föstudagur, janúar 16, 2009

Mér var send skepmmtileg mynd um þrjá hlaupara sem tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoni í sumar. Þau eru Anna Sigga, Eddi og Páll Gísla. Ég þekki konuna ekki en Eddi og Páll eru góðir kunningjar mínir. Eddi var m.a. í hópnum "Happy People" á Grænlandi í fyrrasumar, er nýbakaður Járnkarl og ég veit ekki hvað. Páll var ekki kenndur við hlaup þegar ég þekkti hann. Hann greinist fyrir nokkrum árum með krabbamein í nýra og fær góðan bata. Til að styrkja skrokkinn í kjölfar veikindanna fer hann að skokka og hefur ekki stoppað síðan. Nokkur maraþon hafa legið svo og Laugavegurinn. Þetta var skemmtileg mynd. Í upphafi var spjallað við fólkið, síðan fylgst með því í hlaupinu og að lokum tekið smá viðtal við það í markinu. Eins og heyrist þá er þessi mynd gerð af erlendum aðila. Góð hugmynd fyrir innfædda kvikmyndagerðarmenn. Linkurinn er hér með. Mæli með þessu.
http://www.youtube.com/watch?v=wlYpojinuso


Það voru athyglisverðar fréttir sem birtust í dag um að menn væru komnir á spor þriggja manna sem að sögn hefðu stolið á annan tug milljarða úr Kaupþingi rétt fyrir hrun bankans. Búið að vísa málinu í formlegan farveg. Fróðlegt að vita hvenær sá fyrsti verður handtekinn, ef það gerist yfir höfuð. Egill Helgason fer nokkuð skemmtilega yfir það á Eyjunni í dag hvernig dansinn var stiginn við að halda uppi gengi bankanna og annara krosseignartengdra fyrirtækja. Þegar forsvarsmenn þeirra höfðu lagt mikið undir í kaupum á bréfum í bönkunum var allt lagt undir með að halda genginu uppi svo þau dygðu sem veð fyrir öllum þeim lánum sem búið var að taka út á þau. Þegar allt um þraut var ákveðið að afskrifa lánin. Þegar sá gjörningur kom í ljós eftir hrunið þá fór það misjafnlega í menn. Nú stendur að sögn umræðan um að gera upp lánin á móti bréfunum á ákveðnu gengi sem dugar til að skuldajafna. Eftir sitja þá þær eignir, sem viðkomandi aðilar hafa keypt fyrir öll lánin, skuldlausar. Í eigu viðkomandi einstaklinga en lánunum jafnað á bök almennings í formi hærri skatta. Er nema von að sumir fái hiksta og sofi verr en áður.

Fyrir nokkrum árum sat ég flokksþing Framsóknarflokksins. Setningarathöfn þingsins verður lengi í minnum höfð. Þrjár austurlenskar stúlkur sýndu magadans sem er þeirra útfærsla á súludansi. Þetta var á tímum þess að það þótti nauðsynlegt að vera modern og sýna nýtt lúkk. Allt betra en það gamla.
Ég kíkti á setningarathöfn flokksins á netinu í morgun. Við setningu þingsins sungu þrjár íslenskar stúlkur Ísland farsælda frón í fimmund. Þær klæddust mórauðum lopapeysum með flottum bekk. Spurning er hvort megi lesa breytta stefnu úr nýjum áherslum flokksins við setningu þingsins.

Engin ummæli: