Ég fór austur í Friðland í Flóa í gærkvöldi að skoða og mynda fugla. Það er alltaf jafn gaman að koma þarna, ganga um, setjast niður á tjarnarbakka og stúdera fuglana. Þeir eru mjög spakir þarna nema fjárans endurnar. Það má ekki renna á þær auga úr mikilli fjarlægð, þá er eins og sé verið að skjóta á þær. Lómurinn, óðinshaninn og jaðrakaninn eru hins vegar hundspakir. Ég sá sæsvölu við Ölfusárbrúna. AÐ vísu úr nokkurri fjarlægð út um bílglugga en sama er, sæsvala var það. Ég hitti tvo karla frá Eyrarbakka um helgina sem sögðu mér af henni og svo sá ég hana í gær. Hún heldur fyrst og fremst til úti í Eyjum en flækingar koma upp á land einstaka sinnum. Ég er að lesa æfisögu EldeyjarHjalta sem Jói gaf mér. Þegar hann er ungur maður úti í Eyjum var voru allar klær hafðar úti við að ná sér í smá pening. Meðal annars gaf eggjasöfnun svolitla aura. Egg sæsvölunnar voru verðmætust því þau voru sjaldgæfust.
Ég hlustaði á hluta af umræðunum á Alþingi þegar ég var fyrir austan eða lestur heimastila eins og þessi dagskrárliður er oft nefndur. Einstaka maður flytur mál sitt blaðalaust og er það vel. Mér finnst að það sé lágmark að menn reyni að láta svo líta út sem þeir flytji ræðurnar en lesi þær ekki upp. Sá ræðumaður hefur miklu meiri sannfæringarkraft sem flytur ræðuna heldur en sá sem les hana upp. Ég hef ekki heyrt það áður í svona umræðum að einstakir stjórnarþingmenn vaði efnislega í forsætisráðherrann. Það ber nýrra við ef það á að vera plagsiður. Annað hvort vinna menn saman og afgreiða ágreining baksviðs eða ekki. Ég veit ekki hvort þetta sé hið nýja Ísland.
Það er svakalegt að horfa upp á hvert stórfyrirtækið falla í fang ríkisins á fætur öðru. Það getur ekki verið atvinnulífinu hollt að ríkið sé að verða æ stærri eigandi og ábyrgðaraðili á vinnumarkaði. Það verður fróðlegt að sá áætlun um hvernig á að vinna sig út úr þessu.
Maður heyrir alltaf af og til málsmetandi einstaklinga tala um að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn sé hið versta fyrirbæri og hann sé fyrst og fremst að þjálfa sig í fantabrögðum á íslensku þjóðlífi. Því sé skynsamlegast að slíta öllu samstarfi við hann og taka lán hjá vinum og kunningjum. Fagmenn sem maður treystir segjast síðan aldrei hafa heyrt aðra eins vitleysu. Við eigum engan góðan leik í stöðunni og hver leikur miðast við þá kastþröng sem við erum í. AGS er nokkurskonar eftirlitsnefnd sem veitir fyrirgreiðslu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Honum er meðal annars kennt um að vextir lækki ekki hraðar en raun ber vitni. Ef þróun vaxta og gengis eru borin saman þá kemur í ljós að gengi krónunnar hefur hrokkið niður í hvert sinn sem vextir hafa lækkað. Því eru menn hræddir við að lækka vexti hraðar því það hafi áhrif á gengi krónunnar sem aftur á móti hefur áhrif á verðlag innflutnings, þróun gengistryggðra lána og verðbólgustig. Það er vandrataður meðalvegurinn.
miðvikudagur, maí 20, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur okkur ákveðnar skorður, t.a.m. getum við ekki beitt sömu aðferðum og Bandaríkin til að vinna bug á kreppunni, það er prenta peninga og auka peningamagn í umferð. Eins setur hann okkur skorður varðandi útgjöld ríkissjóðs og að ná endum saman einhvernveginn. Sumt af þessum skorðum er ágætt en það væri kannski betra að hafa smá svigrúm.
En þetta er ekki svon einfalt að segja að við værum betur komin án AGS afskipta. Það er alveg rétt að AGS hefur lagst gegn vaxtalækkun eins og kom fram um daginn. Það er nokkuð sem má setja spurningarmerki við kannski, en amk væri gaman að fá nánari útskýringu á því hvers vegna svo er og hve lógíkin á bakvið þetta viðhorf er. Lækkun gengis er ein ástæðan sem ég get skilið.
Þú hittir naglann á höfuðið þegar þú lýsir AGS sem eftirlitsnefnd. Ég mundi líka segja að AGS sé ákveðinn bakhjarl sem sýnir lánveitendum frammá að Ísland sé með prógram og það sé óhætt að lána okkur peninga, enda undir verndarvæng AGS. Án AGS mætti fastlega búast við að lánshæfismat Íslands myndi húrra niður í það að kostnaður okkar við fjármögnun yrði fráleitlega hár. Þannig að rökin um að fá lán hjá vinum og kunningjum sé betra en AGS lán með þeim skilyrðum og eftirliti sem því fylgir ná skammt.
En aðeins um umræður á Alþingi. Hvaða stjórnarþingmann ertu að tala um sem óð efnislega í forsætisráðherra?
Talandi um fugla þá hef ég tvo daga í röð keyrt fram á uglu hér fyrir norðan og var ekki ánægður í morgunn þegar ég fattaði að ég var myndavélalaus og sá hana sitja á næsta girðingarstaur og fylgjast með umferðinni til Akureyrar.
Reyni að ná henni næst
Skrifa ummæli