mánudagur, ágúst 17, 2009

Ég hef verið nokkuð laustengdur við tölvur að undanförnu og síðan tíminn farið í annað. Ég fór upp í Reykholt á miðvikudaginn með kollega frá Norðurlöndunum. Við héldum þar ársfund hagdeilda norrænu sveitarfélagasambandanna. Á þessum fundum er bæði farið yfir fagleg málefni og síðan er socialt aktivitet til að menn kynnist aðstæðum hjá hver öðrum og rækta kunningjatengsl. Það skiptir miklu máli að hafa persónuleg sambönd við fagfólk á öllum Norðurlöndum sem maður getur haft samband við hvenær sem er. Við dvöldum á hótelinu í Reykholti. Þar eru fínar aðstæður og góður matur. Við fórum síðan í skoðunarferð um Reykholt, niður á Hvanneyri og Borgarnes og síðan í uppsveitir Reykholtsdals. Borgarfjörðurinn er mjög skemmtilegur fyrir utanaðkomandi hópa að heimsækja. Reykholt er náttúrulega einstakur ataður og allt að því heilagur í augum norðmanna. Þeir notuðu tækifærið og laumuðust til að baða sig í Snorralaug og voru lengi að fara upp úr, jafnvel þótt presturinn hafði við orð að bannfæra þá.
Við Sigrún fórum síðan austur í Skaftártungu á laugardaginn. Þar heimsóttum við vinafólk okkar Ágúst og Erlu. Þau eiga jörðina Svínadal sem er inn með Eldvatninu. Ágúst ólst upp í Svínadal. Faðir hans var einn af þessum undramönnum sem Vestur Skaftafellssýsla fóstraði á sínum tíma. Þessum mönnnum var ekkert ómögulegt sem tengdist vélum, tækjum, járnsmíði og rafmagni svo dæmi sé nefnt. Bjarni frá Hólmi er þeirra nafnkunnugastur en þeir voru ýmsir fleiri, þar á meðal faðir Ágústar. Hann setti upp í kringum 50 vatnsaflsstöðvar um allt land þar sem bæjarlækurinn var virkjaður og veitti með því ljósi og yl um fram að því dimm hús bændafólks. Nokkrar þeirra voru settar upp í hreppnum heima. Maður man eftir þvi hver munur var milli þeirra jarða sem höfðu rafstöðvarnar og þar af leiðandi nóg rafmagn til flestra hluta og síðan hinna sem höfðu í besta falli lítinn ljósamótor. Ágúst sýndi okkur vinnuaðstöðu föður síns en hún er óhreyfð frá því hann lést. Í örlitlum skúr, fullum af dóti og allskonar tækjum, var hægt að gera ótrúlega hluti. Með flatreimum sem lágu í allar áttir úr túrbínunni voru allslags vélar knúnar. Ofan í kaupið var fyrir ofan skúrinn borturn sem settur var upp til að bora eftir heitu vatni, knúður með reim. Ekki tókst borunin reyndar en sama var, það tókst flest annað. Það var hrein upplifun að skoða vinnuaðstöðu föður Ágústar og fá örlitla hugmynd um hverju hann áorkaði.

Því miður gekk ekki nógu vel hjá Ásdísi og Bergi á heimsmeistaramótinu. Það er svona, það gengur ekki alltaf allt upp. Mér fannst hins vegar skrítið að heyra það að hitinn hefði verið eitthvað erfiður. Kunna menn sem eru að fara að keppa í miklum hita virkilega ekki að gera hitaæfingar. Það er ekki flókið.

Ég fékk í gær upplýsingar um Haustlitahlaupið fyrir vestan. Ég er svolítið hugsi út af skipulagi og tímasetningum. Alla vega kemst ég ekki vestur á föstudeginum. Það er stjórnarfundur hjá sambandinu þann dag og maður hleypur ekki frá honum til að hlaupa.

Því miður lítur út fyrir rigningu á laugardaginn. Maður verður bara að vona það besta. Rigning myndi skemma þann þjóðhátiðarbrag sem vanalega á Reykjavíkurmaraþoni.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já eflaust mun rigning skemma fyrir RM, og ég er líka svo hissa af hverju þeir sem ráða þessu velja helgi svona seint í ágúst.Alltaf meiri hætta á einhverju veðri þegar líða tekur á mánuðinn.

Bkv.

Bryndís Magnúsdóttir