sunnudagur, janúar 04, 2009

Frábært hlaupaveður í morgun. Logn, þurrt og hiti um 6°C. Gerist ekki betra í janúar. Ég fór út upp úr kl. 7.00 og byrjaði á því að fara Poweradehringinn. Síðan hélt ég vestur á Eiðistorg og síðan inn í Laugar. Þar ætlaði ég að hitta Vini Gullu en var kominn full snemma svo ég fór upp á Langholtsveg og til baka. Þaðan lá leiðin inn í Elliðaárdal og svo vestur að Kringlumýrarbraut og svo heim. Maraþonið lá í fyrsta inn á árinu. Ég var um 3 klst 50 mín á hlaupum sem var fínt þar sem þetta var æfing en ekki keppni.

Það var skemmtilegt að hlusta á þáttinn með Andreu Jónsdóttur eftir hádegið. Hún var með langa samantekt um Rúnar Júlíusson þar sem bæði voru spiluð lög eftir hann og einnig rætt við marga samstarfsmenn hans gegnum tíðina. Það var gegnumgangandi viðhorf hvað öllum lá gott orð til Rúnars. Hann hefur verið að mörgu leyti einstakur maður. Á fundum sagði henn ekki margt en þegar hann talaði þá var hlustað. Stúdíóið hans í Keflavík hefur verið útungunarstöð fyrir unga tónlistarmenn. Að komast í gegnum alla þessa áratugi í músíkbransanum en vera alltaf jafn gegnheill út í gegn og sjálfum sér líkur er ekki sjálfsagður hlutur. Rúnar var í áratugi holdgerfingur töffaraskapsins í tónlistarheiminum og hafði efni á því. Ég hitti Rúnar einu sinni sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Það var í nóvember 1995 þegar við UTRF menn vorum að tygja okkur af stað til Rússlands. Þá hafði ég hringt í nokkrar plötuútgáfur til að biðja þær að gefa okkur diska til að hafa með í austurveg. Yfirleitt var mér gefið hálfgert drasl sem hefur ekki verið mikið spilað. Ég var orðinn seinn fyrir þegar ég hringdi í Rúnar og tíminn til stefnu var ekki mikill. Það var ekkert mál. Hann sagðist bara skjótast upp í flugstöð og hitta mig þar. Það stóðst allt því þegar við komum suður eftir og inn í flugstöðina þá sat kallinn þar á bekk með góðan poka af diskum. Það var ekkert verið að velja botnfallið heldur var í pokanum allt það besta sem Geimsteinn hafði upp á að bjóða það árið. Ég horfði einnig á endursýningu af þættinum með Jóni Ólafssyni þegar hann ræddi við Rúnar í gær og svo hef ég tvisvar hlustað á viðtalsþátt Hermanns Gunnarssonar við hann á Bylgjunni. Allir þessir þættir eru fínir og munu halda minningu hans á lofti á komandi timum. Safndiskarnir hans voru það eina sem ég óskaði mér í jólagjöf þessi jólin hvað og gekk upp.

Engin ummæli: