Aðalritarinn sagði mér í dag að það hefði verið staðfest á óyggjandi hátt að drengurinn sem hljóp undir þremur tímum í sínu fyrsta maraþoni og náði þriðja sæti íslendings hefði hlaupið alla leiðina á nákvæmlega sama hátt og aðrir, nema einungis hraðar en flestir. Þetta er mikið fagnaðarefni á marga vegu. Í fyrsta lagi er frábært af ungum og óhörnuðum dreng að renna maraþonskeiðið undir þremur tímum, að maður tali ekki um að hann skuli gera það í sínu fyrsta þoni. Þarna er mikið efni á ferðinni. Í öðru lagi er fínt að öllu tali um hugsanlegt fúsk skuli útrýmt. Fúsk hefur komið fyrir í maraþonhlaupi eins og í öðrum íþróttagreinum. Maður veit aldrei hvað einhverjum húmoristum dettur í hug. Það er ekki nema von að upp komi efasemdarraddir þegar það gerist að tímataka með örgjörfa dettur út og það gerist í tvö skipti hjá sama einstaklingnum af þeim fimm skiptum sem það gerist í hlaupinu öllu. Flagan hefur verið gölluð eða eitthvað svoleiðis. Það er á engan hallað þótt kannað sé í slíkum tilvikum hvort allt hafi verið í lagi, það er nauðsynlegt fyrir alla aðila. Gott að niðurstaða er fegnin. Það er vonandi að drengurinn leggi ekki hlaupaskóna á hilluna eftir þessa glæsilegu innreið á sviðið, heldur leggi frekari rækt við íþróttina eða hvað það er sem maður á að kalla maraþonhlaup.
Þetta kemur manni til að hugsa um hlutina í aðeins víðara samhengi. Hvernig velja krakkar og unglingar hvaða íþróttagrein þeir stunda ef þeir eru áhugasamir um íþróttir á annað borð. Fótboltinn fær langmesta umfjöllun af öllum íþróttagreinum hérlendis. Umfjöllun um fótbolta tröllríður íþróttafréttum bæði sem alvöru fréttir og síðan er fyllt upp með ekki fréttum ef ekki er annað að hafa. Þessi spilaði ekki, þessi var ekki valinn í liðið o.s.frv. Við þessa síbylju í fjölmiðlum er það eðlilegt að ungir krakkar horfi fyrst á fótboltann. Þar eru stjörnurnar, þar er umfjöllunin, þar eru peningarnir. Í Svíþjóð og Finnlandi er það aftur á móti íshokkíið sem hefur þessa stöðu að hluta til. Sumir Finnar sem búa í Tampera og talað var við í sjónvarpinu í gær höfðu ekki einu sinni hugmynd um að EM í kvennafótbolta færi fram í Tampere enda þótt finnska landsliðið væri þar á meðal. Það er hins vegar mjög líklegt að fjölmargir krakkar sem verða fyrir þessum áhrifum reyni við sér í íþrótt sem passar honum alls ekki. Tvennt getur gerst. Annars vegar að viðkomandi festist í fótbolta og verði aldrei neitt sérstaklega góður eða að hann fyllist leiða á íþróttum og hættir. Of lítið er gert til að kynna fjölbreytilegar íþróttir fyrir krökkum og gefa þeim kost á að finna hvað hentar þeim best. Einn frændinn í fjölskyldunni spilaði t.d. fótbolta og reyndi fyrir sér í frjálsum þegar hann var yngri. Það gekk ekki nógu vel. Síðan datt hann inn í íshokkí. Þar fann hann fjölina sína, orðinn unglingalandsliðsmaður, hefur ferðast til fleiri landa með landsliðinu og spilar á fullu. Frjálsar íþróttir hafa einhverra hluta farið heldur halloka fyrir öðrum íþróttareinum á liðnum árum. Einhverra hluta vegna hafa hópíþróttirnar náð fleiri krökkum til sín. Kannski hafa íþróttafélögin ekki staðið sig nógu vel í að kynna greinina fyrir krökkum og unglingum. Þetta má meðal annars marka af því hve gömul íslandsmet eru orðin í mörgum greinum og hve afrek voru oft betri fyrir nokkrum áratugum. Jón Þ. Ólafsson sem fór á ólympíuleikana í Róm 1960 og Tókío 1964 stökk ca 200 sinnum yfir 2 metra í hástökki. Í dag stekkur enginn íslendingur yfir tvo metra nema Einar Karl gerði það þó í sumar en hann hætti að æfa fyrir fimm árum. Jón Arnar Magnússon, tugþrautarmaður, á besta afrek íslendings í allnokkrum greinum sem hann keppti í. Íslandsmet Sigfúsar í 10 km hlaupi stóð í yfir 30 ár þar til Kári Steinn sló það í fyrra. Það eygir enginn íslandsmet Vilhjálms Einarssonar í þrístökki sem sett var árið 1960. Þannig mætti áfram telja. Ekki er hægt að kvarta yfir aðstöðunni lengur. Íslendingar ráða yfir flottum aðstæðum við að iðka frjálsar íþróttir innanhúss. FRÍ þarf að taka þessi mál föstum tökum með langtímasjónarmið fyrir augum. Það er samkeppni um íþróttasinnaða krakka og það á að leitast við að beina þeim inn á þær brautir sem henta þeim best. Einar Daði, nýbakaður norðurlandameistari í 400 m grind 19 ára og yngri, var uppgötvaður meðan hann spilaði fótbolta með Víking. Hann hefði vafalaust orðið þokkalegur fótboltamaður en hann hefur alla möguleika á að verða mikill afreksmaður í frjálsum íþróttum.
mánudagur, ágúst 24, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli