miðvikudagur, janúar 28, 2009

Kondis.no birti nýlega afrekaskrá síðasta árs yfir helstu tegundir hinna formlegu ultrahlaupa. Það eru einhverjir ítalir sem taka hana saman og birta. Þetta er skrá yfir árangur sem er yfir ákveðnum lágmörkum í 100 km hlaupum upp í 1000 km hlaup. Einnig er skrá yfir sigurvegara í þessum hlaupum. Neil og Elínar Reed er getið sem sigurvegara í Reykjavík 100 km. Neil er einnig um miðjan hóp í hópi 100 km hlaupara en karlar þurfa að hlaupa 100 km undir 9:00 klst til að ná inn á skrána. Konur þurfa að hlaupa undir 10:00 klst til að komast inn á þennan heimslista. Elín nær því án vafa ef hún býr sig vel undir svona hlaup. Það þarf að hlaupa að lágmarki 180 km til að ná inn á þessa afrekaskrá í 24 tíma hlaupi. Ég er þar frekar framarlega með mína 217 km frá Borgundarhólmi. Mér til undrunar þá er ég einnig á 12 tíma listanum en ég hljóp 120 km og 350 m á 12 klst á Borgunarhólmi í fyrra. Það þarf að hlaupa að lágmarki 120 km á 12 klst til að ná inn á þennan lista. Vegalengdin var víst formlega mæld og tilkynnt án þess að ég vissi af því. Nú var ég ekkert að hlaupa 12 tíma hlaup heldur var það bara fyrri helmingurinn af sólarhringshlaupinu. Ef maður hefði einungis hlaupið 12 tíma hlaup þarna í fyrra hefði maður náð a.m.k. tíu km til viðbótar. Ég er því ágætlega ánægður með að vera inni á topplista heimsins í tveimur tegundum ultrahlaupa í fyrra.

Hér er slóðin á skrána. Það er svolítið þungt að hlaða hana upp því hún er yfir 100 síður.

http://www.kondis.no/Ultra/index.php?aid=79852&k=ultra%2Fultra&mid=

Ég fékk tölvupóst frá Neil í dag. Hann bað að heilsa öllum sem hann þekkti. Hann sagðist sakna hreina loftsins, vetrarins og félaganna. Hann er orðinn góður eftir Mexíkó þrautina og ætlar að hlaupa 40 M hlaup með Claire sinni á næstunni. Það verður hennar fyrsta ultrahlaup svo þetta er allt í rétta átt.

Síðan í Svíþjóð forðum daga hefur Björn Afzelius verið einn af mínum uppáhalds tónlistarmönnum. Ég á langflestar skífurnar sem hann hefur gefið út. Björn er frá vesturströnd Svíþjóð og talaði þess vegna smá Skánskuskotna mállýsku. Mér finnst skánskan mjög flott mállýska og þær aðrar sem hafa smá skánskan hreim. Hann sló fyrst í gegn í sveitinni Hoola Bandoola ásamt vini sínum Mikael Wiehe á árunum uppúr 1970. Síðan fóru þeir hver í sína áttina tónlistarlega séð og voru báðir í tónlistarlegri úrvalsdeild í Svíþjóð á árunum sem eftir fóru. Ég sá Björn nokkrum sinnum á sviði og meðal annars hér í Norræna húsinu í kringum 1990. Björn var bæði vísnasöngvari og rokkari. Ég hef það fyrir satt að Bubbi nokkur Morthens hafi orðið fyrir miklum áhrifum af Birni á árunum um og fyrir 1980. Hann bjó yfir þeim fágæta hæfileika að geta samið léttar og grípandi laglínur. Textarnir voru yfirleitt í róttækari kantinum sem var mikið "inn" á þessum árum. Hann dó úr krabbameini árið 1999 rúmlega fimmtugur. Ég læt nokkur lög með Birni Afzelius fylgja hér með á næstunni, mér sjálfum og vonandi einhverjum öðrum til yndisauka.

Engin ummæli: