mánudagur, janúar 26, 2009
Sóleyjarbreiða í Hrafnfirði
Tíðindin gerast hratt þessa dagana. Viðskiptaráðherra sagði af sér í gær. Of seint að flestra mati til að það breyti einhverju um stöðu hans. Í dag sprakk stjórnin. Þar var greinilega á ferðinni uppsett flétta þar sem sett voru fram skilyrði sem ausætt var að erfitt var að ganga að. Mér hefði fundist hreinlegra að láta brjóta á ákveðnum handföstum ágreiningsefnum. Þá er alla vega skýrt hvar skilur á milli. Að fara síðan í eftiráskýringar svo sem ég vildi þetta en þú ekki fyrir tveimur eða þremur mánuðum selur ekki sérstaklega vel. Það sem maður óttast nú er lausatök á landsstjórninni næstu mánuði ef kosið verður þann níunda maí. Það eru gömul sannindi og ný að óvinsælar ákvarðanir eru ekki teknar í aðdraganda kosninga. Þá er yfirleitt verið að dreifa yfirboðum á alla kanta. Verði farið að eyða peningum sem ekki eru til þýðir það einungis tvennt. Verðbólgu eða aukið atvinnuleysi. Það sem allra brýnast er nú að koma raunverulegum snúningi á atvinnulífið. Til að svo megi vera þarf fjármagn. Það þarf að vera hægt að lækka vextina. Til að fjármagn fáist þarf stöðugleika í stjórnsýsluna. Það þarf að gera það sem hægt er til að forða fjöldagjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja. Hvaða aðilar leggja fjármagn í fjárfestingar í landi sem hefur hálfónýtan örgjaldmiðil með óstöðugt stjórnarfar. Ekki myndi ég gera það. Síðan en ekki síst þarf að kalla þá til ábyrgðar sem bera ábyrgð á þessu hruni. Undan því verður ekki vikist.
Frásagnir af því sem hefur verið að koma upp á yfirborðið að undanförnu eru með ólíkindum. Lánveitingarnar úr Kaupþingi er ekkert annað en rippoff. Það eru að öllum líkindum einhverjir leppar fengnir til að taka lán í orði kveðnu þegar örlög bankans voru ekki umflúin. Veð eru engin. Ætli fengnum sé svo ekki deilt milli hlutaðeigandi. Það hefur einhvern tíma verið lagt í að rannsaka smærri mál. Ég tek undir það sem Vilhjálmur Bjarnason sagði í gær að svona gjörninga má alveg flokka sem alvöru sviksemi við samfélagið.
Það er slæmt að þær hefðir hafa ekki myndast hér eins og til dæmis í Svíþjóð að í ráðherradóm eru allt eins kallaðir einstaklingar sem sitja ekki á þingi. Þar í landi er hefð fyrir því að færir fagmenn utan þings eru kallaðir til starfa í ráðherradóm þegar ástæða þykir til. Hver er kominn til með að segja að það fólk eitt sem kosið er á þing sé hæft til að stjórna landinu. Hver getur dæmt um það? Fólk vex hvorki að visku né þroska við það eitt að vera kosinn á þing. Við aðstæður eins og ríkja hérlendis í dag þarf að kalla til bestu fáanlegu einstaklinga á hvern póst. Þjóðin hefur einfaldlega ekki efni á neinni meðalmennsku. Maður man eftir afar lélegum stjórnum sem skildu eftir sig efnahagslega rúst. Stjórnin sem sat árin 1971 - 1974 lagði grunninn að hinni efnahagslegu ringulreið sem ríkti hérlendis næstu 20 árin. Hún prentaði peninga sem voru ekki til og eyddi þeim. Það þýðir einfaldlega að verðbólgan rauk upp. Verðbólgan var á bilinu 25%-100% næstu 10-15 árin. Næst versta stjórnin sat á árinum 1980-1983. Þá fór verðbólgan upp í 100% á ákveðnum tímabilum. Stjórnleysið í efnahagsmálum var algert á þessum árum. Víxlhækkanir launa og verðlags voru óstöðvandi hringekja. Þeir sem knúðu fram launahækkanir meðal annars með verkföllum á þessum árum höfnuðu því að innistæðulausar launahækkanir væru verðbólguhvetjandi. þeir sögðu að launahækkanir væri afleiðing verðbólgu en ekki orsök. Seinni tíma hagrannsóknir hafa sýnt að þrátt fyrir allar þær launahækkanir þessara ára þá rýrnaði kaupmáttur launa jafnt og þétt. Afleiðing þessa stjórnleysis var að víxlhækkun launa og verðlags var rofin með handafli á árinu 1983. Þá var verðbólgan yfir 30%. Margir skuldugir einstaklingar, sérstaklega húsbyggjendur, lentu í gríðarlegum erfiðleikum og urðu gjaldþrota. Sumir flúðu land. Þetta var hins vegar óumflýjanleg aðgerð til að brjótast út úr því ástandi sem var að setja allt á hliðina.
