Stundum er maður pirraður yfir hlutum sem öðrum finnst ekki ástæða til að hafa áhyggjur af. Sem betur fer hugsa ekki allir eins, sínum augum lítur hver á silfrið og allt það. Nú er ég hins vegar pirraður yfir hlutum sem ég veit að margir eru mér sammála um. Í gær var Reykjavíkurmaraþon haldið. Það er uppskeruhátíð hlaupara á landinu. Um 11.000 manns tóku þátt í því með einum eða öðrum hætti, hlupu lengra eða skemur, hlupu hratt eða hægt. Það verða allir að byrja einhvern tíma svo menn skulu ekki heldur vanmeta það að hlaupa stutt eða hlaupa hægt. Ég var mjög stoltur þegar ég hljóp mitt fyrsta skemmtiskokk, að ég tali nú ekki um 10 km. Maður skyldi því halda að frásagnir af þessum degi þættu nokkur fréttaefni. Annað eins er nú tínt til. Það höfðu verið ágætar fréttir af RM í aðdraganda hlaupsins svo maður bjóst við að fjölmiðlar hefðu loks uppgötvað hvaða viðburður er þarna á ferðinni. Fyrir utan hefðbundið maraþon var þarna haldið íslandsmeistaramót í maraþoni. Í gær réðust einnig úrslit í seríu fjögurra 10 km götuhlaupa sem hafa verið haldin í sumar. Í þeim hafa fleiri þúsund manns tekið þátt. Þegar ég kom heim eftir hlaupið sló ég upp á textavarpinu til að skoða hverjir hefðu sigrað í maraþoninu. Ekki orð um það en vel var sagt frá úrslitum í leikjum í efstu deild í austurrísku knattspyrnunni. Maður bugtar sig og þakkar. Á mbl.is var sagt frá hvaða einstaklingur kom fyrstur í mark í maraþoni en ekki orð um aðra maraþonhlaupara. Íslandsmeistaramót í maraþoni, hvað er nú það? Maraþon hefur t.d. þannig sess á Ólympíuleikunum að verðlaun í því eru yfirleitt afhent á lokahátíð leikanna. Stærra getur það varla orðið. Ekki orð á vísir.is. Ekki orð á ruv.is. Maður spyr sig eiginlega hvaða rugl er hér á ferðinni? Skítt með fjölmiðla sem eru í einkaeigu, efnistök þeirra koma mér ekki við en ríkisfjölmiðill hefur ákveðnar skyldur. Maður hélt einnig að Mogginn hefði ákveðinn standard sem gamalgróið blað en það er greinilega ekki rétt mat. Ég miða í þessum efnum m.a. við umfjöllun breskra fjölmiðla um Londonmaraþon bæði maraþondaginn og daginn eftir. Þá skildi maður betur hvernig hægt er að byggja upp stemmingu sem skilar 35 þúsund manns í hlaupið með vandaðri umfjöllun fjölmiðla um hlauparana, sem beinist ekki einvörðungu að þeir sem taka verðlaunapening í hlaupinu. Eins og vel er staðið að RM og góður fjölmiðlataktur byggður upp í aðdraganda hlaupsins þá spyr maður sig hvað veldur. Eru fréttir ekki sendar út að hlaupi loknu eða er þeim hent í ruslið? Án þess að ég sé að dissa strandblak sérstaklega þá má minna á það að Moggi skýrði vel og vandlega í máli og myndum frá úrslitum í nýafstöðnu íslandsmóti í strandblaki þar sem öðru liðinu sem átti að keppa í úrslitaleiknum í karlaflokki fannst ekki taka því að mæta til keppni.
Sveinn tók þátt í sínu fyrsta hálfmaraþoni í gær. Hann kláraði á 1.34 sem er fínn tími, sérstaklega miðað við það að hann rak fótinn í keilu út á Nesi og flaug á hausinn. Hann fékk nokkrar skrámur og hrufl en fann taktinn fljótt aftur. Hann var með öfugt splitt en seinni hlutinn var mun hraðari en sá fyrri. Ég hef verið að hvertja hann til að finna hlaupahóp úti í Oxford. Miðað við þær frumraunir sem hann hefur þreytt í sumar held ég að hann hafi ákveðinn takt í götuhlaup og það sem mestu máli skiptir er að honum finnst þetta gaman.
Gott hjá ríkissjónvarpinu að fara nokkrum orðum um skrílslætin í miðborginni eftir að hefbundinni dagskrá lauk í gærkvöldi. Ef alltaf er sagt að allt hafi verið fínt sama hvað gengur á þá breytist aldrei neitt.
sunnudagur, ágúst 23, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Mikið er ég sammála þessu með slaka frammistöðu fjölmiðlanna. Þetta er bara alveg stórskrýtið! Þegar ég fletti Mogganum í morgun hélt ég næstum að blaðburðarkonan hefði stolið úr honum heilli opnu með umfjöllun um RM. En svo var víst ekki. Það eina sem ég sá í dæmigerði Moggaflettingu morgunsins voru einhverjar auglýsingar frá styrktaraðilum sem voru að þakka fólki fyrir þátttökuna - eða eitthvað svoleiðis. Dofri frændi minn skrifaði dálítinn pistil á Eyjuna um þetta sama mál, sérstaklega út frá því að sigurvegarans í kvennaflokki var að engu getið í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins á laugardaginn, sjá http://blog.eyjan.is/dofri/.
Skrifa ummæli