Ég skráði mig á Laugaveginn í fyrradag. Þá var ég keppandi nr 121. Í gær voru á þriðja hundrað keppnendur búnir að skrá sig og enn er um hálft ár til stefnu. Það er flott. Það gæti á fjórða hundrað manns viljað taka þátt í Laugavegshlaupinu í sumar. Þá yrði það örugglega fjölmennasta ultrahlaup á Norðurlöndum. Það kom í ljós í fyrra að með smá skipulagningu er ekki stórmál að halda utan um þennan fjölda. Vitaskuld er í mörg horn að líta en með þeim góða mannskap sem hefur haldið utan um hlaupið unanfarin ár þá gengur þetta allt vel upp. Það verður gaman að sjá hvernig fjölmiðlar sinna þessum viðburði í sumar. Það er hægt að setja upp hundshaus og segja að það sé miklu merkilega að fimbulfamba um það viku eftir viku og mánuð eftir mánuð hvort einhver fótboltamaður sem er á síðasta snúning á keppnisferlinum verði seldur eða ekki eins og dæmi eru um. Það er einnig hægt að sinna þessu virkilega vel og senda með því ákveðin skilaboð inn í samfélagið sem koma til með að hafa mikil áhrif til lengri tíma litið. Án þess að maður sé að tala um einhverja einangrunarstefnu þá er það skylda fjölmiðla að sinna því vel sem vel er gert á innlendum vettvangi er þegar á brattann er að sækja í samfélaginu.
Ég lét einnig slag standa í dag og skráði mig í 48 tíma hlaup á Borgundarhólmi í maí. Ég er að vísu ekki búinn að borga það en sama er, stefnan er mörkuð. Þetta er eðlilegt framhald af því að vera búinn að taka 24 tíma hlaup tvisvar og síðan Spartathlon sem tók einn og hálfan sólarhring. Það á ekki að vera neitt mál að klára tólf tíma til viðbótar. Það er bara spurnig hvernig á að leggja svona hlaup upp. Á maður að taka fyrri sólarhringinn af krafti og freista þess að slá 217 kílómetrana frá því í fyrra og taka síðan seinni sólarhringinn rólegar og láta sjá hvað maður kemst langt á því eða að hlaupa taktiskt. Taka fyrri sólarhringinn frekar rólegan og hafa síðan nóg á batteríunum fyrir þann seinni. Þetta verður skoðað betur í vetur. Þessi tímasetning passar mér mjög vel miðað við önnur hlaup og önnur plön. Maður verður búinn að hvíla sig vel um miðjan júní og þá getur undirbúningur fyrir Laugaveginn hafist og ýmislegt annað.
Fyrsta 24 tíma hlaup ársins var haldið í Árósum um síðustu helgi. Brölling, sem var annar á Borgundarhólmi sl. vor vann hlaupið með 216 km. Tveir aðrir komust yfir 200 km, báðir frá Þýskalandi.
Maður skilur ekki alveg eftir hvaða formúlum var unnið í Seðlabankanum í fyrra. Fjárstreymið úr honum var alveg gengdarlaust. Annað hvort hafa þeir sem taka ákvarðanir ekki treyst sér til að stíga á bremsurnar, því lánstraustið var greinilega búið annarsstaðar eða þeir hafa látið slag standa og ausið út peningum meðan eitthvað var til og vonað hið besta. Það getur ekki hafa dulist neinum einasta manni hvað var þarna að gerast. Svo stendur Seðlabankinn eftir gjaldþrota og ríkissjóður verður að hlaupa til og setja um 3/4 fjárlaga inn í bankann til að forða honum frá gjaldþroti. Svo er sagt að þetta kosti lítið sem ekkert. Hvar eru fjölmiðlar? Hvar er umræðan um þetta mál nema á Eyjunni?
Mér finnst að lögreglan þurfi að skerpa sig í vinnubrögðum og framkvæmd á vettvangi við aðstæður eins og voru við Alþingishúsið í gærmorgun. Ástandið í samfélaginu er ekki í jafnvægi og það vissulega ekki að ástæðulausu. Uppákoman við Alþingishúsið ætti að vera yfirmönnum lögreglunnar víti til varnaðar. Að örfáir lögreglumenn séu að slíta einn og einn úr hópi þeirra sem blokkeruðu innganginn og ráðherrar standi á meðan óvarðir við hliðina á átökunum er hreinlega ekki í lagi. Að dulbúinn maður geti komist óáreittur að forsætisráðherra og haft sína hentisemi við aðstæður sem þessar gengur hreinlega ekki. Olof Palme sagði að það væri einn af kostum þess að búa í Svíþjóð að geta gengið óáreittur um göturnar. Allir vita hvernig saga hans endaði. Við svona aðstæður verður lögreglan að hafa stöðuna algerlega undir kontrol.
miðvikudagur, janúar 14, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli