2009

Kinks; You really got me

Stálhlein við Stálhrygg í Stálfjalli

Það voru mikil tíðindi og ill sem voru birt í dag. Það er alltaf mikil frétt að forsætisráðherra landsins skuli þurfa að stíga til hliðar vegna veikinda. Að það skuli gerast við aðstæður eins og ríkja í þjóðfélaginu um þessar mundir gerir það enn dramatískara. Það er hins vegar mjög skiljanleg ákvörðun hjá Geir Haarde að hann skuli draga sig í hlé við þessar aðstæður. Góð heilsa er eitt það dýrmætasta sem hver maður á. Þegar hún lætur undan þá er eðlilegt að menn beini öllum sínum kröftum í þá baráttu að endurheimta hana. Stundum tekst það, stundum ekki. Honum fylgja bestu óskir og utanríkisráðherra sömuleiðis.

Vanhugsuð ummæli forsvarsmanns mótmælafundanna á Austurvelli dæma sig sjálf. Það velur enginn tímasetningu á veikindum sínum. Að kasta því fram að það sé eitthvað PR jippó er svo raunveruleikafirrt að það er varla að hægt sé að minnast á það. Það er hins vegar því miður svo að það er oft stutt á milli pólitískrar andstöðu og persónulegrar andúðar. Þegar svo er komið eiga menn að fara að vara sig. Við skulum ekki gleyma því að bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra Svíþjóðar voru myrt. Það gerðist í landi þar sem menn töldu einn af meginkostum þess vera að æðstu stjórnmálamenn gætu gengið óáreittir um meðal almennings. Svo reyndist ekki vera.

Ég fór í bíó í vikunni og sá myndina um Sólskinsdrenginn. Hún var mögnuð. Hún var sýnd í allstórum sal í Smáralindinni og hann var langt í það fullur. Ég veit ekkert um einhverfu og hvaða aðferðir eru taldar bestar og nútímalegastar. Það var hins vegar stórkostlegt að sjá hvernig var hægt að brjótast inn úr múrnum sem virðist umlykja þessa einstaklinga. Fullorðnir einstaklingar sem geta ekki sagt eitt einasta orð og hefðu fyrir nokkrum áratugum verið taldir algerir vanvitar geta tjáð sig hratt og örugglega með aðferðinni sem indverska konan, sem kemur fram í myndinni, hefur þróað upp. Skynjun þessara einstaklinga er allt önnur en okkar. Að sumu leyti miklu minni en að öðru leyti miklu meiri og sterkari.

Ég ætla ekki að rekja það sem ég sá frekar en mæli með þvi að fólk taki tíma í að sjá þessa mynd. Hún er okkur öllum hollt áhorf og því fólki til mikils sóma sem að henni stóðu.

fimmtudagur, janúar 22, 2009

The Who; Barbara Ann

Líður að leiðarlokum í Áskorun fyrir vestan

Það væri hægt að segja ýmislegt um það sem gerðist í gærkvöldi og nótt niður í miðbæ. Þarna gerðist það sem maður var hræddur við að gerðist. Tiltölulega friðsöm mótmæli breyttust í að drukkinn og dópaður skríll réðst með grjótkasti og annarsskonar ofbeldi á lögregluna sem hefur það hlutverk í samfélaginu að halda uppi lögum og reglu. Ég var með fulltrúa á staðnum þannig að ég er með frásagnir af atburðunum frá fyrstu hendi. Maður getur ekki annað en dáðst að því fólki sem gekk á milli grjótkastaranna og lögreglunnar til að verja hana fyrir meiðslum. Sem betur fer voru nógu margir þeirra sem voru þarna á staðnum með sansinn í lagi. Vitaskuld hafði lögreglan síðan engin ráð önnur en að ná undirtökunum og hreinsa svæðið. Þegar gerð er tilraun til að kveikja í þinghúsinu er mál að linni. Eins þegar skríllinn er farinn að beina grjótkastinu að fótum lögreglunnar vegna þess að þar eru þeir óvarðir. Maður vonar bara að myndir af þeim hafi náðst á öryggismyndavélar og aðrar myndavélar svo eftirmálar fari í eðlilegan farveg.

Það kom ljósmyndari í Kastljós í gærkvöldi og sagði farir sínar ekki sléttar. Hann hafði verið tekinn höndum og kortið í myndavélinni hreinsað vegna þess eins að hann hafði verið við tiltölulega saklausa iðju að sínu mati, að taka myndir af lögreglunni. Eins hefur lögreglan verið sökuð um að beina piparúðanum að ljósmyndurum. Þetta hefur komið ýmsum í opna skjöldi og menn talið sig órétti beitta. Saklausir menn sem gæti hafa verið ég sem fóru í bæinn í þeim eina tilgangi að ná áhugaverðum myndum af sjaldséðum atburðum. En komið hefur í ljós að málið er miklu alvarlegra en svo. Þessar aðgerðir lögreglunnar byggja á ákveðnum forsendum. Byrjað er að dreifa myndum af lögreglumönnum á netinu og upplýsingum um heimili þeirra og fjölskylduhagi. Síðan er hvatt til þess að heimilisfriði þeirra verði raskað að nóttu sem degi. Börnin eru tekin sérstaklega fyrir. Þetta kemur mér ekki að öllu leyti á óvart. Ég sá í sænsku blöðunum fyrir nokkrum árum umræðu um kennslubók fyrir fasistahreyfingar. Ég held meir að segja að ég hafi minnst á hana hér á blogginu. Bókin á uppruna sinn í Bandaríkjunum en hefur síðan vitaskuld drefist um allan heim. Nú er hún aðgengileg á netinu eins og allt annað. Í henni er fasistahópum kennt hvernig eigi að brjóta samfélagið niður og gera það viðkvæmara og auðunnara. Meðal annars er kennt sérstaklega hvernig eigi að veikja löggæslu og dómarastéttina. Það er fyrst og fremst gert með því að ógna fjölskyldum þeirra. Glæpamennirnir láta þá vita að þeir þekki fjölskylduhagi þeirra út í ystu æsar. Þeir geti þannig gert það sem þeir vilji gagnvart fjölskyldunni ef dómur eða lögregluaðgerð verður glæpamönnunum mótdræg. Vitaskuld kemur þetta til Íslands eins og allt annað. Þess vegna skulu áhugaljósmyndarar átta sig á að það er ekki sjálfsagður hlutur að þeir geti verið að þvælast við tærnar á lögreglunni endalaust, myndandi allt og alla þegar hún stendur í slagsmálum. Lögreglan veit ekki hverjir úr hópi ljósmyndaranna er þarna í annarlegeum tilgangi. Því telur hún öryggara að meisa þá alla. Þannig er þetta nú bara. Bardagi við lögregluna er ekkert gamanmál.

miðvikudagur, janúar 21, 2009

The Beach Boys; Barbara Ann

Inga systir og Bragi mágur við sumarbústaðinn

Það hefur gengið eitt og annað á í gær og í dag. Það er að gerast sem viðbúið var að fólk færi að láta skoðanir sínar í ljós með meir áberandi hætti en fyrir jólin. Sú alvarlega staða sem er til staðar er að verða fólki ljósari með hverjum deginum sem líður. Öllum almenningi blöskrar að enginn skuli hafa axlað einhverja ábyrgð á því efnahagshruni sem átti sér staðar í október sl. Það gerir gremjuna enn bitrari að heyra fréttir af því dag hvern hvernig auðkýfingar landsins hafa mokað fjármunum úr bönkunum á ýmsa lund í aðdraganda hrunsins. engin heildstæð mynd liggur fyrir af því hvaða aðgerðir séu í gangi. Það er ekki hægt að segja annað en stjórnvöld hafi mátt standa sig betur í almannatengslum. Ofan á allt þetta hefur atvinnuleysi í landinu vaxið gríðarlega og er nú orðið allt að 10%.

Í svona ástandi er alls lags töfralausnum haldið á lofti. Aðild að Evrópusambandinu er ein þeirra. Nú má það vel vera að Íslendingum sé nauðugur einn kostur að sækja þangað inn til þess að samfélagið geti funkerað þokkalega í framtíðinni. Grundvallaratriði er að fá gjaldmiðil sem tendur undir nafni sem slíkur. Það er hins vegar engin töfralausn. Atvinnuleysi mun t.d. að öllum líkindum vaxa við aðild að myntkerfi Evrópusambandsins. Það eru hins vegar fáir kostir fyrir þá sem eru í kastþröng. Lettland, sem er aðildarland ESB er í gríðarlegum vandræðum vegna áþekkrar þróunar og hefur átt sér stað hérlendis nema að efnahagskerfið hefur ekki hrunið. Vegna aðildar landsins að myntsamstarfinu er ekki hægt að fella gengið. Þá þarf að lækka launin beint í krónutölu. Laun opinberra starfsmanna hafa verið lækkuð um 25%. Líklegt er að einkageirinn fylgi þar á eftir. Að öðrum kostu myndi atvinnuleysi vaxa gríðarlega og er nóg fyrir. Áþekk staða er í Írlandi. Svigrúm einstakra aðildarlanda er takmarkað til að bregðast við efnahagsvandanum en baktrygging ESB engin þar sem ekki er um formlegt ríkjasamband að ræða.

Þrátt fyrir að stjórnvöld sitji undir réttmætri gangrýni á ýmsan hátt þá eru valksotir þeirra sem gangrýna næsta fátæklegir. Maður heyrir fullyrðingar um að losa þurfi landið úr klóm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins??!! Fyrirgreiðsla og aðkoma AGS var óhjákvæmileg til að halda efnahagskerfinu gangandi og skapa sér smá möguleika að öðlast lánstraust hjá alþjoðasamfélaginu á nýjan leik. AGS er ekki einhver vond stofnun sem kemur að samfélögum í erfiðleikum til að láta illt af sér leiða. AGS leggur til raunhæfar en erfiðar aðgerðir sem óhjákvæmilegt er að takast á við svo hægt verði að fá hjólin til að snúast á nýjan leik. Að halda því fram að ef lán AGS verði afþökkuð og endursend þá verði hægt að koma í veg fyrir niðurskurð á opinberri þjónustu og allt verði gott og gaman á nýjan leik er í besta falli barnaskapur en annars gróf blekking. Það má líkja þessu við greiðsluþrota einstakling. Ef hann gengur til samninga við viðskiptabanka sinn um að fá fyrirgreiðslu til að koma óreiðuskuldum í skikk og setja upp raunhæft greisluplan, þá kostar það aðhald, sparsemi og óþægindi. Vonin er aftur á móti til staðar að viðkomandi verði fjárhagsæega sjálfstæður á nýjan leik og hafi vonandi lært af biturri reynsu hvað það kostar að vera óábyrgur í fjármálum. Ef á hinn bóginn þessi einstaklingur velur bankanum hin verstu orð og sakar hann um ruddaskap viða ð knýja sig til að skera niður einkaneysluna þá enda hlutirnir ekki nema á einn veg, lóðbeint í enn dýpri vandræði.

þriðjudagur, janúar 20, 2009

The Byrds; Turn Turn Turn

Djúpidalur í Reykhólahrepp

Ég sá á Bæjarins Besta í dag að Reykhólahreppur ætlar að halda Haustlitahlaup síðustu helgina í ágúst. Það er gaman að því að þessi litla hugmynd ætlar að verða að öðru og meira. Það er náttúrulega fyrst og fremst Ingólfi Sveinssyni að þakka sem dreif fólk vestur, hafði samband við hreppinn og var á allan hátt prímus mótor í helginni. Svona grjótpálar eru nauðsynlegir. Ef hann hefði ekki komið til skjalanna þá hefði ég farið vestur í kyrrþey og hlaupið þetta með annan strákinn með mér til að lóðsa bílnum. Við höfðum öll afar gaman því að kynnast strandlegjunni milli lundanna á annan hátt en að renna hana í bíl eins og maður er vanur. Það góða við svona hlaup er að það getur hver sem er útsett sitt hlaup á eigin forsendum. Án þess að ég ráði nokkru þar um þá er t.d. eitt dæmi um útfærslu að sá sem hleypur a.m.k. hálft maraþon hvorn dag fái brons viðurkenningu, sá sem hlaupi a.m.k. heilt maraþon hvorn dag fái silfur viðurkenningu og sá sem hleypur alla leiðina fái gull viðurkenningu. Viðurkenningarnar má útfæra á ýmsan hátt og skemmtilegast er ef það væri gert á forsendum heimamanna. Svona geta allir fengið verkefni við sitt hæfi, tekist á við aðeins meiri verkefni en þeir eru vanir og skemmt sér vel í leiðinni. Aðstaðan í Djúpadal er fín, sundlaug og heitur pottur. Þar er hægt að elda í herberginu, tjalda við laugina eða setja upp tjaldvagna. Þarna eru á ferðinni allar forsendur til að setja upp skemmtilega helgi.

Bryndís Svavardóttir er búin að skrá nafn sitt í hlaupasöguna hérlendis með því að verða fyrsti íslendingurinn til að hlaupa 100 maraþon. Það er flott hjá henni. Það er miklu erfiðara að ná þessu marki hér heldur en í nálægum löndum vegna þess hve fá maraþon eru haldin hér og það er dýrt að fara til annarra landa að hlaupa. Þetta hefst hins vegar með eljunni. Gaman að þessu.

Ég sá á blogginu hennar Evu að einhver umræða hafði farið af stað meðal einhverra um Laugaveginn og að "alvöru" hlauparar hefðu ekki komist að, þá líklega fyrir minni spámönnum. Nú er ákveðið fyrirkomnulag í gangi, opnað fyrir skráningu og síðan er "fyrstur kemur fyrstur fær". Það er ákveðin aðferðafræði og allt í lagi með það. Önnur aðferðafræði er að hafa lottó eins og í Western States. Það er líka í lagi. Hingað til hefur ekki verið takmarkaður aðgangur í hlaupið með kröfum um lágmarksárangur s.s. að hafa hlaupið maraþon. Það er í sjálfu sér ekki þörf á slíku nema ef það fer að verða vandamál að of stórt hlutfall hlauparanna komist ekki alla leið innan tilskilins tíma. Það kemur bara í ljós. Ég man ekki til þess í fyrra að það væri til vandræða. Ef sú fer að verða raunin þá má gera tvennt. Í fyrsta lagi að hafa sigti við Álftavatn. Þeir sem ekki komast þangað á lágmarkstíma eru stoppaðir og keyrðir til byggða. Annað sigti er svo við Emstrur. Það getur leitt til vandræða ef þarf að lóðsa of marga frá Emstrunum. Ef stærstur hluti hlauparanna nær á leiðarenda þá er það bara fínt. Maður sá það í London maraþoninu að það er þetta venjulega fólk sem ber uppi hlaupið og þarlendir báru mikla virðingu fyrir því. Að lokum er rétt að árétta að það á að láta Þórð, Eið og Pétur Vald. hlaupa í sérstökum heiðursvestum. Þau geta verið t.d. nr. 0, 00 og 000. Sá sem hefur hlaupið öll hlaupin á skemmstum tíma samanlagt fær nr 0 o.s.frv. Þeir eiga allan sóma skilið fyrir að hafa mætt í öll hlaupin og eru góðar fyrirmyndir um þrautseigju og úthald.

mánudagur, janúar 19, 2009

Beatles; Help.

Baula í kvöldsólinni

Grasrótin í Framsóknarflokknum gaf þeim hluta flokksins sem hefur ráðið ferðinni í flokknum á liðnum árum einkunn á landsþinginu um helgina. Hún var eins afgerandi og hægt var að hafa hana. Það sýnir síðan betur en nokkuð annað hver staða flokksins var orðin þegar maður sem skráir sig í flokkinn fyrir mánuði síðan er orðinn formaður hans. Formennsku í stjórnmálaflokki fylgir mikil ábyrgð hvað varðar málafylgju og stjórnun. Vonandi nær nýkjörinn formaður góðum tökum á hlutverki sínu. Ekki mun af veita. Forvitnilegt verður að sjá hvaða áhrif þessi niðurstaða hefur á aðra stjórnmálaflokka sem halda sína stórfundi á komandi mánuðum. Ekki er ólíklegt að þau verði sýnileg.

Það var mikil íþróttahátíð í frjálsíþróttahöllinni um helgina. Yngri kynslóðin keppti á laugardaginn og fram að hádegi á sunnudegi. Eftir hádegi á sunnudegi var svo haldið alþjóðlegt mót þar sem hinir fullorðnu öttu kappi við kollega sína frá Skandinavíu og Bretlandi. María tók þarna þátt í sínu fyrsta alvöru móti þar sem hún keppti við fullharðnað fólk. Hún stóð sig vel og bætti sig í öllum greinum sem hún tók þát í. Meira er ekki hægt að fara fram á.

Fullorðna fólkið lætur ekki að sér hæða. Krökkunum getur hlaupið kapp í kinn í harðri keppni svo þeim sjáist ekki fyrir. Þá er það hinna fullorðnu að rétta kúrsinn og sjá til að allt fari fram eins og á að vera. Skilaboðin verða að vera skýr. Í 800 m hlaupi hljóp lítilli stelpu kapp í kinn á lokasprettinum. Hún var fyrst allt til í í síðustu beygju. Þá kom önnur upp að hliðinni á henni og var að taka fram úr. Sú sem fyrst var tók til sinna ráða og hrinti hinni til hliðar. Þegar önnur sótti að henni þá rétti hún út hendina og hélt henni fyrir framan keppinautinn alla leið í mark svo hún kæmist ekki fram úr henni. Það sem ýmsum sem á horfðu þótti verst var að fullorðnir aðstandendur þeirrar stelpu sem beitti svona allavega aðferðum til að sigra keppinauta sínar fögnuðu henni eins og hetju í markinu þrátt fyrir að hún hefði sigrað með ítrekuðum og fáséðum bolabrögðum. Sigurinn virtist skipta öllu máli. Tilgangurinn helgar meðalið. Skilaboðin sem send eru með svona löguðu eru skýr. Það er í lagi að hafa rangt við ef það hjálpar þér við að sigra. Þetta er svona svipað og ef allir leikmenn í liði í fimmta flokki í fótbolta tækju upp á því að handleika boltann eftir þörfum og vera fagnað sem hetjum ef sigur ynnist í leiknum.

laugardagur, janúar 17, 2009

The Doors; Touch Me

Öskurhver á Hveravöllum

Fór út rúmlega 6.30 í morgun. Fínt veður, hægviðri og hitinn um frostmark. Ég fór Powerade hringinn og síðan út Fossvoginn. Hitti Jóa við brúna en aðrir voru fjarstaddir. Við vorum hefðbundinn hring vestur úr og síðan inn í Laugar. Þaðan inn í Elliðaárdal og síðan út í Nauthólsvík. Þar snerum við við og héldum heim. Færið var fínt, það hafði snjóað ofan í hálkuna svo svellið var hraunað. Kom heim langt gengið í 11. Alls voru 42 km skildir eftir svo laugardagsmarkmiðið er komið í hús þessa helgina. Margt fólk á hlaupum þegar leið á morguninn.

Fréttir af því að bílar sem teknir eru af fólki vegna þess að það getur ekki borgað af áhvílskuldum séu seldir einhverjum og einhverjum fyrir slikk eru ekki beint skemmtilegar. Málum er hagað þannig að bíleigandinn fyrrverandi fær lítið upp í skuldina og situr eftir í súpunni. Vitaskuld hafa ýmsir hagað sér gáleysislega við að skuldsetja sig upp í rjáfur við að kupa bíl á erlendum lánum. Það réttlætir það ekki að þeir séu allt að því rændir með því að bílarnir eru seldir fyrir slikk svo skuldin stendur að mestu eftir en bíllinn farinn. Í ástandi eins og ríkir í dag sem er mjög langt frá því að vera normalt þyrfti einhver að gæta hagsmuna þess fólks sem missir tökin á atburðarásinni svo það sé ekki rúið inn að skyrtunni umfram það sem eðlilegt má teljast. Það er óþarfi að gefa óprúttnu liði algerlega lausan tíminn því það þrífst oft best í svona ástandi.

Egill Ólafsson, forsvarsmaður þrýstihóps um byggingu tónlistarhúss, ritar lærða grein í Moggann í morgun. Hann er að tína til rök sem eiga að hvetja borg og ríki til að drífa í að ljúka bygginu skrýmslisins sem stendur óklárað niður á hafnarbakka eins og minnisvarði um allt sem var svo mikið 2007. Hann barmar sér mikið yfir aðstöðunni ´fyrir Simfóníuhljómsveitina í Háskólabíói og segir meðal annars að ef hljómsveitin komist í almennilegt húsnæðí muni tónleikum og áhorfendum fjölga og erlendir snillingar muni ekki lengur snúa við í dyrunum þegar þeir sjá og heyra aðstöðuna. Í greininni kemur fram að tónleikahúsið í Birmingham á Englandi sé álíka að stærð og umfangi eins og húsið fyrirhugaða við hafnarbakkann. ég gogglaði Birmingham og þar kemur fram að í Birmingham búa 2.3 milljónir mannaeða rúmlega 7 sinnum fleir en á landinu öllu. Á höfuðborgarvæðinu búa um 180 þúsund manns. Birmingham er því um 12 sinnum fjölmennari en höfuðborgarsvæðið. Þetta kemur ekki fram í grein Egils en segir betur en margt hvað þessi tónlistarhússbygging var frá upphafi til enda alveg kolþreifandi geggjuð. Svo er ég alveg viss um að utan um tónlistarhúsið í Birmingham er ekki glerhjúpur eins og fyrirhugað er hér. Hann einn kemur til með að kosta fleiri milljarða. Hvernig ætli hann líti út í norðanskælingnum þegar sjórokið mattar glerið? Hvernig ætli sé að þrífa ósköpin? Það er orðin nýlunda ef byggt er hús á Íslandi sem heldur vatni og vindum. Með hliðsjón af því er hæpið að tryggt sé að það leki hvergi með samskeytum. Þetta er allt á sömu bókina lært.


Skörin er svolítið farin að færast upp á bekkinn þegar mótmælendur eru farnir að mótmæla hverjir öðrum.

föstudagur, janúar 16, 2009

Johnny Cash; Ring of Fire

Beinhóll á Kjalvegi

Mér var send skepmmtileg mynd um þrjá hlaupara sem tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoni í sumar. Þau eru Anna Sigga, Eddi og Páll Gísla. Ég þekki konuna ekki en Eddi og Páll eru góðir kunningjar mínir. Eddi var m.a. í hópnum "Happy People" á Grænlandi í fyrrasumar, er nýbakaður Járnkarl og ég veit ekki hvað. Páll var ekki kenndur við hlaup þegar ég þekkti hann. Hann greinist fyrir nokkrum árum með krabbamein í nýra og fær góðan bata. Til að styrkja skrokkinn í kjölfar veikindanna fer hann að skokka og hefur ekki stoppað síðan. Nokkur maraþon hafa legið svo og Laugavegurinn. Þetta var skemmtileg mynd. Í upphafi var spjallað við fólkið, síðan fylgst með því í hlaupinu og að lokum tekið smá viðtal við það í markinu. Eins og heyrist þá er þessi mynd gerð af erlendum aðila. Góð hugmynd fyrir innfædda kvikmyndagerðarmenn. Linkurinn er hér með. Mæli með þessu.
http://www.youtube.com/watch?v=wlYpojinuso


Það voru athyglisverðar fréttir sem birtust í dag um að menn væru komnir á spor þriggja manna sem að sögn hefðu stolið á annan tug milljarða úr Kaupþingi rétt fyrir hrun bankans. Búið að vísa málinu í formlegan farveg. Fróðlegt að vita hvenær sá fyrsti verður handtekinn, ef það gerist yfir höfuð. Egill Helgason fer nokkuð skemmtilega yfir það á Eyjunni í dag hvernig dansinn var stiginn við að halda uppi gengi bankanna og annara krosseignartengdra fyrirtækja. Þegar forsvarsmenn þeirra höfðu lagt mikið undir í kaupum á bréfum í bönkunum var allt lagt undir með að halda genginu uppi svo þau dygðu sem veð fyrir öllum þeim lánum sem búið var að taka út á þau. Þegar allt um þraut var ákveðið að afskrifa lánin. Þegar sá gjörningur kom í ljós eftir hrunið þá fór það misjafnlega í menn. Nú stendur að sögn umræðan um að gera upp lánin á móti bréfunum á ákveðnu gengi sem dugar til að skuldajafna. Eftir sitja þá þær eignir, sem viðkomandi aðilar hafa keypt fyrir öll lánin, skuldlausar. Í eigu viðkomandi einstaklinga en lánunum jafnað á bök almennings í formi hærri skatta. Er nema von að sumir fái hiksta og sofi verr en áður.

Fyrir nokkrum árum sat ég flokksþing Framsóknarflokksins. Setningarathöfn þingsins verður lengi í minnum höfð. Þrjár austurlenskar stúlkur sýndu magadans sem er þeirra útfærsla á súludansi. Þetta var á tímum þess að það þótti nauðsynlegt að vera modern og sýna nýtt lúkk. Allt betra en það gamla.
Ég kíkti á setningarathöfn flokksins á netinu í morgun. Við setningu þingsins sungu þrjár íslenskar stúlkur Ísland farsælda frón í fimmund. Þær klæddust mórauðum lopapeysum með flottum bekk. Spurning er hvort megi lesa breytta stefnu úr nýjum áherslum flokksins við setningu þingsins.

fimmtudagur, janúar 15, 2009

The Hollies; Stop, Stop, Stop

Stálið og Stálhryggurinn

Það var frekar vont að hlaupa í morgun, hált og varasamt. Annars hefur veturinn verið býsna góður. Það er ekki hægt að kvarta yfir honum, yfirleitt bæði veðurgóður og snjóléttur. Ég reyni að halda þessu róli með um 100 km áviku út mánuðinn og svo fer ég að herða heldur á því. Ég sá á heimasíðu Geirs Fryklund, norsk félaga míns frá Grikklandi, að hann ætlar bæði að hlaupa 48 klst í Brno í Tékkóslóvakíu í marslok og síðan ætlar hann til Grikklands aftur. Mér líst ekki alveg á að hlaupa í Brno því það er hlaupið innandyra á steingólfi að hluta. Ég held að það sé betra að stika stígana í Borgundarhólmi því þar er stígurinn mjúkur að helmingi til. Það eina sem er ótryggt í Borgundarhólmi er veðrið. Öll árin sem ég hef hlaupið þar hefur farið að rigna daginn eftir hlaupið og stundum mjög mikið.

Laugavegurinn er bara fullur, 300 manns og nokkrir tugir á biðlista. Þetta er flott. Það var eins gott að maður hrökk til í síðustu viku. Sumir voru að velta fyrir sér hvort ætti að lengja hlaupið með því að halda áfram yfir Fimmvörðuháls. Ég held að það sé ekki skynsamlegt og reyndar beinlínis hættulegt. Það er ekkert vit í að ætla þreyttu fólki að fara yfir hálsinn í öllum veðrum og jafnvel niðaþoku. Það væri nær að snúa við og fara til baka upp í Landmannalaugar aftur. Það eru ekki nema svona 15 tímar max eða 110 km. Það er ekkert mál að útfæra það.

miðvikudagur, janúar 14, 2009

Rolling Stones; The Last Time

Fúlakvísl við Þverbrekknamúla

Ég skráði mig á Laugaveginn í fyrradag. Þá var ég keppandi nr 121. Í gær voru á þriðja hundrað keppnendur búnir að skrá sig og enn er um hálft ár til stefnu. Það er flott. Það gæti á fjórða hundrað manns viljað taka þátt í Laugavegshlaupinu í sumar. Þá yrði það örugglega fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndum. Það kom í ljós í fyrra að með smá skipulagningu er ekki stórmál að halda utan um þennan fjölda. Vitaskuld er í mörg horn að líta en með þeim góða mannskap sem hefur haldið utan um hlaupið unanfarin ár þá gengur þetta allt vel upp. Það verður gaman að sjá hvernig fjölmiðlar sinna þessum viðburði í sumar. Það er hægt að setja upp hundshaus og segja að það sé miklu merkilega að fimbulfamba um það viku eftir viku og mánuð eftir mánuð hvort einhver fótboltamaður sem er á síðasta snúning á keppnisferlinum verði seldur eða ekki eins og dæmi eru um. Það er einnig hægt að sinna þessu virkilega vel og senda með því ákveðin skilaboð inn í samfélagið sem koma til með að hafa mikil áhrif til lengri tíma litið. Án þess að maður sé að tala um einhverja einangrunarstefnu þá er það skylda fjölmiðla að sinna því vel sem vel er gert á innlendum vettvangi er þegar á brattann er að sækja í samfélaginu.

Ég lét einnig slag standa í dag og skráði mig í 48 tíma hlaup á Borgundarhólmi í maí. Ég er að vísu ekki búinn að borga það en sama er, stefnan er mörkuð. Þetta er eðlilegt framhald af því að vera búinn að taka 24 tíma hlaup tvisvar og síðan Spartathlon sem tók einn og hálfan sólarhring. Það á ekki að vera neitt mál að klára tólf tíma til viðbótar. Það er bara spurnig hvernig á að leggja svona hlaup upp. Á maður að taka fyrri sólarhringinn af krafti og freista þess að slá 217 kílómetrana frá því í fyrra og taka síðan seinni sólarhringinn rólegar og láta sjá hvað maður kemst langt á því eða að hlaupa taktiskt. Taka fyrri sólarhringinn frekar rólegan og hafa síðan nóg á batteríunum fyrir þann seinni. Þetta verður skoðað betur í vetur. Þessi tímasetning passar mér mjög vel miðað við önnur hlaup og önnur plön. Maður verður búinn að hvíla sig vel um miðjan júní og þá getur undirbúningur fyrir Laugaveginn hafist og ýmislegt annað.

Fyrsta 24 tíma hlaup ársins var haldið í Árósum um síðustu helgi. Brölling, sem var annar á Borgundarhólmi sl. vor vann hlaupið með 216 km. Tveir aðrir komust yfir 200 km, báðir frá Þýskalandi.

Maður skilur ekki alveg eftir hvaða formúlum var unnið í Seðlabankanum í fyrra. Fjárstreymið úr honum var alveg gengdarlaust. Annað hvort hafa þeir sem taka ákvarðanir ekki treyst sér til að stíga á bremsurnar, því lánstraustið var greinilega búið annarsstaðar eða þeir hafa látið slag standa og ausið út peningum meðan eitthvað var til og vonað hið besta. Það getur ekki hafa dulist neinum einasta manni hvað var þarna að gerast. Svo stendur Seðlabankinn eftir gjaldþrota og ríkissjóður verður að hlaupa til og setja um 3/4 fjárlaga inn í bankann til að forða honum frá gjaldþroti. Svo er sagt að þetta kosti lítið sem ekkert. Hvar eru fjölmiðlar? Hvar er umræðan um þetta mál nema á Eyjunni?

Mér finnst að lögreglan þurfi að skerpa sig í vinnubrögðum og framkvæmd á vettvangi við aðstæður eins og voru við Alþingishúsið í gærmorgun. Ástandið í samfélaginu er ekki í jafnvægi og það vissulega ekki að ástæðulausu. Uppákoman við Alþingishúsið ætti að vera yfirmönnum lögreglunnar víti til varnaðar. Að örfáir lögreglumenn séu að slíta einn og einn úr hópi þeirra sem blokkeruðu innganginn og ráðherrar standi á meðan óvarðir við hliðina á átökunum er hreinlega ekki í lagi. Að dulbúinn maður geti komist óáreittur að forsætisráðherra og haft sína hentisemi við aðstæður sem þessar gengur hreinlega ekki. Olof Palme sagði að það væri einn af kostum þess að búa í Svíþjóð að geta gengið óáreittur um göturnar. Allir vita hvernig saga hans endaði. Við svona aðstæður verður lögreglan að hafa stöðuna algerlega undir kontrol.

þriðjudagur, janúar 13, 2009

Dave Edmunds; I Knew The Bride.

Lómur í friðlandinu

Viðtalið við Guðmund Ólafsson í Kastljósinu áðan var gott. Guðmundur er einn af betri greinendurm þvi hann talar mannamál og svo getur hann steypt yfir sig svo mildilegum hjúp. Það sem hann bað mest um var að stjórnvöld segðu almenningi satt og rétt frá. Það er engum greiði gerður með því að ýta á undan sér því sem óhjákvæmilegt er, að staðreyndir komi í ljós.

Ég á í dag að Seðlabankinn hefði rýmkað um útlánareglur framan af ári í fyrra. Þá hafa stórubankarnir verið farnir að svitna út af því að erfiðara var farið að útvega sér lánsfé. Samkvæmt reglum Seðlabankans mátti bankinn þó ekki lána þeim eins mikið og þeir þurftu. Því voru flestir litlu bankarnir notaðir sem milliliðir. þeir keyptu skuldabréf af stóru bönkunum, seldu þau til Seðlabankans og seldu bönkunum síðan peningana sem þau fengu fyrir skuldabrféfin með ágætum ágóða að öllum líkindum. Þegar hrunið var afstaðið þá sat Seðlabankinn uppi með 350 milljarða í ónýtum bréfum. Ríkissjóður þurfti að taka þetta yfir. Fjárlögin í ár eru upp á 450 milljarða, bara svona til samanburðar.

Að einhverju öðru ánægjulegra. Ég gekk í fuglaverndarfélagið í fyrravor. Það er skemmtilegt umhverfi að kynnast. Það hafa verið haldnir nokkrir opnir fyrirlestrar s.s. um fuglamyndaferð til Oban og Jóhann Óli hélt fyrirlestur um nýja bók sína um Lundann. Fuglamyndataka er mikil áskorun. Hún krefst bæði þolimæði, þekkingar og einnig smá tækjakosts. Ég fór í fyrsta sinn um Friðlandið í Flóa í sumar. Það var ákveðin upplifun. Bæði er fuglalífið þar mjög mikið og sá ég þó vafalaust bara minnstan part af því en í annan stað þá eru fuglarnir þar svo spakir. Skotveiði hefur verið bönnuð þar um langa hríð og það skilar sér strax. Ég er farinn að hugsa um hvernig hagar sér næsta vor. Þetta er nokkuð eins og gæsaveiðar. Best er að vera kominn á staðinn síðla nætur og vera klár þegar morgnbirtan kemur og eins og fuglinn oft mikið á ferðinni á morgnana við fæðuleit og fleira. Þá nást oft góð skot. Ég keypti mér feludúk á útsölunni hjá Ellingsen á dögunum. Hann kemur sér vonandi vel þegar fer að vora. Eins þarf ég að skreppa austur að Ölfusárósum á næstunni þegar er bjart einhverja helgina. Þar er mikið fuglalíf á veturna. Vefur fuglaverndar er www.fuglavernd.is. Þar eru slóðir á ýmsa góða vefi hjá góðum fuglaljósmundurum. Eins eru slóðir á www.fuglar.is. Sumt sem menn eru að taka er tær snilld.

mánudagur, janúar 12, 2009

The Pouges and Dubliners

Sólsetur yfir Herðubreið

Frídagur í dag og ekkert hlaupið.

Það var mögnuð frétt sem ritarinn lanseraði í dag. Bryndís Svavarsdóttir er búin að ná 100 maraþonum. Þessu hefur hún verið að hala inn í rólegheitum, hægt og sígandi. Góðir hlutir gerast hægt. Næsti maður á listanum er með 63 þon, líklega Eiður. Þetta er magnað afrek hjá Bryndísi. Fróðlegt verður að sjá hvort þetta afrek hennar verður flokkað í fjölmiðlum með snjóruðning og aflabrögðum (með fullri virðingu fyrir þeim fréttum), ef það verður þá yfir höfuð flokkað á annað borð. Börlkur benti á að fréttin um að opnað hefði verið fyrir skráningu fyrir Laugaveginn væri flokkuð undir fréttir af fólki á arkívi Moggans. Það væri gaman að fá á hreint hvort það sé ritstjórnarstefna blaðsins að ultrahlaup séu ekki íþróttir heldur eins og hvert annað firmasport. Eitthvað sem fólk er að dútla við að gamni sínu án nokkurar alvöru. Ég held að þeir ættu þá sjálfir að spreyta sig á að hlaupa Laugaveginn undir sex tímum eins og fjöldi fókks gerir. Ætli þeir væru ekki orðnir nokkuð rasssíðir undir það síðasta þegar komið væri að Kápunni.

Það ætti að vera skylduáhorf á viðtalið við Robert Wade sem var í Kastljósinu í kvöld. Þessi maður var hæddur og smáður af stjórnmálamönnum og fræðimönnum hérlendum á árinu 2007. Því miður kom allt fram sem hann taldi að myndi gerast. Því ekki að taka mark á honum nú í annað sinn þegar hann tjáir sig um málefni þjóðarinnar. Hermundur spámaður sagði einnig á Útvarpi Sögu í haust að ástandið yrði fyrst slæmt fyrir alvöru þegar líður að voru. Hvað gerist þá? Ríður Tsunami gjaldþrota yfir þjóðina. Bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Besta aðferðin til að sjá fyrir um framtíðina er að gera áætlanir. Þá kemur alla vega minna á óvart en ef maður reynir ekkert að segja til um framtíðina.

Fyrir 110 árum skrifaði Benedikt Gröndal: "Íslendingar þjást af "Storhedsvanvid", þess vegna er allt eins og það er" Það hefur greinilega ekkert breyst. "Storhedsvanvid" getur verið kostur en það getur einnig leitt mann beint ofan í díkið eins og dæmin sanna. Vegna þessa króniska eiginleika þjóðarinnar þá mun ekkert breytast, sama hvað gengur á.

Á Rotaryfundi í kvöld var myndasýning frá Galapagos eyjum. Það væri gaman að komast einhvern tíma þangað með myndavélina og nóg af minniskubbum.

Promised land. Chuck Berry

sunnudagur, janúar 11, 2009

Lítil stelpa með sleikjó

Fór út í morgun upp úr kl. 8.00 og fór Eiðistorgshringinn og inn á Langholtsveg áður en ég kom í Laugar. Þaðan fórum við vestur í gegnum miðbæinn og svo austur hefðbundna leið og heim. Alls komu 33 km í hús. Fann ekkert fyrir gærdeginum. Hálfdán birtist eftir langa fjarveru og það tóku sig upp gamlir sprettir. Fínt veður og fínn dagur.

Það fór mjög lítið fyrir því í fréttum að Ríkissjóður hafi þurft að bjarga Seðlabankanum frá gjaldþroti í desember. Þar fuku 350 milljarðar. Fólk er orðið svo ónæmt fyrir tölum að það er varla að nokkur maður depli auga við svona hluti. Ríkissjóður var áður búinn að setja álíka fjárhæð í bankana svo að þeir næðu andanum eftir krassið í október. Þetta er óskaplegt eins og flest í kringum þetta. Kostnaðurinn af þessu er ósköp einfaldlega tekinn beint af lífskjörum almennings. Annað tveggja með skattahækkunum eða niðurskurði á opinberi þjónustu. Nú er það auðviað svo að víða má bæði gera hlutina skilvirkar en gert hefur verið svo til þessa og síðan er allt í lagi þó skorin séu niður gælu- og lúxusverkefni margsskonar sem leitlu eða engu hafa skilað. Það er hins vegar allt annað mál þegar farið verður að kreppa að í grunnþjónustu samfélagsins, menntun, heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu. Þá fer að nísta í beinum. Það sem hefur verið að egrast undanfarna daga s.s. sameiningar í heilbrigðisþjónustu og tilfærslu verkefna er bara forsmekkurinn.

laugardagur, janúar 10, 2009

Kirkjan í Angmassalik með Polhelmsfjallið í baksýn

Helgarmaraþon í dag. Fór út 6.30 í morgun og fór Powerade hringinn og síðan í vesturátt. Glæra hálka var á efri hluta Powerade hringsins svo hann sóttist frekar hægt. Hitti Gauta á brúnni og víð fórum hefðbundinn hring vestur á Eiðistorg og svo austur. Gauti þurfti að vera kominn heim um 9.30 en ég hélt áfram vestur á Nauthól og svo til baka. Fengum fínt veður en þegar ég vaknaði í nótt þá var vitlaust veður, hvasst og slydda.

Það var fyndin uppákoman í Iðnó í fyrrakvöld. Aktivistar, aðgerðasinnar og þeir sem ástunda borgaralega óhlýðni voru þar með fund. Viturlegar ræður voru fluttar og lögreglan sat fyrir svörum. Margir voru grímuklæddir og meðal annars sat einn úr þeirra hópi við háborðið. Þá bættist við á fundinn aktivisti og aðgerðasinni. Hann var að vísu ekki með lambhúshettu heldur klæddist hann jólasveinabúning. Hann sýndi í verki borgaralega óhlýðni, bað um orðið utan dagskrár og hefur líklega sagt á undan: Hó, hó, hó, ég er jólasveinninn. Þá varð allt vitlaust. Fundarstjóri hinna einu sönnu borgaralega óhlýðnu aðgerðasinna og aktivista fór úr límingunum og sagði af sér fundarstjórn. Upplausn var á fundinum sem endaði með því að aðgerðasinnanum í gerfi jólasveinsins var varpað á dyr. Þetta var allt mjög undarlegt. Þeir sem telja sig hina sönnu aðgerðasinna hafa hingað til svo sem ekki bara verið í einhverjum sunnudagaskólaæfingum. Þeir hafa brotið rúðu í FMR, tekist á við lögregluna við ráðherrabústaðinn, reynt að brjótast inn í lögreglustöðina, hellt málningu á utanríkisráðuneytið, krassað á veggi Landsbankans og hleypt öllu í uppnám við Hótel Borg á gamlársdag. Þeir eru oftar en ekki klæddir lambhúshettum eða treflum til að þekkjast ekki. Þegar svo maður klæddur jólasveinabúning kemur á vettvang og vill taka þátt í aðgerðum og mótmæla þá verða þeir vitlausir og henda honum út. Mér finnst þetta ekki meika sens. Það sem verra er, í umræðum á blogginu gengur maður fram fyrir manns hönd úr hópi hinna sönnu aðgerðasinna og segir að jólasveinamaðurinn sé geðsjúkur í meira lagi. Minna má það ekki kosta. Vegna þess að hann dansar ekki eftir pípu þeirra sem hafa höndlað hinn eina sanna sannleika og eru sannfærðir um ágæti eigin aðgerða þá skal hann rægður í botn og útskúfaður. Þarna er eitthvað sem gengur ekki upp. Það er tekið til vitnis um að hann sé ruglaður að hann hafi komið klæddur jólasveinabúning í Hæstarétt útbíaður í tómatsósu. Er það eitthvað meira rugl að koma í jólasveinabúning í Hæstarétt en að bera einhverja konu út úr Landsbankanum í hjólastól og kalla hana Elínu? Það finnst mér ekki. Vitaskuld er mikil ástæða fyrir fólk að mótmæla. En á einhver meiri rétt en annar úr hópi mótmælenda að ákveða hvernig menn mótmæla? Varla.

föstudagur, janúar 09, 2009

Það var kraðrak á fyrsta checkpoint í langa leggnum á Grænlandi

Tvær íþróttafréttir í ríkissjónvarpinu vöktu athygli mína í gær. Hin fyrri var viðtal við formann einhvers karateklúbbs. Hún var kynnt með innganginum: "Bjóða kreppunni byrginn" eða eitthvað svoleiðis. Málið snerist um að klúbburinn var nýbúinn að ráða danskan þjálfara til klúbbsins. Hann tók til starfa á mánudaginn var eða þremur dögum áður en fréttin birtist. Á þessum stutta tíma hafði iðkendum fjölgað mikið sagði formaðurinn. Engu að síður vantaði fleiri krakka í klúbbinn. Þá kom ríkissjónvarpið til skjalanna með ókeypis auglýsingu fyrir hann. Langa auglýsingu. Þetta er náttúrulega alveg fáranlegt. Það er engin frétt að klúbbur sé nýbúinn að ráða þjálfara, hvort sem hann er erlendur eða íslenskur. Mega öll íþróttafélög búast við þvi að fá sömu fyrirgreiðslu hjá ríkissjónvarpinu á þann hátt að það séu tekin heljarinnar viðtöl við formanninn í hvert sinn þegar búið er að ráða þjálfara til starfa og áróður rekinn fyrir því að krakkar fari að æfa hjá klúbbnum. Það væri þá ekki mikið annað sagt í íþróttaþáttum. Annað hvort er þetta ótrúlegt sansleysi hjá viðkomandi fréttamanni eða það er hreint út sagt verið að misnota aðstöðu sína.

Seinni fréttin fjallaði um handknattleiksdeild Stjörnunnar. Það höfðu birst fréttir af því að hún hafði ekki getað staðið við samniga við leikmennina og gaf þeim fríar hendur með að fara frá félaginu. Það voru engir styrktaraðilar til staðar. Deildin skuldaði tugi milljóna og var allt að því tekjulaus. Á íslensku heitir þetta að vera gjaldþrota. Í gær kom hins vegar frétt af því að það væri búið að útvega styrktaraðila sem bjargaði töluverðu en svo myndi bærinn sjá um að borga það sem eftir væri. Það var við þessa aðkomu bæjarins sem ég stoppaði. Það hefur lengi verið plagsiður óábyrgra forystumanna innan íþróttahreyfingarinnar að eyða fullt af peningum sem eru ekki til og keyra allt í strand. Þá er farið til sveitarfélagins og peningar harkaðir út úr því til að borga skuldirnar og síðan byrjar dansinn aftur. ég man t.d. ekki betur en Stjarnan hafi yfir boðið erlendan leikmann frá vestmanneyjum fyrir nokkrum árum sem skoraði feitan skoraði feitan samning en gat svo mest lítið vegna meiðsla. Þega róábyrgir forystumenn eru að eyða peningum sem þeir eiga ekki til þá hefur það gjarna þau áhrif að kaupkröfur vaxa og önnur lið fara að spenna bogann eins og hægt og oft betur en það er til að halda sínum leikmönnum. Þannig eykst hraðinn á hringekjunni og vitleysan verður meiri og meiri. Svo hlaupa menn frá borði þegar allt er komið í tóma endaleysu og aðrir verða að bjarga málunum.

Að staðan sé orðin þannig að það sé æ algengara miðlungsleikmenn í handbolta og fótbolta geti ekki æft og spilað án þess að fá borgað fyrir það nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Það eina sem leikmenn ættu að fá væri aðgangseyririnn að leikjunum. Það gefur tilkynna hvað mikið almenningur er tilbúinn til að borga fyrir að horfa á þá.

Annað íþróttafélag hefur verið í fréttum á undanförnum mánuðum fyrir að skulda gríðarlegar fjárhæðir. Þar var einnig sagt að vonandi myndi sveitarfélagið létta af þeim hluta skuldanna. Ég þekki ekki hvernig þessir hlutir eru erlendis þó veit ég það að ef lið í enska fótboltanum lendir í fjárhagserfiðleikum eru dregin af þeim stig og ef þau lenda í miklum fjárhagserfiðleikum geta þau fallið um deild og jafnvel þurft að byrja með neikvæða stigatölu (t.d. Leeds). Mér finnst að áþekkt aðhald sé nauðsynlegt að færa í lög og reglur íþróttasambanda hérlendis. Ef íþróttafélag heldur þannig á málunum að þeir þurfa fjárhagsaðstoð af almannafé fyrir utan áður ákvarðaða tekjustofna þá sé það litið mjög alvarlegum augum og kosti stig eða einhverja refsingu af hálfu viðkomandi íþróttasambands. Hún getur verið misalvarleg eftir því hve málið er alvarlegt. Það gengur ekki að menn geti endalaust hagað sér óábyrgt í fjármálum íþróttafélaga, yfirboðið önnur félög, skuldsett allt í botn og komist upp með það án þess að það dragi dilk á eftir sér. Ef íþróttafélag (deild) er rekið með halla eitt árið þá á að gera kröfur til að menn sýni fram á það með fjárhagsáætlunum að þeir nái að vinna hallann upp á næstu þremur árum og standi við það.

Íþróttafréttamenn eru heldur ekki starfi sínu vaxnir hvað þessi mál varðar. Ég man aldrei eftir þvi að hafa séð, heyrt eða lesið að forystumenn íþróttafélaga séu teknir á beinið og krafðir skýringa á óábyrgum fjárskuldbindingum. Ég man hins vegar eftir því að t.d. þegar aðalstjórn Fjölnis tók um það ákvörðun fyrir nokkrum árum að leggja niður meistaraflokk í handbolta kvenna hjá félaginu vegna þess að það voru ekki til neinir peningar til að starfrækja flokkinn þá varð uppi mikill þytur. Formaðurinn var kallaður í sjónvarpið og krafinn skýringa. Það varð uppi fótur og fit þegar menn tóku ábyrga ákvörðun. en þegar verið er að fjalla um afleiðingar óábyrgra ákvarðana, þá heyrist ekki múkk. Það er svo auðvelt að kóa bara með.

Það dugar lítið að hafa símavin í Útsvarinu sem kann ekki að googla. Ég sló upp á gogglinu báðum spurningunum sem símavinirnir þurfti að svara í kvöld. Í öðru tilvikunum var rétt svar að finna í næst efstu tilvitnun en í hinu var svarið í efstu tilvitnun og blasti þar við. Villi Bjarna verður að standa klár á því að símavinurinn sé vel tölvutækur í næsta þætti ef Garðbæingar komast áfram á háu skori.

fimmtudagur, janúar 08, 2009

Stefán og Ásgeir búnir að koma sér vel fyrir

Þau eru fín viðtölin sem hafa birst við Bibbu og Evu á síðustu dögum. Þær unnu báðar flott afrek á síðasta ári. Bibba tók 100 km hlaup og Ironman en Eva var eiginlega ósigrandi í flestum hlaupum hérlendis í kvennaflokki, hvort heldur það var 5 km hlaup eða Laugavegurinn. Nú væri þetta svo sem ágætt ef þær væru sjóaðar keppnismanneskjur til margra ára, harðnaðar af áralöngum æfingum. en svo er ekki. Báðar fóru fyrst að hreyfa sig sem eitthvað hét eftir aldamótin. Smám saman vatt þetta upp á sig og ný og ný markmið fóru að líta dagsins ljós. Það er ekki látið staðar numið fyrr en þær eru komnar í hóp afrekskvenna, fyrirmynd margra annarra. Það eru svona frásagnir sem eiga mikið erindi til annars fólks. Ég segi fyrir mína parta að ég þurfti að skoða myndirnar af Evu oftar en einu sinni þegar ég sá þær fyrst. Maður þekkir mörg fleiri dæmi þess að markviss hreyfing og hinn góði félagsskapur sem myndast í kringum hina fjölmörgu hlaupahópa hefur gjörbreytt lífi fólks til hins betra.
Þetta hefur smám saman undið upp á sig og götuhlaup eru nú orðin almenningseign en ekki áhugamál nokkurra sérvitringa. Nær 800 manns í gamlárshlaupi ÍR var stórkostlegt. Fjölmiðlamönnum og ekki síst íþróttafréttamönnum ber skylda til að vera vel vakandi yfir því sem er að gerast í þessum málum því þessar fréttir eiga erindi til svo margra sem eru að hugsa og spekúlera en hafa kannski ekki alveg kjark til að taka fyrsta skrefið. Hvað ætli fréttirnar af Evu og Bibbu hafi ekki mikið meiri áhrif inn í samfélagið heldur en endalausar tuggur um erlenda ofurlaunamenn? Nú hef ég alla ævi haft gaman af því að fylgjast með íþróttum en maður er farinn að horfa á hlutina í svolítið öðru ljósi síðustu árin.

Það er mikið skrifað um ástandið á Gaza svæðinu og árásir Ísrelsmanna á Palestínumenn. Haldnir eru mótmælafundir og utanríkisráðherra fordæmir ástandið. Það er hvatt til þess að stjórnmálasambandi við Ísrael sé slitið og vörur þaðan séu ekki lengur keyptar í verslunum. Fjölmiðlar birta fréttir af hörmungunum og viðtöl af miklum móð. Kvöld eftir kvöld er sýnt myndefni í kvöldfréttum sjónvarps sem fólki er ráðlagt að horfa ekki á. Þannig mætti áfram telja og er í raun allt gott aðs egja um að það sé vakin athygli á þvi sem er að gerast á Gaza svæðinu. Ekki skal ég heldur gera lítið úr þeim hörmungum sem ríkja meðal Palestínumanna á Gaza svæðinu. Fleiri hundruð eru látnir og þúsundir særðar.
En það er víðar sem hörmungarnar eru til staðar og í nokkuð stærri skala. Í Darfur héraðinu í Súdan hefur geysað grimmileg borgarastyrjöld árum saman. Þar hafa hundruðir þúsunda verið drepnir á undanförnum árum. Konum og stúlkubörnum er þar fyrir utan nauðgað skipulega og hægt er að tala um þjóðernishreinsanir í stórum skala. Maður verður hins vegar ekki var við marga útifundi vegna þessa ástands. Fréttir eru sagðar frá ástandinu í Darfur héraðinu af og til í svona svipuðum dúr eins og þegar er verið að segja frá berjasprettu á Norðurlandi. Það sem er að gerast í Darfur virðist svo sem ekki skipta miklu máli á okkar slóðum. Hvers vegna skal ég ekki um segja.
Það er svo varla að maður þori að minnast á það sem gerðist í Ruanda á síðasta áratug síðustu aldar. Þar voru um 800.000 manns drepnir. Ár stífluðust vegna hranna af líkum sem hafði verið hent í þær. Maður skyldi halda að það hefði allt logað í aðgerðum aðgerðasinna og mótmælenda um hinn vestræna heim vegna þjóðarmorðsins sem þar átti sér stað. Fréttastofur hafa líklega sent út aukafréttatíma oft á dag vegna þess sem gerðist þar. Kannski svo hafi verið. Ég man það ekki fyrir víst.

Frá Pétursþoni

miðvikudagur, janúar 07, 2009

Meðal indíána í Ameríku hér áður fyrr var ein refsing sem var öllum verri. Henni var einungis beitt við þá sem frömdu allra verstu glæpina innan ættbálksins. Dómurinn var á þá lund að viðkomandi voru ekki til. Það talaði enginn við þá eftir að dómurinn var fallinn. Það horfðu allir í gegnum þá. Jafnvel hundarnir migu ekki utan í þá. Þessir einstaklingar vesluðust yfirleitt upp og dóu innan mjög skamms tíma. Svona tilvera var ómöguleg.
Nú veit ég ekki hvort bankastjórinn fyrrverandi sem hefur farið að stunda skokk á seinni árum hefur fundið fyrir þeirri tilfinningu að hann væri ekki til í augum fjöldans þar sem hann stóð einn bak við súlu við Ráðhúsið á gamlársdag að afloknu hlaupi að sögn ritarans og átti sér viðhlægendur fáa. Alla vega hefur honum þó þótt ástæða til að gera tilraun til að verða gildur limur í samfélaginu á nýjan leik. Fyrst með aflátsbréfi í Fréttablaðinu rétt nýlega og síðan með aflátsgreiðslu sem skýrt var frá í sjónvarpinu. Sigmar stóð sig vel sem spyrill í Kastljósinu sem endranær og gaf hvergi eftir. Sama hvað sökudógurinn iðraðist beisklega. Sem betur fer hefur þetta pr trix ekki heppnast. Bréfið var aumt yfirklór og hin svokallaða endurgreiðsla var lítið meir en hluti af gengishagnaði af fengnum sem hefur skilað sér í hús á liðnum mánuðum vegna gengishruns krónunnar. Ofan í kaupið hefur komið í ljós að ríkissjóður greiðir um 1/3 af aflátsgreiðslunni. Það setur varla verri hroll að þjóðinni á þessum vikum en þegar útrásarvíkingar segjast tilbúnir til að hjálpa hnípinni þjóð í vanda. Ég held að það sé rétt að hafa það á hreinu að útrásarvíkingarnir svokölluðu eru ekki til í augum fjöldans. Ég efast um að hundar mígi utan í þá.

Í þessu sambandi þá er rétt að spyrja hvernig í ósköpunum er hægt að kalla það frétt að Hreiðar Már og annar Bakkavararbróðirinn séu að fara til Suðurskautslandsins eitthvað að spássera og ferðin kosti 3.5 millj króna á haus. Hvaða fréttamat er þetta eiginlega? Er verið að nugga óhroðanum viljandi framan í þjóðina eða er fréttastjórnunin svona stjúpit? Eru þeir frægir landkönnuðir, náttúrufræðingar eða þekktir ljósmyndarar. Má vera en ég hef ekki heyrt af því. Eða eru þeir einfaldlega ríkisbubbar sem vita ekki aura sinna tal og eru að eyða prómilli af vöxtunum. Það er fínt að vita að Hi Lux jeppar sem breytt hefur verið af íslendingum skuli taka öðrum farartækjum fram á Suðurskautslandinu. En hvort þeir félagar séu að vappa um á Suðurskautslandinu eða á Kinamúrnum eða einhversstaðar annarsstaðar skiptir venjulegt fólk í þessu landi bara engu máli?

Á norska hlaupavefnum www.kondis.no/ultra er linkur á íþróttaþátt í sænska sjónvarpinu. Þar er viðtal við Mathias Bramstang og Andreas Falk. Markmið þeirra fyrir næsta sumar er að hlaupa frá syðsta odda Ítalíu til nyrta odda Svíþjóðar. Það er rúmlega 4300 km. Túrinn tekur svona tvo mánuði. Þeir hlaupa að jafnaði 70 km á dag. Með þeim félögum eru norðmennirnir Eiolf Eivindssen og Trond Sjovik ásamt fleirum. Ég kannast vel við Mathias. Hann var á Borgundarhólmi í hitteðdfyrra og síðan var hann í Grikklandi í haust. Svíarnir báðir eru öflugir hlauparar. Þeir hlupu báðir þvert yfir Frakkland í sumar ásamt Eiolf og Trond og fleirum. Þeir verða á launum hjá sænska hernum á meðan á hlaupinu stendur. Það er sá stuðningur sem heimalandið veitir þeim. Ætli Across USA verði ekki æst.

N.B. Viðtalið við Svíana birtist í íþróttaþætti sænska sjónvarpsins. Svíarnir eru komnir þetta lengra á þróunarbrautinni en íslenskir íþróttafréttamenn. Þeir hafa viðurkennt ultrahlaup sem íþrótt. Hérlendis er það sett á sama bás og heyskapur og vegagerð.

þriðjudagur, janúar 06, 2009

Einn úr hlauparasamfélaginu lést í gær í umferðarslysi. Hann var skokkandi í vegkanti fyrir austan Selfoss þegar aðvífandi bifreið keyrði hann niður. Árið 2006 hljóp þessi félagi okkar meðal annars bæði Laugaveginn og New York maraþon. Slys gera ekki boð á undan sér en þessi atburður minnir okkur á nauðsyn þess að fara alltaf varlega þegar bílar eru annars vegar. Ég hef það fyrir ófrávíkjanlega reglu að treysta aldrei neinum þegar ég er að hlaupa nálægt umferð og þarf t.d. að fara yfir götur. Sú regla hefur bjargað mér frá því að verða undir bíl. Ég votta aðstandendum hins látna mínar bestu samúðarkveðjur.

sunnudagur, janúar 04, 2009

Borðað á Grænlandi eftir 26 tíma göngu

Frábært hlaupaveður í morgun. Logn, þurrt og hiti um 6°C. Gerist ekki betra í janúar. Ég fór út upp úr kl. 7.00 og byrjaði á því að fara Poweradehringinn. Síðan hélt ég vestur á Eiðistorg og síðan inn í Laugar. Þar ætlaði ég að hitta Vini Gullu en var kominn full snemma svo ég fór upp á Langholtsveg og til baka. Þaðan lá leiðin inn í Elliðaárdal og svo vestur að Kringlumýrarbraut og svo heim. Maraþonið lá í fyrsta inn á árinu. Ég var um 3 klst 50 mín á hlaupum sem var fínt þar sem þetta var æfing en ekki keppni.

Það var skemmtilegt að hlusta á þáttinn með Andreu Jónsdóttur eftir hádegið. Hún var með langa samantekt um Rúnar Júlíusson þar sem bæði voru spiluð lög eftir hann og einnig rætt við marga samstarfsmenn hans gegnum tíðina. Það var gegnumgangandi viðhorf hvað öllum lá gott orð til Rúnars. Hann hefur verið að mörgu leyti einstakur maður. Á fundum sagði henn ekki margt en þegar hann talaði þá var hlustað. Stúdíóið hans í Keflavík hefur verið útungunarstöð fyrir unga tónlistarmenn. Að komast í gegnum alla þessa áratugi í músíkbransanum en vera alltaf jafn gegnheill út í gegn og sjálfum sér líkur er ekki sjálfsagður hlutur. Rúnar var í áratugi holdgerfingur töffaraskapsins í tónlistarheiminum og hafði efni á því. Ég hitti Rúnar einu sinni sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Það var í nóvember 1995 þegar við UTRF menn vorum að tygja okkur af stað til Rússlands. Þá hafði ég hringt í nokkrar plötuútgáfur til að biðja þær að gefa okkur diska til að hafa með í austurveg. Yfirleitt var mér gefið hálfgert drasl sem hefur ekki verið mikið spilað. Ég var orðinn seinn fyrir þegar ég hringdi í Rúnar og tíminn til stefnu var ekki mikill. Það var ekkert mál. Hann sagðist bara skjótast upp í flugstöð og hitta mig þar. Það stóðst allt því þegar við komum suður eftir og inn í flugstöðina þá sat kallinn þar á bekk með góðan poka af diskum. Það var ekkert verið að velja botnfallið heldur var í pokanum allt það besta sem Geimsteinn hafði upp á að bjóða það árið. Ég horfði einnig á endursýningu af þættinum með Jóni Ólafssyni þegar hann ræddi við Rúnar í gær og svo hef ég tvisvar hlustað á viðtalsþátt Hermanns Gunnarssonar við hann á Bylgjunni. Allir þessir þættir eru fínir og munu halda minningu hans á lofti á komandi timum. Safndiskarnir hans voru það eina sem ég óskaði mér í jólagjöf þessi jólin hvað og gekk upp.

laugardagur, janúar 03, 2009

Skagamenn eiga mikið af góðum fótboltamönnum.

Eitt af áramótaheitunum er að fara heilt maraþon á hverri helgi ef nokkur möguleiki er á því. Með því er farið í fótspor Neils frá fyrra ári en hann lék sér að þessu eins og að drekka vatn. Ég ætlaði út um 6.30 í morgun en þá rigndi heil ósköp svo ég hallaði mér aðeins aftur. Fór af stað 7.30 og hitti Jóa, Stebba og Sigurjón við brúna yfir Kringlumýrarbraut. Við fórum hefðbundinn hring vestur á Eiðistorg og svo til austurs og að brúnni aftur. Jói og Kristín buðu í morgunkaffi svo ég hélt til baka og fór í sturtu áður en sest var að morgunkaffinu. Samtals gerði dagurinn 28 km. Geri atlögu að áramótaheitinu á morgun.

Það er alltaf pirrandi að heyra af fólki sem er hundóánægt yfir því að einhverjir aðrir en það sjálft borgi ekki reikningana fyrir það. Nú eru einhverjir Skagamenn hundfúlir yfir því að þurfa að borga 60 þúsund kall fyrir níu mánaða strætókort ofan af Skaga í bæinn. Það er náttúrulega auðvitað svo að ef þú átt tvo valkosti eða fleiri þá velur þú þann sem kemur best út fyrir þig. Ef strætóinn er of dýr þá fara menn með bíl. Ef strætó kostar minna og passat vel á velja menn hann. Skoðum þetta aðeins nánar. Ef maður vinnur í bænum en býr uppi á Skaga þá fer maður cirka 180 sinnum í bæinn á 9 mánuðum (20 vinnudagar í mánuði að jafnaði). Það gera 180 ferðir á 9 mánaða tímabili. Það gerir 333 krónur á dag fyrir báðar leiðir.
Ofan af Skaga í bæinn eru ca 100 km báðar leiðir. Ef maður er á bíl sem eyðir 10 l á 100 km þarf maður að borga um 1.400 kr í bensín fyrir túrinn. Maður getur áætlað annan kostnað við rekstur bílsins að jafnaði svona annað eins (tryggingar, dekk, viðhald, smurningur). Það gerir 2.800 í daglegan rekstur. Ef bíllinn kostar 1.0 milljón og er afskrifaður á 10 árum þá er það um 500 kall á ferð (gróft reiknað). Ég veit ekki alveg hvað kostar í göngin en það er kannski 250 kall aðra leiðina með árskorti. Það er þá 500 kall á dag. Samtals kostar það því ca 3.800 krónur fyrir hverja ferð að sækja vinnu ofan af Skaga á meðal einkabíl. Það er því ekki minna en 10 sinnum ódýrara að sækja vinnu til Reykjavíkur ofan af Skaga með strætó heldur en að keyra sjálfur miðað við það gjald sem Strætó innheimtir. Þetta er vitaskuld grófur útreikningur en gefur þó til kynna hvaða stærðir eru hér á ferðinni. Engu að síður er verið að tuða og sviðra yfir því að aðrir skattgreiðendur borgi ekki enn meira af strætókostnaðinum.

Mér fannst kominn tími til að íslendingar áttuðu sig á því að það kostar meir að keyra langa leið heldur en það kostar að keyra stutta leið. Þessari staðreynd hafa útlendingar fyrir löngu áttað sig á en þetta virðist vera nokkuð ný sannindi hérlendis. Meir að segja virðist það vefjast svolítið fyrir einhverjum ennþá. Að lokum má minna á að íbúðarhúsnæði er nokkuð ódýrara uppi á Skaga heldur en í bænum svo þar er ótalinn ávinningur sem eykur hag viðkomandi enn meir.

Mótmæli eru mjög eðlileg og nauðsynleg í því ástandi sem ríkir í samfélaginu i dag. Þau geta þróast í allar áttir og báðir aðilar þurfa að vera viðbúnir hinu versta. Það er bara þannig. Mér finnst hins vegar vera fyrir neðan allar hellur að setja átta ára gamalt barn upp á ræðupall og láta það fara þar með einhverja þulu. Svona gerir fullorðið fólk sem kallar sig ábyrgt bara ekki.

Gróttan á góðviðriskvöldi

föstudagur, janúar 02, 2009

Ólafur Stefánsson handboltamaður var kosinn íþróttamaður ársins í kvöld. Hann er vel að þeim titli kominn enda bæði frábær íþróttamaður og mikill leiðtogi. Valið á þeim íþróttamönnum sem íþróttafréttamenn gáfu atkvæði sitt fannst mér hins vegar endurspegla hið þrönga sjónarhorn sem íþróttafréttamenn fjölmiðlanna hafa. Það var bara eins og ósköp lítið hefði gerst í íþróttum á árinu nema það sem gerðist í fótbolta og handbolta. Sem dæmi má nefna að Helga Margrét Þorsteinsdóttir, ein fremsta sjöþrautarkona heims í sínum aldursflokki, fékk ekki eitt einasta atkvæði. Hún varð Norðurlandameistari unglinga í fyrra sem og Sveinn Elías sem varði Norðurlandameistaratitil sinn frá fyrra ári. Helga Margrét varð síðan í sjöunda sæti á HM í sjöþraut undir 19 ára þrátt fyrir að vera tveimur árum yngri en flestir keppninautar sínir. Þetta dugir greinilega ekki til að ná athygli íþróttafréttamanna. Hvað með heimsmeistara í hestaíþróttum. Eru þeir ekki til lengur eða eru þeir bara ekki með? Fleiri dæmi má tína til í áþekkum dúr.

Ég hef nefnt það áður að ábyrgð fjölmiðlamanna er mikil hvað varðar íþróttir og íþróttaumfjöllun. Manni virðist það oft vera þannig að það séu varla til íþróttamenn nema þeir sem spila í atvinnumennslu erlendis. Það er náttúrulega ekkert nema dæmi um útnesjamennsku. Eftir hverja helgi er birtur langur listi í Mogganum um hvort hinn eða þessi atvinnumaðurinn hafi spilað eða ekki spilað í leikjum helgarinnar. Það þykir íþróttafrétt ef einhver situr á tréverkinu og kemur ekkert við sögu hjá liðinu. Það er eins og það eitt skipti máli að komast í atvinnumennsku. Vitaskuld er það lofsverður árangur en það hangir fleira á spýtunni. Á sama tíma hafa þessir sömu menn takmarkaðan áhuga á að sinna innlendum viðburðum ef þeir eru fyrir utan áhugasvið viðkomandi.

Á tímum aðskilnaðarstefnunnar voru Suður Afríkumenn ekki með í íþróttasamfélagi þjóðanna frekar en á öðrum sviðum. Þeir fengu ekki að keppa í alþjóðlegum keppnum og erlendir íþróttamenn fengu ekki að keppa í landinu. Í stað þess að hanga á girðingunni og mæna á hvað væri að gerast í öðrum löndum þá fóru þarlendir fjölmiðlar að sinna innlendum íþróttaviðburðum af alefli. Það hafði í för með sér að áhugi og þátttaka almennings í íþróttum jókst gríðarlega. Þegar samskiptabanninu var aflétt þá uppgötvaði umheimurinn t.d. að í Suður Afríku var að finna lang lang fjölmennasta ultrahlaup í heimi. Það er Comerades hlaupið sem flestir ultraiðkendur í heiminum hafa heyrt talað um og marga dreymir um að taka þátt í. Það eru einhversstaðar á bilinu 10 - 15 þúsund manns sem taka þátt í hlaupinu. Í dag er það eitt af fjórum klassísku ultrahlaupum í heimi, þökk sé suðurafrísku pressunni.

Við getum borðið þetta saman við umfjöllunina um Laugaveginn sem er það ég best veit næst fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndunum. Ég fann eitt fjölmennara hlaup í Svíþjóð. Það er Lidingö loppet sem er 50 km langt og hlaupið á flatri braut. Í fyrra luku 277 hlauparar því en um 250 manns luku Laugaveginum. Hérlendis sjá fjölmiðlar enga ástæðu til að sinna Laugaveginum af neinu viti utan að birta fréttatilkynningu um hlaupið og síðan einföld úrslit. Hugsa sér hvað mætti gera ef pressan sinnti þessu af einhverju viti og áhuga. Ég tek undir áhyggjur formanns félags íþróttafréttamanna um niðurskurð á íþróttadeildum fjölmiðla. Þessi sami formaður verður þó að líta í eigin barm og spyrja sig og félagsmenn sína hvort ábyrgðin á þróun mála liggi að einhverju leyti hjá þeim sjálfum. Eru þeir kannski of sjálfhverfir og einsleitir?

Ég verð að segja að ég verð æ meir hugsi yfir því hvað ég er að styrkja þegar ég kaupi flugelda af björgunarsveitunum. Að mínu mati er starfsemi björgunarsveitanna komin á varhugaverða braut. Vitaskuld gegna björgunarsveitirnar oft gríðarlega mikilvægu hlutverki og vinna ómetanlegt starf, iðulega við hinar erfiðustu aðstæður. Ég er hins vegar ekki sáttur við að starf þeirra sé í vaxandi mæli farið að snúast um að aðstoða vitleysinga og letingja án endurgjalds. Slys geta alltaf átt sér stað og óhöpp sem enginn getur séð fyrir. Þá er nauðsynlegt að eiga björgunarsveitir að. En þegar þær eru á fullu við að bjarga vitleysingjum sem sinna ekki viðvörunarskiltum og æða upp á heiðar sem eru auglýstar lokaðar vegna ófærðar og veðurs og svo er bara hringt í björgunarsveitina þegar allt er orðið fast, þá er málið farið að snúast um allt aðra hluti. Það kostar nefnilega gríðarlega fjármuni að kalla út eina björgunarsveit.
Sl. vetur heyrði maður í fréttum að björgunarsveitir hefðu trekk í trekk farið á sömu byggingarsvæðin til að binda niður drasl sem var að fjúka í hvassviðri vegna þess að verktakinn sinnti í engu að ganga frá því byggingarefni sem gat fokið. Hví skyldi hann svo sem leggja í kostnað og fyrirhöfn við að gera það þegar björgunarsveitin gerði þetta ókeypis ef ástæða var til.
Það er hringt úr einhverju húsi á höfuðborgarsvæðinu í björgunarsveitina þegar rok er í bænum. Hún mætir. Þegar knúð er dyra kemur húsbóndinn fram á náttsloppnum og segir að grillið sé að fjúka á pallinum og það þurfi að festa það. Björgunarsveitin gengur í málið og húsbóndinn getur hallað sér aftur án þess að þurfa að fara út í illviðrið og festa grillið.
Angurgapar fara einbíla inn á hálendið án þess að hafa neinn fjarskiptabúnað með sér nema símsvara!! Þegar þeir koma ekki fram er björgunarsveitin send af stað, nema hvað, og finnur þá pikkfasta í skafli. Símsvarinn er fullur af skilaboðum.
Hvað á að gera við rjúpnaskyttur sem villast án þess að hafa svo mikið sem áttavita í vasanum? Hann kostaði innan við 1000 kall síðast þegar ég vissi.
Í sjónvarpinu skömmu fyrir jól var skýrt frá því fréttum að hópur manna hefði farið upp að Hvanneyri og keypt flugelda af björgunarsveitinni þar sem þakklætisvott fyrir að bjarga þeim ofan af Langjökli í fyrra í stjörnubrjáluðu veðri. Þar lögðu björgunarsveitarmenn sig í lífshættu við að bjarga bjánahóp ofan af jöklinum sem lagði í ferð yfir Langjökul og ætluðu inn á Hveravelli í dauðabrjáluðu veðurútliti. Þeim datt ekki einu sinni í hug að líta á veðurfréttirnar og voru þó að fara yfir jökul inni á hálendinu um hávetur.

Hvað er hægt að gera við svona fólk? Jú það er hægt að gera einn hlut. Láta það borga fyrir greiðann. Flóknara er það ekki. Ef að það væri gert myndi svona útköllum fækka á stundinni. Ólíklegasta fólk skilur nefnilega hvað það þýðir að borga peninga.

Mér er sagt að ef gestir á sólarströndu vilja leigja sér seglbretti séu þeir spurðir að því hvort þeir séu tryggðir. Ef ekki þá er þeim sagt að það sé fylgst með þeim á sjónum. Ef þeir fari svo langt til hafs að þeir sjáist ekki frá ströndinni þá sé þyrla send af stað til að finna þá og þeir þurfi að borga reikninginn. Allir ótryggðir strandgestir hætta yfirleitt við svona ferðir.
Í Ölpunum eru skíðamenn látnir borga reikninginn ef þarf að aðstoða þá utan skipulagðra skíðasvæða. Ef þeir fara útfyrir skilgreind svæði þá er það á ábyrgð viðkomandi. Því fara skíðamenn í Ölpunum yfirleitt ekki útfyrir afmörkuð og merkt svæði.

Hérlendis má ekki taka þessa umræðu upp einu sinni. Björgunarsveitirnar berja hana alltaf niður. Ég held aftur á móti að þessi umræða sé óhjákvæmileg í versnandi árferði. Það er ekki gefið að fólk kaupi nægilegt magn flugelda með mörg þúsund prósent álagningu til að björgunarsveitir geti sinnt endalausum útköllum án endurgjalds vegna vitleysinga og letingja ofan á útköll vegna alvöru ástands.

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Það eru allir sporléttir í upphafi Laugavegshlaupsins

Lofthræðsla er dálítið sérstakt fyrirbæri. Sumur eru lofthræddir en aðrir ekki. Sumir geta ekki horft fram af eldhússtól en öðeum er sama hvernig allt veltist. Ég hef orðið lofthræddari með árunum. Sagt er að það sé til marks um aukna skynsemi. Það kom glöggt í ljós þegar ég kom á Predikunarstólinn í Lysefjörden i Noregi í haust. Þar er 600 metra standberg beint niður. Nokkrir viðstaddra sátu á brúninni og dingluðu löppunum áhyggjulausir. Aðrir héldu sig fjær. Þegar ég nálgaðist brúnina þá fór eitthvað kerfi á gang sem sagði hingað og ekki lengra. Ég komst ekki nær brúninni en 5-6 metra, hvernig sem ég reyndi. Svipuð tilfinning grípur mig þegar ég heyri áramótaávarp forsetans. Ég kemst ekki nær sjónvarpinu en brúninni á Predikunarstólnum.

Síðasta ár var gott hlaupalega séð, líklega það besta frá upphafi. Að hlaupa af og til með Neil Kapoor, hinu ágæta breska ofurmenni, sem dvaldi hér fram á vor, breytti ýmsum viðmiðunum. Það gekk allt upp sem stefnt var að. Það var hlaupið mikið, oft og lengi. Vikum saman hljóp ég þrisvar á dag. Vikurnar fóru upp í 200 km sem mér hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum síðan.
Marsmaraþonið gekk vel, Við Svanur urðum í öðru og þriðja sæti, reyndar á ekkert sérstökum tíma, en sama var, það gekk fínt.
24 tíma hlaupið á Borgundarhólmi var í lok maí. Þar gekk allt upp og náði ég að hlaupa rúma 217 km innan tilskyldra tímamarka. Það skilaði mér í 5. sæti á norðurlöndum af rúmlega 100 hlaupurum norrænum sem þreyttu hlaup af þessari tegund á síðasta ári. Ég varð í 84. sæti á heimslistanum af 2130 körlum sem hlupu þetta hlaup á árinu og í 3. sæti í heiminum af körlum 55 ára og eldri.
Laugavegurinn var næstur. Ég fór hann á 6.30 sem þykir rólegur tími nú til dags. Ég hélt svo áfram og fór yfir Fimmvörðuháls niður í Skóga. Ég hafði ekki farið yfir Fimmvörðuháls áður. Sú ferð var fyrst og fremst minnisstæð fyrir að það var brjálað veður á Morinsheiði, yfir Heljarkamb og upp Löngufönn. Ég þurfti að skríða á fjórum fótum yfir kambinn til að vera undir stórviðrinu sem skóf upp að sunnanverðu. Á leiðinni upp Löngufönn þurfti maður að hafa fulla aðgæslu svo maður fyki ekki um koll eða eitthvað út í buskann. Þetta gekk hins vegar allt vel og var ágætur endir á góðum degi.
Í Reykjavíkurmaraþoninu kom sú hugmynd upp skömmu fyrir hlaupið að taka tvöfalt maraþon. Ég lagði af stað upp úr 4.30 um nóttina og kom í markið rétt þegar búið var að ræsa kl. 8.30. Ég lauk hinu formlega hlaupi á rúmum 4 klst og var um miðjan hóp. Maginn var að pirra mig í hlaupinu og kenndi ég um krydduðum pinnamat sem ég borðaði kvöldið áður. Líklega ekki undirstöðufæða fyrir maraþon.
Um mánaðamótin ágúst / september var annarri hugmynd hrint í framkvæmd. Við fórum fimm saman vestur á firði og hlupum Haustlitahlaupið með ýmsum útfærslum. Leiðin milli Flókalundar og Bjarkalundar er flott leið. Hún er 125 km löng og var henni skipt á tvo daga sem passar mjög vel. Við fengum fínt veður og varð úr þessu mjög eftirminnileg og góð helgi.
Í september voru hitaæfingar fyrir Spartathlon efstar á baugi. Ég þrælaðist þá kappklæddur á bretti inni í Laugum til að undirbúa mig undir hitann í Grikklandi.
Spartathlonið var haldið síðustu helgina í september. Það er lengsta hlaup í heiminum og jafnframt með erfiðustu tímamörkin. Eins og allt var andhælis í fyrra þá gekk allt upp í ár. Ég hafði undirtökin í hlaupinu allan tímann og lauk því í 74 sæti af 340 hlaupurum sem lögðu af stað. Alls komust 154 í mark. Ég varð 10. af 38 norðurlandabúum sem hófu hlaupið og í 3. sæti í elsta aldursflokki sem er 55 ára og eldri.
Í haust og vetur hef ég hlaupið miklu meir en nokkru sinni en áður. Frá því í byrjun nóvember hef ég sleppt einum degi úr útihlaupum. Maður getur ekki annað en verið bjartsýnn með nýtt ár. Sömuleiðis á maður að vera þakklátur fyrir að andi og efni skuli standa undir því sem á það er lagt. Það er ekki sjálfsagður hlutur.

Ég hef tvö meginmarkmið í huga í hlaupum erlendis á komandi ári.
Í fyrsta lagi hef ég hug á að taka þátt í 48 tíma hlaupi á Borgundarhólmi í lok maí. Það var haldið í fyrsta sinn í fyrra og tókst mjög vel.
Í öðru lagi langar mig að taka þátt í London - Brighton hlaupinu í byrjun október. Það er eitt af fjórum klassískum ultramaraþonhlaupum í heiminum. London-Brighton er elsta ultramaraþon hlaup í heimi. Það er um 90 km langt og ætti að takast. Hið síðasta í röðinni er Comerades í Suður Afríku. Það er fjölmennasta ultrahlaup í heimi (12000 - 15000 manns).
Þessu til viðbótar eru vitaskuld maraþonin hér heima á dagskránni eftir því sem aðstæður leyfa, Laugavegurinn og önnur góð hlaup sem passa inn í plönin.

Síðan er ég að velta fyrir mér nýju verkefni hér heima sem kemur í ljós hvort gengur upp.

Jósep (th) var sporléttur að vanda

Stefán sýndi sinn innri mann