Það er flott hjá kvennalandsliðinu í fótbolta að vera komnar í úrslitakeppni EM. Það er náttúrulega á móti öllum náttúrulögmálum að lið frá þjóð sem telur 300.000 manns skuli vera meðal þeirra bestu. Það er hins vegar raunhæft mat að hvert stig sem þær fá í riðlakeppninni er sigur. Ísland komnst inn í umspili en ekki með því að sigra riðilinn. Maður hafði hálfpartinn á tilfinningunni að allt umstangið í kringum liðið væri orðið á grensunum áður en þær fóru úr. Kvikmynd, endalaus viðtöl, auglýsingar og fleira. Allt tekur þetta tíma og þetta tekur líka andlegan toll. Það má vara sig á að tjúnast ekki upp í ofmetnað af svona löguðu. Það kom t.d. fram hjá einhverjum sérfræðingnum í sjónvarpinu að það var bara betra að hans mati að leika við sterkustu liðin fyrst. Það var svolítið eins og það væri bara formsatriði að komast upp úr riðlinum. Maður hafði á tilfinningunni í leiknum á móti Frökkum að andlega spennustigið hefði verið komið upp fyrir rauða strikið. Við fyrsta mótlæti brotnuðu þær og Frakkar unnu verðskuldaðan sigur. Léleg dómgæsla kvað við. Það er ekki í fyrsta sinn í þessum leik sem dómgæsla er umdeilanleg. Það er partur af dæminu. Það vinnur hins vegar enginn leik í úrslitakeppni með því að færa andstæðingnum þrjú mörk á silfurfati. Fáránlegt brot í vítateig sem gaf seinni vítaspyrnuna, klúðurslega tekin vítaspyrna og síðan mjög slæm markmannsmistök sem eru allt að því óskiljanleg hjá eins reyndum markmanni og ÞH er. Mér finnst því dapurlegt að heyra að allri skuldinni fyrir tapinu skuli skellt á dómarann (nema af þjálfaranum, hann hélt haus í þessu sambandi). Moggi fjallaði t.d. vart um annað í íþróttakálfinum í morgun en dómgæsluna á EM. Í svona keppni verða menn að horfa í andlitið á sjálfum sér er eitthvað fer öðruvísi en ætlað var. Það er síðasta sort að kenna öðrum um ófarir sínar en aftur á móti svolítið íslenskt. Vonandi gengur betur í leiknum á móti Norge á morgun en það er algerlega undir þeim sjálfum komið.
Ég sá í fréttum í dag að liðið hefur fjölda manns í kringum sig. Vafalaust þurfa þær á þvi að halda og það þýðir nátturulega ekki annað en tjalda því sem til þarf í svona keppni ef hámarksárangur á að nást. Þetta minnir mig á að þegar Einar Daði og Helga Margrét tóku þátt í EM í tugþraut í sumar þá höfðu þau enga aðstoð af neinu tagi nema þjálfarana. Engan nuddara, engan sjúkraþjálfara eða neitt annað álíka. Helga Margrét var engu að síður að keppa að evrópumeistaratitli og hafði allar forsendur til að taka hann. Þegar hún meiddist voru það sænsku læknarnir sem komu henni og þjálfara hennar til aðstoðar. Það var vitaskuld læknir með sænska liðinu fyrir utan alla aðra aðstoðarmenn. Þetta er náttúrulega óforsvaranlegt að senda engan aðstoðarmann með keppendum í tugþraut sem eru ofan á kaupið að stefna að efstu sætum. Keppni í tugþraut er það erfið að það er nauðsynlegt að fá nudd í lok keppnisdags og hafa í leiðinni möguleika á að taka á minni háttar eymslum.
miðvikudagur, ágúst 26, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli