fimmtudagur, janúar 01, 2009

Lofthræðsla er dálítið sérstakt fyrirbæri. Sumur eru lofthræddir en aðrir ekki. Sumir geta ekki horft fram af eldhússtól en öðeum er sama hvernig allt veltist. Ég hef orðið lofthræddari með árunum. Sagt er að það sé til marks um aukna skynsemi. Það kom glöggt í ljós þegar ég kom á Predikunarstólinn í Lysefjörden i Noregi í haust. Þar er 600 metra standberg beint niður. Nokkrir viðstaddra sátu á brúninni og dingluðu löppunum áhyggjulausir. Aðrir héldu sig fjær. Þegar ég nálgaðist brúnina þá fór eitthvað kerfi á gang sem sagði hingað og ekki lengra. Ég komst ekki nær brúninni en 5-6 metra, hvernig sem ég reyndi. Svipuð tilfinning grípur mig þegar ég heyri áramótaávarp forsetans. Ég kemst ekki nær sjónvarpinu en brúninni á Predikunarstólnum.

Síðasta ár var gott hlaupalega séð, líklega það besta frá upphafi. Að hlaupa af og til með Neil Kapoor, hinu ágæta breska ofurmenni, sem dvaldi hér fram á vor, breytti ýmsum viðmiðunum. Það gekk allt upp sem stefnt var að. Það var hlaupið mikið, oft og lengi. Vikum saman hljóp ég þrisvar á dag. Vikurnar fóru upp í 200 km sem mér hefði þótt óhugsandi fyrir nokkrum árum síðan.
Marsmaraþonið gekk vel, Við Svanur urðum í öðru og þriðja sæti, reyndar á ekkert sérstökum tíma, en sama var, það gekk fínt.
24 tíma hlaupið á Borgundarhólmi var í lok maí. Þar gekk allt upp og náði ég að hlaupa rúma 217 km innan tilskyldra tímamarka. Það skilaði mér í 5. sæti á norðurlöndum af rúmlega 100 hlaupurum norrænum sem þreyttu hlaup af þessari tegund á síðasta ári. Ég varð í 84. sæti á heimslistanum af 2130 körlum sem hlupu þetta hlaup á árinu og í 3. sæti í heiminum af körlum 55 ára og eldri.
Laugavegurinn var næstur. Ég fór hann á 6.30 sem þykir rólegur tími nú til dags. Ég hélt svo áfram og fór yfir Fimmvörðuháls niður í Skóga. Ég hafði ekki farið yfir Fimmvörðuháls áður. Sú ferð var fyrst og fremst minnisstæð fyrir að það var brjálað veður á Morinsheiði, yfir Heljarkamb og upp Löngufönn. Ég þurfti að skríða á fjórum fótum yfir kambinn til að vera undir stórviðrinu sem skóf upp að sunnanverðu. Á leiðinni upp Löngufönn þurfti maður að hafa fulla aðgæslu svo maður fyki ekki um koll eða eitthvað út í buskann. Þetta gekk hins vegar allt vel og var ágætur endir á góðum degi.
Í Reykjavíkurmaraþoninu kom sú hugmynd upp skömmu fyrir hlaupið að taka tvöfalt maraþon. Ég lagði af stað upp úr 4.30 um nóttina og kom í markið rétt þegar búið var að ræsa kl. 8.30. Ég lauk hinu formlega hlaupi á rúmum 4 klst og var um miðjan hóp. Maginn var að pirra mig í hlaupinu og kenndi ég um krydduðum pinnamat sem ég borðaði kvöldið áður. Líklega ekki undirstöðufæða fyrir maraþon.
Um mánaðamótin ágúst / september var annarri hugmynd hrint í framkvæmd. Við fórum fimm saman vestur á firði og hlupum Haustlitahlaupið með ýmsum útfærslum. Leiðin milli Flókalundar og Bjarkalundar er flott leið. Hún er 125 km löng og var henni skipt á tvo daga sem passar mjög vel. Við fengum fínt veður og varð úr þessu mjög eftirminnileg og góð helgi.
Í september voru hitaæfingar fyrir Spartathlon efstar á baugi. Ég þrælaðist þá kappklæddur á bretti inni í Laugum til að undirbúa mig undir hitann í Grikklandi.
Spartathlonið var haldið síðustu helgina í september. Það er lengsta hlaup í heiminum og jafnframt með erfiðustu tímamörkin. Eins og allt var andhælis í fyrra þá gekk allt upp í ár. Ég hafði undirtökin í hlaupinu allan tímann og lauk því í 74 sæti af 340 hlaupurum sem lögðu af stað. Alls komust 154 í mark. Ég varð 10. af 38 norðurlandabúum sem hófu hlaupið og í 3. sæti í elsta aldursflokki sem er 55 ára og eldri.
Í haust og vetur hef ég hlaupið miklu meir en nokkru sinni en áður. Frá því í byrjun nóvember hef ég sleppt einum degi úr útihlaupum. Maður getur ekki annað en verið bjartsýnn með nýtt ár. Sömuleiðis á maður að vera þakklátur fyrir að andi og efni skuli standa undir því sem á það er lagt. Það er ekki sjálfsagður hlutur.

Ég hef tvö meginmarkmið í huga í hlaupum erlendis á komandi ári.
Í fyrsta lagi hef ég hug á að taka þátt í 48 tíma hlaupi á Borgundarhólmi í lok maí. Það var haldið í fyrsta sinn í fyrra og tókst mjög vel.
Í öðru lagi langar mig að taka þátt í London - Brighton hlaupinu í byrjun október. Það er eitt af fjórum klassískum ultramaraþonhlaupum í heiminum. London-Brighton er elsta ultramaraþon hlaup í heimi. Það er um 90 km langt og ætti að takast. Hið síðasta í röðinni er Comerades í Suður Afríku. Það er fjölmennasta ultrahlaup í heimi (12000 - 15000 manns).
Þessu til viðbótar eru vitaskuld maraþonin hér heima á dagskránni eftir því sem aðstæður leyfa, Laugavegurinn og önnur góð hlaup sem passa inn í plönin.

Síðan er ég að velta fyrir mér nýju verkefni hér heima sem kemur í ljós hvort gengur upp.

Engin ummæli: