mánudagur, ágúst 10, 2009

Það var flottur hálfkarl á Stórhafnarfjarðarsvæðinu í gær. Sautján keppendur sem kláruðu hálfkarlinn og mörg þeirra á góðum tíma. Steinn sigraði Torben og lauk þrautina á besta tíma íslendings. Eva lauk sömuleiðis þrautinni á fínum tíma eða vel undir sex tímum á besta tíma íslenskra kvenna. Það var sérstaklega gaman að fá hóp Vestfirðinga með í keppnina en þeir hafa greinilega æft vel og eru til alls líklegir á næsta sumri.

Nú á ég ekki von á öðru en að aðstandendur keppninnar hafi látið fjölmiðla vita vel af henni en það er því miður ekki að sjá á vefmiðlum að þeir hafi tekið við sér. Það væri gaman að sjá hvar árangur efstu manna er í stærra samhengi s.s. í norrænu. Það er sú viðmiðun sem er eðlileg að bera okkur saman við. Einnig er aldursflokkaviðmiðun áhugaverð í því sambandi. Mogginn var að vísu með mynd frá keppninni í blaðinu í morgun en ekkert um sigurvegara eða árangur.
Áherslur fjölmiðla hvað íþróttir varðar er náttúrulega oft stórfurðuleg og maður veit af og ekki til hvað maður á að halda. Um daginn var það frétt á báðum sjónvarpsstöðvanna að einhver strákur sem leikur með einhverju gjaldþrota liði í Noregi fékk að koma inn á í korter undir lok í vináttuleik á móti Liverpool. Það er búið að selja 9 leikmenn frá þessu liði til að skrapa upp í skuldir. Strákurinn hefur þá verið í C liðinu. Það varð hins vegar að stórfrétt í íslenskum ljósvakamiðlum þegar hann fékk að koma ínn á í nokkrar mínútur í vináttuleik. Þótt umboðsmenn séu að reyna að koma strákum sem þeir eru með á sínum snærum á framfæri þá er ekki þar með sagt að það þurfi að hlaupa upp til handa og fóta þótt þeir séu að senda eitthvað crap út og suður.

Í hádeginu á sunnudaginn var langur upplestur á Bylgjunni á nöfnum fótboltamanna sem annað hvort höfðu verið á bekknum en ekki spilað eða ekki einu sinni komist í aðalliðið hjá klúbbnum sem þeir eru á mála með. Hvaða fréttamat og metnaður er þetta eiginlega? Maður bíður bara eftir úrslitum frá næsta stórmóti í strandblaki.

Nú er farið að styttast í Haustlitahlaupið fyrir vestan. Það væri gaman að heyra hvort einhverjir eru áhugasamir að koma með vestur í lengri eða styttri leggi. Hlaupið í fyrra va rafar skemmtilegt, jafnvel fyrir mig sem er búinn að keyra leiðina ótal sinnum. Þetta er félagshlaup en ekki keppnishlaup. Það þróast kannski upp í það með tímanum. Tveggja daga hlaup eru algeng í nágrannalöndum okkar sem áhugaverður valkostur í ultrahlaupum. Líkur benda til að hlaupið verði lengt frá því í fyrra og endað niðri á Reykhólum en ekki uppi í Bjarkalundi. Það er ekki spurning að Reykhólar munu taka vel á móti hlaupurunum. Þar er t.d. frábær sundlaug. Það er engin þörf á að hlaupa alla leiðina heldur geta menn tekið það sem þeim hentar.

Ég sá í dag að það er verið að frumsýna klukkutíma mynd fyrir austan um Barðsnesshlaupið og höfund þess, jaxlinn Ingólf Sveinsson. Þetta er flott. Vonandi verður hægt að sjá hana hér syðra innan skamms.

1 ummæli:

Börkur sagði...

mikil aukning hefur verið í hjólreiðaíþróttinni í Noregi og er hún orðin eins og segir í greininni hér fyrir neðan ”blitt den nye fotballen”

http://www.syklingensverden.com/baglercms.php?articleID=21708&catID=-1

Hvað fréttaleysið varðar þá er það bara þannig að það þarf að gera eitthvað stórt til að komast þessum greinum að og þá ekki undir flokka eins og föndur og fólk í fréttum.

Bendi á grein sem ég skrifaði í vor: http://barky.blog.is/blog/barky/entry/865567/

Kannski þurfum við að fá einn/tvo öfluga sem taka þetta að sér og kemur helstu hlaupum/hjól/sjósund á framfæri. Sting upp á Pétri Helga eða Gísla, tveir öflugir menn.