Það hefur verið rætt töluvert að undanförnu um bakreikning þann sem aldraðir og öryrkjar fá frá Tryggingastofnun ríkisins. Hann kemur meðal annars til vegna þess að fjármagnstekjur hafa verið vanætlaðar og þær eru að töluverðu leyti dregnar frá þaoim bótum sem viðkomandi aðilar fá frá stofnuninni. Á þessu eru ýmsar hliðar eins og komið hefur fram. Nú er ekkert á móti því að Tryggingastofnun taki mið af því þegar fólk hefur raunverulegar fjármagnstekur. Opinberar bætur eiga að vera öryggisnet en ekki sjálfsafgreiðsla peninga hvort sem fólk þarf á þeim að halda eða ekki. Komið hefur fram að í sumum tilvikum voru fjármagnstekjur reiknaðar vegna hlutabréfa sem reyndust síðan hjóm eitt sem eign. Fjármagnstekjurnar voru bara loftpeningar en ekki raunveruleg verðmæti. Annað sem ekki hefur farið hátt í umræðunni er að fjármagnstekjur eru bæði verðbætur og vextir. Mér finnst afar sérkennilegt að telja verðbætur sem tekjur. Verðbætur eiga að bæta upp rýrnun krónunnar vegna verðbólgu þannig að viðkomandi peningasumma hafi sama kaupmátt í enda tímabils eins og í upphafi þess. verðtrygging á að hafa í för með sér að eigandi peninganna sé jafnstæður eftir ákveðið tímabil enda þótt verðmæti gjaldmiðilsins hafi rýrnað. Segjum sem svo að einstaklingur eigi fimm milljónir krónur inni á verðtryggðum reikning. Hann fær 5% raunvexti og síðan verðtryggingu. Ef verðbólgan er 100% þá fær hann (gróft reiknað) fimm milljónir í verðbætur og síðan tvö hundruð og fimmtíu þúsundkall í vexti. Í árslok á hann því tíu milljónir og tvö hundruð og fimmtíu þúsund. Þessi sami einstaklingur hafði fengið eina milljón í bætur frá Trygginastofnun. Eftir breytinguna sem gerð var árið 2007 þá reiknast verðbætur sem tekjur. Þannig eru honum reiknaðar fimm milljónir og tvöhundruð og fimmtíu þúsund í tekjur. Fyrri bætur frá Tryggingastofnun lækka því verulega og ríkið sparar sér útgjöld. Ef verðbólgan er 0% þá fær þessi sami einstaklingur einungis tvöhundruð og fimmtíu þúsund í fjármagnstekjur. Það er innan skattleysismarka þannig að greiðslur frá Trygginastofnun dragast ekkert saman. Það er því ekki annað að sjá en að það sé ríkinu hagfellt hvað þetta uppgjör varðar að það sé töluverð verðbólga. Það sparar ríkinu greiðslur til gamla fólksins sem á einhverja smá aura inni á bók. Ég verð nú að segja að það er erfitt að sjá réttlætið í því að ríkið spari sér útgjöld úr Trygginastofnun eftir því sem verðbólgan er meiri. Mér finnst það bara vera spinnegal að telja verðbætur til tekna.
Lögfræðingsspíra nokkur skrifar grein í Moggann í dag til varnar glæpamönnum. Hann er ósáttur að það sé leyfilegt að ljósmyndarar geti tekið myndir í dómssal. Glæpamennirnir hafa mætt því með að koma í dómssal klæddir lambhúshettum, sólgleraugum og treflum. Spíran vitnar til Danmerkur og Noregs þar sem bannað er að taka myndir af sakborningum í dómssal. Af hverju er ekki alveg eins vitnað til Svóþjóðar, Finnlands, Englands, Þýskalands, Frakklands og Austurríkis, svo nokkur lönd séu nefnd, þar sem er þá líklega leyft að taka myndir af þeim. Ég man t.d. eftir að Fritzl sá umtalaði austurríski þrjótur hélt möppu fyrir framan andlitið á sér í nokkra daga. Þar sem ljósmyndun er bönnuð eru góðir teiknarar sendir á vettvang og niðurstaðan er nokkuð sú sama. Nú eru glæpir mismunandi alvarlegir. Mér finsnt að innflutningur á fleiri hundruð kílóum af eiturlyfjum sé allt að því atlaga að samfélaginu. Samfélagið á heimtinu á að vita hvernig þessir menn líta út svo það geti varað sig á þeim í framtiðinni alveg eins og á barnaníðingum. Persónuvernd á nefnileg frekar að snúa að því að vernda almenna borgara en ekki glæpamennina og misindisliðið. Spírurnar og lagatæknarnir hafa hins vegar einbeitt sér að því að verja glæpamennina og vandræðaliðið.
Bikarkeppni FRÍ fór fram í gær og í dag. Það var skemmtileg keppni þar sem prógrammið var keyrt áfram á skemmtilegan hátt. María var á sínu fyrsta ári í fullorðinsflokki og keppti fulla dagskrá þar sem Helga Margrét, sú mikla afreksstúlka, var meidd. Þá urðu aðrar að hlaupa í skarðið og draga vagninn. Stelpurnar í Ármanni/Fjölni náðu þriðja sæti þrátt fyrir að Helgu Margréti vantaði. Það hefði gustað í hnakkann á þeim sem unnu ef hún hefði verið í fullu fjöri. Ármann/Fjölnir varð svo einnig í þriðja sæti í heildina tekið. Eitt skil ég ekki en það er hvernig er hægt að láta breska landsliðskonu í frjálsíþróttum taka þátt í bikarkeppni uppi á Íslandi. Getur hún orðið bikarmeistari í tveimur löndum með tveimur félögum á sama árinu? Um innlenda frjálsíþróttamenn gildir að þeir mega einungis keppa með einu liði á hverju ári. Ég hélt að það gilti milli landa einnig. Þetta þarf að skoða svo þróunin fari ekki í neina vitleysu. Það er engu treystandi í þessu sambandi.
sunnudagur, ágúst 09, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli