Í vetur, þegar hin stóra mynd efnahagshrunsins fór að skýrast aðeins í öllu moldviðrinu, vorum við félagarnir eitthver sinn að ræða málin. Ég sagði að sá grunur læddist að me´r að af tvennu illu þá væri efnahagshrunið kannski illskárri kosturinn með öllum þeim hörmungum sem það hafði óhjákvæmi í för með sér. Það lá við að örfáir einstaklingar næðu öllum völdum í landinu, ekki einungis í efnahagslífinu heldur einnig í stjórnmálum og í stjórnkerfinu. Þá hefði ekki verið til baka snúið um alla framtíð. Sjálfstæði landsins hefði verið orðin tóm, lýðræðið hjóm, sjálfstæði fjölmiðla hjóm eitt og langflestir landsmenn hefðu verið áhrifalausir taflmenn á skákborði stórfínansins. Ég hef styrkst í þessari skoðun frekar en hitt eftir því sem fleiri upplýsingar hafa komið fram í dagsljósið. Sóðaskapurinn virðist hafa verið takmarkalaus. Ástandinu mátti líkja við þann hluta villta vestursins sem tengdist taumlausri græðgi þeirra sem sífellt ásældust meira land, miskunnarleysi þeirra gagnvart innbyggjum landsins og hóflegri virðingu fyrir lögunum. Ef lögin voru til vandræða þá var þeim breytt að þörfum. Starfsmenn FME hafa lýst því hvernig það var að mæta á fundum með fulltrúum stórfínansins á litlum Yaris og mæta röðum lögfræðinga á dýrustu jeppum sem völ var á.
Afleiðingarnar bankahrunsins eru flestum kunnar. Ríkisstjórnin setti a.m.k. 200 milljarða inn í bankana til að forða því að eigendur peningabréfa sjóða og innistæðueigendur töpuðu stærstum hluta eigna sinna (vissulega umdeilanleg aðgerð). Ríkissjóður setti ca 350 milljarða inn í Seðlabankann til að forða gjaldþroti hans þegar tryggingar bankans reyndust verðlausar. Icesafe dæmið er óvíst en getur verið um 350 ma króna. Samanlögð er upphæð þessara þriggja liða sem svarar fjárlögum tveggja ára. Atvinnuleysi er um 9% og mun verða á þeim nótum um nokkurra missera skeið. Byggingargeirinn er hruninn. Offjárfesting er gríðarleg í íbúðarhúsnæði á stórhöfðuðborgarsvæðinu. Krónan hrundi í verði sem gerði fjölmarga gjaldþrota sem voru skuldsettir í erlendum lánum. Xextir eru afar háir. Ég ætla ekki að rekja þessa upptalningu lengur, hún er flestum kunn. Í ljósi þessa er mjög skiljanlegt að það sé gripið til aðferða sem eru á jaðrinum til að upplýsa almenning og stjórnvöld um ástæður þessarar þróunar. Ég tek undir skoðanir þess efnis að þegar samfélagið er í jafnvægi verður að vera tryggt að trúnaðarupplýsingar leki ekki úr bankakerfinu. En samfélgið er ekki í jafnvægi. Það er í miklu ójafnvægi, vægt sagt. Eðlilegt er að leita að rótum vandans. Öðruvísi er ekki hægt að berja í brestina. Á það má minna að sérstakur saksóknari sem hafði það sem sérverkefni að rannsaka orsakir efnahagshrunsins fékk ekki aðgang að lánabókum bankanna í vetur. Bankaleynd var borið við. Þetta er eins og sena úr leikhúsi fáránleikans. Það verður að leita að orsökum hrunsins með öllum tiltækum ráðum svo hægt verði að koma lögum yfir þá sem þar eru orsakavaldar. Snærisþjófarnir eru búraðir inni eins og vanalega. Strákarnir sem stálu nokkrum milljónatugum af Íbúðarlánasjóði voru samstundis settir í einangrun. Á meðan berst samfélagið fyrir tilveru sinni á barmi fjárhagslegs hruns og það er engum að kenna. Er þetta mönnum bjóðandi?
Það er smá frétt á norska ultravefnum um Akureyrarhlaupið. Félagar okkar í Noregi eru áhugasamir um það sem er að gerast hérlendis í ultrahlaupum og birta oft fréttir á vefnum sínum um áhugaverð verkefni hér hjá okkur. Ég hef ekki hitt Einar sem heldur utan um vefinn en hef oft verið í tölvupóstsambandi við hann. Slóðin á vefinn er www.kondis.no/ultra
Ég fékk í morgun fréttabréf frá London - Brighton hlaupinu. Hlaupaleiðinni hefur verið breytt eitthvað frá því Ágúst hljóp það hér um árið. Það er búið að færa það af hraðbrautinni út á einhverja sveitavegi. Maður verður að hlaupa með kort til að rata!! Hægt er að leigja litla GPS senda eins og ég var með í Akureyrarhlaupinu svo aðstandendur geti fylgst með sínum manni og hugsanlega leiðbeint ef menn fara villur vegar. Hlaupið er um 90 km langt og það eru sesttar 13 klst sem hámarks tími. Það ætti að hafast ef maður villist ekki.
fimmtudagur, ágúst 06, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli