Grasrótin í Framsóknarflokknum gaf þeim hluta flokksins sem hefur ráðið ferðinni í flokknum á liðnum árum einkunn á landsþinginu um helgina. Hún var eins afgerandi og hægt var að hafa hana. Það sýnir síðan betur en nokkuð annað hver staða flokksins var orðin þegar maður sem skráir sig í flokkinn fyrir mánuði síðan er orðinn formaður hans. Formennsku í stjórnmálaflokki fylgir mikil ábyrgð hvað varðar málafylgju og stjórnun. Vonandi nær nýkjörinn formaður góðum tökum á hlutverki sínu. Ekki mun af veita. Forvitnilegt verður að sjá hvaða áhrif þessi niðurstaða hefur á aðra stjórnmálaflokka sem halda sína stórfundi á komandi mánuðum. Ekki er ólíklegt að þau verði sýnileg.
Það var mikil íþróttahátíð í frjálsíþróttahöllinni um helgina. Yngri kynslóðin keppti á laugardaginn og fram að hádegi á sunnudegi. Eftir hádegi á sunnudegi var svo haldið alþjóðlegt mót þar sem hinir fullorðnu öttu kappi við kollega sína frá Skandinavíu og Bretlandi. María tók þarna þátt í sínu fyrsta alvöru móti þar sem hún keppti við fullharðnað fólk. Hún stóð sig vel og bætti sig í öllum greinum sem hún tók þát í. Meira er ekki hægt að fara fram á.
Fullorðna fólkið lætur ekki að sér hæða. Krökkunum getur hlaupið kapp í kinn í harðri keppni svo þeim sjáist ekki fyrir. Þá er það hinna fullorðnu að rétta kúrsinn og sjá til að allt fari fram eins og á að vera. Skilaboðin verða að vera skýr. Í 800 m hlaupi hljóp lítilli stelpu kapp í kinn á lokasprettinum. Hún var fyrst allt til í í síðustu beygju. Þá kom önnur upp að hliðinni á henni og var að taka fram úr. Sú sem fyrst var tók til sinna ráða og hrinti hinni til hliðar. Þegar önnur sótti að henni þá rétti hún út hendina og hélt henni fyrir framan keppinautinn alla leið í mark svo hún kæmist ekki fram úr henni. Það sem ýmsum sem á horfðu þótti verst var að fullorðnir aðstandendur þeirrar stelpu sem beitti svona allavega aðferðum til að sigra keppinauta sínar fögnuðu henni eins og hetju í markinu þrátt fyrir að hún hefði sigrað með ítrekuðum og fáséðum bolabrögðum. Sigurinn virtist skipta öllu máli. Tilgangurinn helgar meðalið. Skilaboðin sem send eru með svona löguðu eru skýr. Það er í lagi að hafa rangt við ef það hjálpar þér við að sigra. Þetta er svona svipað og ef allir leikmenn í liði í fimmta flokki í fótbolta tækju upp á því að handleika boltann eftir þörfum og vera fagnað sem hetjum ef sigur ynnist í leiknum.
mánudagur, janúar 19, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli