laugardagur, ágúst 29, 2009
Í gegnum tíðina hef ég iðulega þótt hafa þjóðlegar hefðir í nokkrum heiðri, jafnvel svo að ýmsum hafi þótt nóg um. Mér finnst það í sjálfu sér vera ágætt að vera í ákveðnum tengslum við uppruna sinn, enda þótt maður megi ekki láta nýja strauma og áherslur fram hjá sér fara ef þeir eru skynsamlegir, skemmtilegir eða til gagns. Ég sé nú að mér hefur hlotnast allnokkur liðsauki í þessari afstöðu hvað varðar virðingu fyrir þjóðlegum hefðum. Gömul gildi eru leidd fram og þeim veittur sá sess sem þau eiga skilið en eitthverju tilgangslausu hoppi og híi út um holt og móa er sópað undir teppið á þann stað sem því hentar.Moggi birtir í morgun fína mynd af íslandsmeisturum í hrútaþukli með nöfnum og góðri frásögn af keppninni. Þetta finnst mér fínt. Hrútaþukl er gömul og góð faggrein í sauðfjárrækt og því ber að fagna að henni skuli veittur sá sess sem henni ber. Kindin hefur haldið lífi í þjóðinni síðustu rúm 1000 árin og er greinilega að verða sá bjargvættur sem mun gera okkur fært að tóra hérna megin landamæranna um ókomna tíð. Á komandi tímum þegar landsmenn verða í stórum dráttum læstir inni í landinu sökum stöðu krónunnar þá er eðlilegt að menn leiti uppruna síns. Erlendar tískubólur eins og maraþonhlaup sem upprunnið er í Grikklandi er ekki íslenskt. Maraþonhlaup er því óþjóðlegur viðburður og því er best að kæfa svoleiðis tilburði strax í fæðingunni með því að segja hvergi frá þeim. Því horfa fjölmiðlar á íslandsmeistaramót í maraþonhlaupi með blinda auganu og segja frá þeim með þögninni. Þá hættir fólk smám saman að nenna þessu og snýr sér vonandi í vaxandi mæli að íslandsmeistaramótum í hrútaþukli og sandbolta. Hvað Laugavegshlaupið varðar þá mætti náttúrulega breyta um nafn á því og kalla það smalamennskuhlaup. Kannski það myndi verða til þess að fjölmiðlar myndu viðurkenna hlaupið sem íþrótt og segja almennilega frá úrslitum þess. Nú er ég reyndar í slæmri stöðu í þessu sambandi. Ég hef nefnilega háskólagráðu (ein af fimm) í hrútaþukli og hef þar að auki stundað það sem atvinnu. Því er ég ekki gjaldgengur í íslandsmeistaramóti áhugamanna í þessari keppnisgrein sem fyrrverandi atvinnumaður. Það má einnig segja að ég hafi verið atvinnumaður í smalamennsku hér áður fyrr á árunum, alla vega hálfatvinnumaður. Því eru góð ráð dýr í þessu sambandi. Ég sé því ekki fram á annað en að ég verði að stunda áfram óþjóðlegar greinar eins og maraþon og það sem er þar á bakvið um ókomna framtíð því þar hefur maður áhugamannsskírteinið tiltölulega óflekkað.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli