þriðjudagur, ágúst 04, 2009

Það er margt sem skýrst hefur á síðustu dögum. Hluti stjórnkerfisins er gjörsamlega óhæfur. Hver lætur sér detta í hug að hægt sé að koma í veg fyrir umfjöllun um eitthvert mál með því að setja lögbann á umfjöllun um það í einum ákveðnum fjölmiðli? Við lifum ekki á tímum Prövdu í Sovétríkjunum eða Dagblaðs Alþýðunnar í Kína. Þegar veldi þessara fjölmiðla reis sem hæst var hægt að stýra því hvaða upplýsingar bárust til almennings í viðkomandi löndum. Það er ekki hægt í dag eins og dæmin sanna. Ef einhver lætur sér detta slíkt í hug þá held ég að rétt væri að skoða ályktunarhæfni og common sence viðkomandi í öðrum málum. Maður hefur sjaldan orðið vitni að eins svakalegu PR Harakiri eins og í þessu máli. Forsætisráðherra er mjög undrandi á innihalda lánabókarinnar samkvæmt fréttum. Á maður virkilega að trúa því að æðstu stjórnvöld og nánustu fagstofnanir þeirra hafi ekki haft glöggt yfirlit um það sem gerðist innan bankanna áður en þeir hrundu? Grundvallarupplýsingar eru forsenda þess að hægt sé að móta stefnu um í hvaða átt er farið. Hvernig munu stjórnvöld ganga til þess verkefnis að gera upp ástæður efnahagshrunsins?
Í fréttum í kvöld kom fram að kaupmáttur launa myndi hríðfalla á komandi mánuðum og misserum. Líklegt er að það herði á kröfunni um að uppgjörið fari fram fyrir opnum tjöldum. Upplýsingafulltrúi forsætisráðuneytisins segir að það búi rúmlega þrjúhundruðþúsund einstaklingar í landinu sem hafi mismunandi skoðanir á málum og innan ríkisstjórnarinnar séu margar stefnur í Icesafe málinu. Því sem erfitt að halda fram einni ákveðinni stefnu. Það er ekki skrítið með hliðsjón af þessum orðum að vönum PR mönnum þyki að betur megi halda á kynningarmálum landsins á erlendum vettvangi.

Ég held að það ættu sem flestir að klippa grein Evu Joly út og hafa hana á ísskápnum hjá sér og lesa hana af og til. Hún segir nákvæmlega það sem skiptir máli. Að hún komi þessari grein í þrjú erlend víðlesin blöð sama daginn segir svolítið til um hvaða rykti hún hefur á evrópskum vettvangi. Við ættum frekar að vera þakklát fyrir slíkan liðsmann en að hreyta í hann köpuryrðum.

Mikið er fjallað um lánabók Kaupþings í erlendum fjölmiðlum í dag. Danir hitta naglann á höfuðið þegar þeir kalla lánastefnu Kaupþings undir það síðasta "Ta det selv bord".

Ég er orðinn vandfýsnari á þær bækur sem ég kaupi en fyrr. Nú kaupi ég bara bækur sem maður vill eiga og getur lesið aftur og aftur. Ég hef keypt tvær bækur á síðustu dögum. Fyrir norðan keypti ég Ofsa eftir Einar Kárason. Bókin fjallar um aðdraganda og ástæður Flugumýrarbrennu á Sturlungaöld. Bókin er hreint mögnuð. Einari tekst að glæða frásögnina þvílíku lífi að maður þarf að lesa hana aftur og aftur til að ná að innbyrða verkið til fulls. Í öðru lagi kveikti þetta í manni löngun til að lesa Sturlungu og kynnast henni betur en hún hefur byggt bókaskápinn óhreifð í 10 - 15 ár.
Síðan keypti ég bókina " og svo kom Ferguson" sem Bjarni Guðmundsson prófessor á Hvanneyri skrifaði og er nýkomin út. Hún fjallar um uppruna Ferguson dráttarvélarinnar sem var farið að flytja til landsins upp úr seinna stríði og þann þátt sem hún átti í vélvæðingu sveitanna sem var undirstaða að stórfelldum framförum í landbúnaðinum. Í bókinni er getið um báða afa mína enda áttu hvorir tveggja sinn Grána, eins og fyrstu Ferguson vélarnar voru gjarna nefndar.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gunnlaugur. Það er búið að afnema réttarríkið semsagt og þér finnst það í lagi?

Hér eru lög um bankaleynd. Sýslumaður hefur engan annan kost en að samþykkja lögbannsbeiðni enda er hún í samræmi við lög. Lögbönn eru til þess að tryggja hagsmuni þangað til dómstólar hafa fengið að vinna málið.

Skiptir engu hvort það er einn fjölmiðill eða hvað. Lít á þetta sem test mál. Almenningur hefur engra hagsmuna að gæta að mínumati að fá að sjá lánabókina, enda er rannsóknarnefnd starfandi og sérstakur saksóknari og þeim er ætlað að fara með þessi mál. Þessir aðilar tryggja réttláta málsmeðferð, faglega og eru fulltrúar almennings.

Verst af öllu er að Kaupþingsmenn lúffuðu og hættu með málið, ég hefði viljað sjá það fara alla leið og fá úr því skorið í héraði og svo í hæstarétti hverni á að fara með bankaleynd.

En finnst þér í lagi að forsætisráðherra hafi gagnrýnt þetta lögbann? Eru þetta ekki óeðlileg afskipti stjórmálamanna af dómsvaldinu og stjórnsýslunni?

Er popúlisminn alveg að fara með alla yfirum hérna? Ertu í alvöru að segja að það eigi ekki að fara eftir lögum um bankaleynd? Hvaða öðrum lögum viltu ekki fara eftir?

Nafnlaus sagði...

Ég hef það fyrir reglu að svara ekki mönnum sem geta ekki komið fram undir nafni.

Nafnlaus sagði...

Sæll Gunnlaugur.

Ég er nánast alltaf sammála þér í þjóðfélagsrýninni og get tekið undir nánast allt sem þú hefur að segja um menn og málefni.

Ég hef margoft kommentað á blogginn þinn nafnlaust og tekið undir það sem þú hefur sagt. Oft hefur þú svarað.

Nú bregður svo við að við erum ósammála. Þá kemur í ljós að þú ert með "reglu" um að svara ekki mönnum sem geta ekki komið fram undir nafni!

Áttirðu ekki við að þú hefur þá reglu að svara ekki mönnum sem koma EKKI fram undir nafni OG eru þér EKKI SAMMÁLA?

En hvað um bankaleyndina? Engin komment?

Með vinsemd og virðingu,
Jón Gunnar

Nafnlaus sagði...

Sæll Jón Gunnar (sem ég geng út frá að þú heitir). Að mínu mati er netspjall á bloggsíðunni af tvennum toga. Annars vegar er almennt spjall um daginn og veginn (hlaup, myndir og fleira skemmtilegt) og hins vegar er efnisleg umræða og stundum skiptar skoðanir. Í fyrra tilvikinu skiptir ekki máli að mínu mati hvort menn skrifa undir nafni eða ekki en það skiptir máli að mínu mati í seinna tilvikinu. Ég orðaði það kannski ekki nógu vel þegar ég segðist ekki svara þeim sem ekki skrifa undir nafni. Réttara var hjá mér að segja að ég fer ekki í rökræður við þá sem ekki geta skrifað undir nafni. Það er bara mín afstaða að ef einhver er ósammála því sem ég er að skrifa á síðuna (og geri það alltaf undir fullu nafni) eða gagnrýnir afstöðu mína og umfjöllun um eitthvert málefni þá sé lágmarkskrafa að það sé gert undir nafni. Ég vil vita við hvern ég er að hafa skoðanaskipti en tek ekki þátt í þvi að rökræða við andlitslausa rödd út úr myrkrinu.
Hvað bankaleyndina varðar þá er hún eðlileg og nauðsynleg upp að vissu marki. Hana á hins vegar ekki að vera hægt að nota sem skálkaskjól.

Mbk

Gunnlaugur