Maður vonar að vítin séu til að varast þau í þessu sambandi. Verðbólga þýðir ekkert annað en bein kaupmáttarskerðing.
Á laugardaginn fór ég út kl. 6.30 og fór Poweradehringinn. Færið var bara þokkalegt og betra en ég hélt. Hitti Jóa við brúna og víð fórum vestur á Eiðistorg og inn í Elliðaárdal. Þaðan héldum við upp Poweradehringinn að sunnanverðu. Jói sneri við nálægt stíflunni en ég hélt inn að Breiðholtsbrúnni og svo til baka. Þá voru 43 km komnir. Á sunnudaginn fór ég út fyrir 8.00 og fór vestur á Eiðistorg og inn í Laugar. Sneri þar við og fór sömu leið til baka. Alls lágu 34 km.
Fyrsta árið mitt í Uppsölum upp úr 1980 kynntist ég sænskum strák sem hét Hans Petter Burman. Hann var alltaf kallaður HP (HoPe). Hann stúderaði við Uppsala universitet og hafði gert það nokkuð lengi. Hann var dálítið sérstakur en hafði tvær sérgáfur. Það léku öll hljóðfæri í höndunum á honum og hann var tungumálaséni. Hann hafði meðal annars tekið ástfóstri við mállýskuna sem töluð er í Jamtlandi (Jemskuna). Jemskan er dálítið sérstök og þykir illskiljanleg fyrir hinn venjulega Svensson. HP hafði gefið út plötu með lögum frá Jamtlandi og eitt þeirra hafði náð dálítilli spilun. Það er lagið Jamtlandstaus. Taus er jamska er sama sem tös sem þýðir stúlka. Það var gaman að kynnast HP. Hann var svona einn af kynlegum kvistum í háskólasamfélaginu í Uppsölum á þeim tíma. Ég þýddi nokkra texta fyrir hann af plötu herstöðvaandstæðinga. Hann var sérstaklega hrifinn af laginu um huldumeyna.
Ég hef stundum verið að grúska á Youtube og leita eftir lögum héðan og þaðan. Þar er allt til. Mér datt í hug á helginni að leita að HP Burman. Viti menn, er Jamtlandstaus ekki komin á Youtube. Ég hef ekki séð HP síðan ég flutti frá Uppsölum og veit ekki hvort hann sé lífs eða liðinn. Það er hins vegar gaman að rifja upp kynnin af honum.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Yes, 'taus' (or rather 'tôus', 'töus', täus etc.) is one Jamtish word for 'girl', but a more common one is 'ståårs'. It comes from Old Norse 'stulki', a parallel to Old Norse 'stulka' from which Icelandic 'stúlka' originates.
Forgot to mention that Jamtish is the only vernacular except Icelandic that uses Old Norse 'stulki/stulka'. To make things even more interesting, the today second most common Jamtish word for 'boy' is 'streik'. (Today 'pöyk', from Swedish 'pojke' and ultimately Finnish 'poika', is somewhat more used.) This word comes from an Old Norse 'streikr', a parallel form to Old Norse 'strákr' from which Icelandic 'strákur' has developed. Note that Old Norse had several words with 'ei' vs 'á' since Proto-Norse 'ai' (as in e.g. 'straikaR') sometimes became 'ei' and sometimes 'á'. Example: The spellings 'Þorleikr' vs 'Þorlákr' in Old Norse existed in parallel.
Skrifa ummæli