miðvikudagur, janúar 21, 2009

Það hefur gengið eitt og annað á í gær og í dag. Það er að gerast sem viðbúið var að fólk færi að láta skoðanir sínar í ljós með meir áberandi hætti en fyrir jólin. Sú alvarlega staða sem er til staðar er að verða fólki ljósari með hverjum deginum sem líður. Öllum almenningi blöskrar að enginn skuli hafa axlað einhverja ábyrgð á því efnahagshruni sem átti sér staðar í október sl. Það gerir gremjuna enn bitrari að heyra fréttir af því dag hvern hvernig auðkýfingar landsins hafa mokað fjármunum úr bönkunum á ýmsa lund í aðdraganda hrunsins. engin heildstæð mynd liggur fyrir af því hvaða aðgerðir séu í gangi. Það er ekki hægt að segja annað en stjórnvöld hafi mátt standa sig betur í almannatengslum. Ofan á allt þetta hefur atvinnuleysi í landinu vaxið gríðarlega og er nú orðið allt að 10%.

Í svona ástandi er alls lags töfralausnum haldið á lofti. Aðild að Evrópusambandinu er ein þeirra. Nú má það vel vera að Íslendingum sé nauðugur einn kostur að sækja þangað inn til þess að samfélagið geti funkerað þokkalega í framtíðinni. Grundvallaratriði er að fá gjaldmiðil sem tendur undir nafni sem slíkur. Það er hins vegar engin töfralausn. Atvinnuleysi mun t.d. að öllum líkindum vaxa við aðild að myntkerfi Evrópusambandsins. Það eru hins vegar fáir kostir fyrir þá sem eru í kastþröng. Lettland, sem er aðildarland ESB er í gríðarlegum vandræðum vegna áþekkrar þróunar og hefur átt sér stað hérlendis nema að efnahagskerfið hefur ekki hrunið. Vegna aðildar landsins að myntsamstarfinu er ekki hægt að fella gengið. Þá þarf að lækka launin beint í krónutölu. Laun opinberra starfsmanna hafa verið lækkuð um 25%. Líklegt er að einkageirinn fylgi þar á eftir. Að öðrum kostu myndi atvinnuleysi vaxa gríðarlega og er nóg fyrir. Áþekk staða er í Írlandi. Svigrúm einstakra aðildarlanda er takmarkað til að bregðast við efnahagsvandanum en baktrygging ESB engin þar sem ekki er um formlegt ríkjasamband að ræða.

Þrátt fyrir að stjórnvöld sitji undir réttmætri gangrýni á ýmsan hátt þá eru valksotir þeirra sem gangrýna næsta fátæklegir. Maður heyrir fullyrðingar um að losa þurfi landið úr klóm Alþjóðagjaldeyrissjóðsins??!! Fyrirgreiðsla og aðkoma AGS var óhjákvæmileg til að halda efnahagskerfinu gangandi og skapa sér smá möguleika að öðlast lánstraust hjá alþjoðasamfélaginu á nýjan leik. AGS er ekki einhver vond stofnun sem kemur að samfélögum í erfiðleikum til að láta illt af sér leiða. AGS leggur til raunhæfar en erfiðar aðgerðir sem óhjákvæmilegt er að takast á við svo hægt verði að fá hjólin til að snúast á nýjan leik. Að halda því fram að ef lán AGS verði afþökkuð og endursend þá verði hægt að koma í veg fyrir niðurskurð á opinberri þjónustu og allt verði gott og gaman á nýjan leik er í besta falli barnaskapur en annars gróf blekking. Það má líkja þessu við greiðsluþrota einstakling. Ef hann gengur til samninga við viðskiptabanka sinn um að fá fyrirgreiðslu til að koma óreiðuskuldum í skikk og setja upp raunhæft greisluplan, þá kostar það aðhald, sparsemi og óþægindi. Vonin er aftur á móti til staðar að viðkomandi verði fjárhagsæega sjálfstæður á nýjan leik og hafi vonandi lært af biturri reynsu hvað það kostar að vera óábyrgur í fjármálum. Ef á hinn bóginn þessi einstaklingur velur bankanum hin verstu orð og sakar hann um ruddaskap viða ð knýja sig til að skera niður einkaneysluna þá enda hlutirnir ekki nema á einn veg, lóðbeint í enn dýpri vandræði.

Engin ummæli: