föstudagur, janúar 09, 2009

Tvær íþróttafréttir í ríkissjónvarpinu vöktu athygli mína í gær. Hin fyrri var viðtal við formann einhvers karateklúbbs. Hún var kynnt með innganginum: "Bjóða kreppunni byrginn" eða eitthvað svoleiðis. Málið snerist um að klúbburinn var nýbúinn að ráða danskan þjálfara til klúbbsins. Hann tók til starfa á mánudaginn var eða þremur dögum áður en fréttin birtist. Á þessum stutta tíma hafði iðkendum fjölgað mikið sagði formaðurinn. Engu að síður vantaði fleiri krakka í klúbbinn. Þá kom ríkissjónvarpið til skjalanna með ókeypis auglýsingu fyrir hann. Langa auglýsingu. Þetta er náttúrulega alveg fáranlegt. Það er engin frétt að klúbbur sé nýbúinn að ráða þjálfara, hvort sem hann er erlendur eða íslenskur. Mega öll íþróttafélög búast við þvi að fá sömu fyrirgreiðslu hjá ríkissjónvarpinu á þann hátt að það séu tekin heljarinnar viðtöl við formanninn í hvert sinn þegar búið er að ráða þjálfara til starfa og áróður rekinn fyrir því að krakkar fari að æfa hjá klúbbnum. Það væri þá ekki mikið annað sagt í íþróttaþáttum. Annað hvort er þetta ótrúlegt sansleysi hjá viðkomandi fréttamanni eða það er hreint út sagt verið að misnota aðstöðu sína.

Seinni fréttin fjallaði um handknattleiksdeild Stjörnunnar. Það höfðu birst fréttir af því að hún hafði ekki getað staðið við samniga við leikmennina og gaf þeim fríar hendur með að fara frá félaginu. Það voru engir styrktaraðilar til staðar. Deildin skuldaði tugi milljóna og var allt að því tekjulaus. Á íslensku heitir þetta að vera gjaldþrota. Í gær kom hins vegar frétt af því að það væri búið að útvega styrktaraðila sem bjargaði töluverðu en svo myndi bærinn sjá um að borga það sem eftir væri. Það var við þessa aðkomu bæjarins sem ég stoppaði. Það hefur lengi verið plagsiður óábyrgra forystumanna innan íþróttahreyfingarinnar að eyða fullt af peningum sem eru ekki til og keyra allt í strand. Þá er farið til sveitarfélagins og peningar harkaðir út úr því til að borga skuldirnar og síðan byrjar dansinn aftur. ég man t.d. ekki betur en Stjarnan hafi yfir boðið erlendan leikmann frá vestmanneyjum fyrir nokkrum árum sem skoraði feitan skoraði feitan samning en gat svo mest lítið vegna meiðsla. Þega róábyrgir forystumenn eru að eyða peningum sem þeir eiga ekki til þá hefur það gjarna þau áhrif að kaupkröfur vaxa og önnur lið fara að spenna bogann eins og hægt og oft betur en það er til að halda sínum leikmönnum. Þannig eykst hraðinn á hringekjunni og vitleysan verður meiri og meiri. Svo hlaupa menn frá borði þegar allt er komið í tóma endaleysu og aðrir verða að bjarga málunum.

Að staðan sé orðin þannig að það sé æ algengara miðlungsleikmenn í handbolta og fótbolta geti ekki æft og spilað án þess að fá borgað fyrir það nær náttúrulega ekki nokkurri átt. Það eina sem leikmenn ættu að fá væri aðgangseyririnn að leikjunum. Það gefur tilkynna hvað mikið almenningur er tilbúinn til að borga fyrir að horfa á þá.

Annað íþróttafélag hefur verið í fréttum á undanförnum mánuðum fyrir að skulda gríðarlegar fjárhæðir. Þar var einnig sagt að vonandi myndi sveitarfélagið létta af þeim hluta skuldanna. Ég þekki ekki hvernig þessir hlutir eru erlendis þó veit ég það að ef lið í enska fótboltanum lendir í fjárhagserfiðleikum eru dregin af þeim stig og ef þau lenda í miklum fjárhagserfiðleikum geta þau fallið um deild og jafnvel þurft að byrja með neikvæða stigatölu (t.d. Leeds). Mér finnst að áþekkt aðhald sé nauðsynlegt að færa í lög og reglur íþróttasambanda hérlendis. Ef íþróttafélag heldur þannig á málunum að þeir þurfa fjárhagsaðstoð af almannafé fyrir utan áður ákvarðaða tekjustofna þá sé það litið mjög alvarlegum augum og kosti stig eða einhverja refsingu af hálfu viðkomandi íþróttasambands. Hún getur verið misalvarleg eftir því hve málið er alvarlegt. Það gengur ekki að menn geti endalaust hagað sér óábyrgt í fjármálum íþróttafélaga, yfirboðið önnur félög, skuldsett allt í botn og komist upp með það án þess að það dragi dilk á eftir sér. Ef íþróttafélag (deild) er rekið með halla eitt árið þá á að gera kröfur til að menn sýni fram á það með fjárhagsáætlunum að þeir nái að vinna hallann upp á næstu þremur árum og standi við það.

Íþróttafréttamenn eru heldur ekki starfi sínu vaxnir hvað þessi mál varðar. Ég man aldrei eftir þvi að hafa séð, heyrt eða lesið að forystumenn íþróttafélaga séu teknir á beinið og krafðir skýringa á óábyrgum fjárskuldbindingum. Ég man hins vegar eftir því að t.d. þegar aðalstjórn Fjölnis tók um það ákvörðun fyrir nokkrum árum að leggja niður meistaraflokk í handbolta kvenna hjá félaginu vegna þess að það voru ekki til neinir peningar til að starfrækja flokkinn þá varð uppi mikill þytur. Formaðurinn var kallaður í sjónvarpið og krafinn skýringa. Það varð uppi fótur og fit þegar menn tóku ábyrga ákvörðun. en þegar verið er að fjalla um afleiðingar óábyrgra ákvarðana, þá heyrist ekki múkk. Það er svo auðvelt að kóa bara með.

Það dugar lítið að hafa símavin í Útsvarinu sem kann ekki að googla. Ég sló upp á gogglinu báðum spurningunum sem símavinirnir þurfti að svara í kvöld. Í öðru tilvikunum var rétt svar að finna í næst efstu tilvitnun en í hinu var svarið í efstu tilvitnun og blasti þar við. Villi Bjarna verður að standa klár á því að símavinurinn sé vel tölvutækur í næsta þætti ef Garðbæingar komast áfram á háu skori.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sjáðu undir hvaða flokk þessi frétt var sett.

http://www.mbl.is/mm/folk/frettir/2009/01/10/hlauparar_fljotir_ad_skra_sig/

Börkur