Þorkell Sigurlaugsson framkvæmdastjóri hjá HR var með fyrirlestur í Rótaríklúbbnum í gær. Hann hefur verið áður með spjall þar og það er alltaf gaman að hlusta á hann. Hann er skýr og skeleggur fyrirlesari. Hann talaði út frá bókinni sem hann gaf út í vor og ræddi þar meðal annars um ástæður efnahagshrunsins. Ein af ástæðum þess taldi hann vera ákveðið siðrof sem birtist í taumlausri græðgi og ófyrirleitni þar sem tilgangurinn helgaði meðalið. Ég fór í framhaldi af fyrirlestri Þorkels að velta þessu með siðrofið fyrir mér í víðara samhengi. Er siðrof ekki til staðar á ýmsum öðrum sviðum? Hvað veldur því að fólk opnar gluggann á bílnum og hendir umbúðunum utan af Mac Donald fjölskyldupakkanum út á götuna eða sheikdollunni? Hvað veldur þessari svakalegu umgengni í miðbænum þegar einhver mannsöfnuður kemur þar saman? Það er nú ekki eins og það hafi ekki komið saman margt fólk annarsstaðar en í miðbæ Reykjavíkur. Þeir sem hafa komið á Römbluna eða Strikið vita það. Þar dettur engum manni að henda öllu rusli og drasli frá sér þar sem staðið er hverju sinni. Ég fór einu sinni gegnum miðbæinn Reykjavíkur morguninn eftir Gay Pride. Hann var eins og vígvöllur. Glerbrot, umbúðir, glös, bjórdollur, ælur og ég veit ekki hvað var út um allt. Ég er ekki að segja að umgengni á Gay Pride hátíðinni sé eitthvað verri en gengur og gerist en sama er, svona var þetta. Bærinn leit út eins og hann hafi verið fullur af siðlausum skríl. Ég man eftir því að þegar ég kom í fyrsta sinn í þorpin á Borgundarhólmi þá vakti snyrtimennskan þar sérstaka athygli. Síðan hef ég komið þangað oft og snyrtimennskan er alltaf eins. Þar eru í gangi ákveðnir mannasiðir. Þó er nú ekki eins og Borgundarhólmur sé ríkt samfélag. Atvinnuleysi er þar töluvert mikið. Þegar maður gengur um miðbæ Reykjavíkur þá er hann ekki þrifalegur nema síður sé. Maður hættir smátt og smátt að taka eftir þessu og verður samdauna ástandinu. En ef maður rífur sig út úr þeim doða og fer að horfa gagnrýnið í kringum sig þá blasir sóðaskapurinn við. Ég ætla ekki að segja til um hvað hægt er að gera en ef draslið, krassið og sóðaskapurinn er aldrei látinn í friði þá tekst smám saman að ná yfirhöndinni. Það tekur tíma en menn verða að vita í hvaða átt á að fara í þessum efnum. Það þarf að setja ákveðin markmið í þessum efnum og fylgjast síðan með hvernig gengur að ná þeim.
Textavarp sjónvarpsins birtir úrslit í ensku utandeildinni en ekki úrslit í úrslitakeppni liða í 1. deild kvenna í knattspyrnu. Gott að hafa á hreinu hvernig forgangsröðin er á þeim bænum.
þriðjudagur, ágúst 25, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli