Helgarmaraþon í dag. Fór út 6.30 í morgun og fór Powerade hringinn og síðan í vesturátt. Glæra hálka var á efri hluta Powerade hringsins svo hann sóttist frekar hægt. Hitti Gauta á brúnni og víð fórum hefðbundinn hring vestur á Eiðistorg og svo austur. Gauti þurfti að vera kominn heim um 9.30 en ég hélt áfram vestur á Nauthól og svo til baka. Fengum fínt veður en þegar ég vaknaði í nótt þá var vitlaust veður, hvasst og slydda.
Það var fyndin uppákoman í Iðnó í fyrrakvöld. Aktivistar, aðgerðasinnar og þeir sem ástunda borgaralega óhlýðni voru þar með fund. Viturlegar ræður voru fluttar og lögreglan sat fyrir svörum. Margir voru grímuklæddir og meðal annars sat einn úr þeirra hópi við háborðið. Þá bættist við á fundinn aktivisti og aðgerðasinni. Hann var að vísu ekki með lambhúshettu heldur klæddist hann jólasveinabúning. Hann sýndi í verki borgaralega óhlýðni, bað um orðið utan dagskrár og hefur líklega sagt á undan: Hó, hó, hó, ég er jólasveinninn. Þá varð allt vitlaust. Fundarstjóri hinna einu sönnu borgaralega óhlýðnu aðgerðasinna og aktivista fór úr límingunum og sagði af sér fundarstjórn. Upplausn var á fundinum sem endaði með því að aðgerðasinnanum í gerfi jólasveinsins var varpað á dyr. Þetta var allt mjög undarlegt. Þeir sem telja sig hina sönnu aðgerðasinna hafa hingað til svo sem ekki bara verið í einhverjum sunnudagaskólaæfingum. Þeir hafa brotið rúðu í FMR, tekist á við lögregluna við ráðherrabústaðinn, reynt að brjótast inn í lögreglustöðina, hellt málningu á utanríkisráðuneytið, krassað á veggi Landsbankans og hleypt öllu í uppnám við Hótel Borg á gamlársdag. Þeir eru oftar en ekki klæddir lambhúshettum eða treflum til að þekkjast ekki. Þegar svo maður klæddur jólasveinabúning kemur á vettvang og vill taka þátt í aðgerðum og mótmæla þá verða þeir vitlausir og henda honum út. Mér finnst þetta ekki meika sens. Það sem verra er, í umræðum á blogginu gengur maður fram fyrir manns hönd úr hópi hinna sönnu aðgerðasinna og segir að jólasveinamaðurinn sé geðsjúkur í meira lagi. Minna má það ekki kosta. Vegna þess að hann dansar ekki eftir pípu þeirra sem hafa höndlað hinn eina sanna sannleika og eru sannfærðir um ágæti eigin aðgerða þá skal hann rægður í botn og útskúfaður. Þarna er eitthvað sem gengur ekki upp. Það er tekið til vitnis um að hann sé ruglaður að hann hafi komið klæddur jólasveinabúning í Hæstarétt útbíaður í tómatsósu. Er það eitthvað meira rugl að koma í jólasveinabúning í Hæstarétt en að bera einhverja konu út úr Landsbankanum í hjólastól og kalla hana Elínu? Það finnst mér ekki. Vitaskuld er mikil ástæða fyrir fólk að mótmæla. En á einhver meiri rétt en annar úr hópi mótmælenda að ákveða hvernig menn mótmæla? Varla.
laugardagur, janúar 10, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli